05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

19. mál, málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umr. um þann fræga fund í Borgarfirði. Hins vegar sýnist mér að ég geti varla setið hér sem þátttakandi í þessari n., viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, án þess að segja örfá orð.

Ég vil fyrst geta þess að viðræðunefnd um orkufrekan iðnað hafði ákaflega gott samstarf við fyrrv. hæstv. iðnrh. og hvert einasta atriði, sem tekið var þar til meðferðar og ákvörðunar var gert í fullu samráði við hann. M.a. lagði hæstv. iðnrh. á það ríka áherslu að gætt yrði þess að þarna væru notuð hin fullkomnustu tæki til hreinsunar, og það var gert. Það var ekki eingöngu ráðgast við Union Carbide, það var ráðgast við sérfræðinga sem sérstaklega voru til þess fengnir, og málið lá allt ljóst fyrir.

Frá slíkum verksmiðjum, ef engin tæki eru, kemur ákaflega mikið ryk, kísilryk. Ég hef skoðað verksmiðjur bæði með og án slíkra hreinsunartækja. Í þessari verksmiðju verða, ef verksmiðjan verður byggð, fullkomnustu tæki sem þekkjast og taka allt að því 99% af því ryki sem myndast. Það getur lækkað, ef gat kemur á poka sem er í þessum tækjum. Ég hef ekki tíma til þess að fara út í það hér, en skv. mælingum í Bandaríkjunum, sem eru þær ströngustu sem þekkjast, hreinsast u.þ.b. 96% að meðaltali af ryki frá verksmiðjunni (Gripið fram í: En kvikasilfrið?) Kvikasilfur er ekkert. Það er ekkert annað kvikasilfur en það sem er í náttúrunni. Það er ekkert kvikasilfur sem myndast í slíkri verksmiðju. M.a. vegna þess að mér er mjög annt um þessi mál hef ég tekið alls konar orðróm og beint fyrirspurnum ekki aðeins til Union Carbide, heldur til fleiri aðila um slíkan orðróm. Því hefur ávallt verið vísað á bug. Ég hef aldrei nokkurn tíma fengið staðfest að nokkuð slíkt myndist í þessari verksmiðju.