05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

19. mál, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það er ósatt, að við höfum sérstaklega ráðist á fyrrv. iðnrh, á fundinum í gær. Við höfum hins vegar ekki, Alþb.-menn á Vesturlandi, farið neitt dult með skoðanir okkar á þessari verksmiðju og um það snerist málið. Við höfum alltaf gagnrýnt þetta, staðið gegn því og stóðum gegn því í kosningunum í vor, svo að það þurfti ekki að fara neitt á milli mála um okkar afstöðu.

En ég leyfi mér að spyrja hv. þingheim: Hvað segja menn um vinnubrögðin? Ráðh. kemur og lýsir því yfir sem tryggingu fyrir því að það muni vera allt í lagi fyrir auðhringinn Union Carbide að fara af stað, að hann hafi komið við á Klafastöðum 1973 og rætt þar í öllu sínu veldi að sjálfsögðu við systkinin, sem þar búa, og þau hafi sagt að þau hafi að vísu ekki neinn áhuga á málinu, en muni hins vegar ekki koma í veg fyrir að verksmiðjan verði reist. Þetta var 1973. Ég efast um að Halldór E. Sigurðsson hafi eytt miklum tíma í að útskýra málið. Að sjálfsögðu hefur hann komið og sagt: „Það stendur til að reisa verksmiðju“ — allt og sumt. Það hefur ekki veríð útskýrt fyrir þessu fólki hvernig í pottinn er búið, það er alveg áreiðanlegt. En eftir það, sem nú er upp komið í upplýsingum og eftir fundinn í gær, er mér ekki grunlaust um að afstaða þeirra kunni að vera breytt. Sé svo, að hún hafi breyst svo rækilega að þau ætli að sitja sem fastast, þá vil ég svar við því; Hvað ætla stjórnvöld að gera?