05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

19. mál, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Láta mun nærri að hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen hafi kynnt borgfirðingum málefni málmblendiverksmiðjunnar með álíka sannindum í gær eins og hann fullyrti það nú að við Jónas Árnason hefðum smalað slíku fjölmenni á fund þennan úr Reykjavik og víðs vegar af landinu að tæpast hefði verið mögulegt fyrir heimamenn að komast þar að. Það er satt, að við létum mývetninga vita af því að þessi fundur yrði haldinn uppi á Leirá og fjallaði um stóriðju, og það kalla ég fundarsókn að þeir komu að norðan til að segja frá reynslu mývetninga af sambærilegri stóriðju heima hjá þeim.

Ég hygg að þótt hæstv. iðnrh. og hæstv. samgrh. hefðu fengið þessa 7 klukkutíma til að skýra málefni málmblendiverksmiðjunnar fyrir heimamönnum þarna efra, hefðu þeir kannske orðið litlu nær. Svörin, sem þeir gáfu við spurningum varðandi þessa málmblendiverksmiðju, voru ýmist loðin, engin eða ósönn.

Það kalla ég loðin svör þegar ekki fæst upp úr hæstv. iðnrh. svar við þeirri spurningu, hvaðan hann hefði þær upplýsingar að engin mengun stafaði frá þessari fyrirhuguðu verksmiðju. Það kalla ég ósönn svör þegar sérfræðingur hans svaraði því til að hvorki væri hætta á kvikasilfurs- né blýmengun frá útblæstri þessarar verksmiðju. Að vísu vitnuðu þeir í forstjóra Union Carbide sem hefði fullyrt að frá þessari verksmiðju yrði bókstaflega engin mengun.

Ekki fengust heldur svör við þeirri spurningu til hæstv. iðnrh. hvernig framkvæmdum yrði hagað í sambandi við stofnun þessarar verksmiðju. Hann hafði áður gefið í skyn að þá fyrst yrði sótt um leyfi til heilbrigðisyfirvaldanna fyrir þessari verksmiðju þegar búið væri að samþykkja stofnunina á Alþ., búið að gera samninginn við Union Carbide og stofna hið innlenda fyrirtæki um þessa verksmiðju.