05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

19. mál, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þá reynir á karlmennsku og drengskap manna þegar þeir hafa beðið ósigur. Halldór E. Sigurðsson stendur hér upp til þess að ráðast á Sigurð bónda á Grænavatni Þórisson með dylgjum sem hann leyfði sér ekki að hafa uppi á fundinum á Leirá í gær, þar sem Sigurður Þórisson var sjálfur viðstaddur. Ég tel það líka nokkur tíðindi að þegar Halldór E. Sigurðsson ráðh. leyfði sér að hafa í frammi slíkar dylgjur með vægast sagt ósmekklegum hætti, þá hlær ríkisstjórn Íslands, hlær að manni sem er hvergi nærstaddur og hefur enga möguleika til að svara fyrir sig. Þetta er táknrænt, satt að segja, um ástandið í þessu máli og fjöldamörgum öðrum hjá okkur í dag, hvað valdamenn eru komnir óralangt frá Sigurði bónda á Grænavatni og fleiri slíkum. En það skal Halldór E. Sigurðsson vita að sá hlátur, sem honum tókst að vekja hjá ríkisstj. Íslands hér í dag, á eftir að bitna á honum sjálfum þegar hann kemur upp í Vesturlandskjördæmi.

Iðnrh. leyfði sér að halda því fram að annar þessara mývetninga hafi sagt að valdamenn á Íslandi skildu ekkert nema sprengjuna. Báðir þessir menn gerðu rækilega grein fyrir því hvers vegna mývetningar sáu sig tilneydda að ryðja burt því mannvirki sem þeir sprengdu úr Laxá til þess að eðlilegur samgangur yrði þar á milli ár og vatns, eðlileg tengsl yrðu aftur í því lífkerfi sem búið var að rjúfa með þessu mannvirki. Þeir gerðu þetta ekki fyrr en í fulla hnefana, þegar valdamenn höfðu þrjóskast við langa lengi að verða við bón þeirra um að ræða við þá.

En hér er ein spurning, sem borin var fram í gær, en hvorugur þessara ráðh. svaraði: Þegar það nú liggur fyrir að afstaða manna þar efra til þessarar verksmiðju er sú sem hún er, þá væri fróðlegt að heyra hvað verður gert ef systkinin á Klafastöðum (en þar á verksmiðjan að rísa, í landi Klafastaða, og eflaust að taka einhverja skika af næstu jörðum líka), ef þetta fólk neitar að fara, ef það situr sem fastast og neitar að fara? Ætlar þá ríkisstj. Íslands að senda á vettvang menn til þess að ryðja því burt svo að jarðýtur Union Carbide geti komist að?