05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

19. mál, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði í sambandi við jörðina Klafastaði, þá skýrði ég frá því á fundinum í gær, sem ég hafði áður skýrt frá opinberlega, að ég ræddi við systkinin á Klafastöðum 1373 um þetta mál. Svör þeirra voru þá þau sem ég sagði á fundinum í gær; þó að þau hefðu engan sérstakan áhuga á þessu mundu þau ekki koma í veg fyrir að þessi framkvæmd yrði gerð. Þeir bræður voru á fundinum í gær, heyrðu mig segja þetta og var því á engan hátt mótmælt, enda veit ég að þeir hafa enga löngun til þess.

Út af öðru, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði hér áðan, þá er það venja hans að halda að hann einn geti látið menn brosa. Er það þar sem hann trúir á sina sterku hlið og er ekki nema gott um það að segja, gott þegar menn eru skemmtilegir.

En það var fleira sem gerðist á fundinum í gær, m.a. það að ég varð að taka upp vörn gegn ómaklegum ámælum sem voru borin á fyrrv. iðnrh., því að mér datt ekki í hug, þótt það væru flokksmenn hans sem báru það á hann, að láta því ómótmælt. Þeir báru sakir á hann á fundinum í gær. Þess vegna mótmælti ég því. Út af þessu brosir nú hv. 5. þm. Vesturl. ekki.