05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

28. mál, jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Árið 1973 voru samþ. lög um verðjöfnun á sementi með það fyrir augum að sementsverð um land allt yrði líkt á þeim höfnum sem skip sigldu til. Í 1. gr. frv. er einnig heimildarákvæði um að láta verðjöfnunina ná til annarra staða, sem engar hafnir hafa, og verslunarstaða upp í landi. 1. apríl s. 1. var gefin út reglugerð þar sem ákveðið var að láta verðjöfnunina ná til 40 staða auk þeirra hafna sem hún hafði áður náð til. Vegna þess að lögin eru fyrir hendi og reglugerðin hafa margir spurt hvenær þetta komi til framkvæmda því að enn er verðjöfnunin ekki komin til framkvæmda varðandi þessa 40 staði sem reglugerðin nær til. Það er enn fremur spurt hvort það verði ekki fleiri staðir en þessir 40 sem ætlað er að láta verkjöfnunina ná til. Enn er ekki búið að ákveða hversu mikið verður greitt í flutningskostnað, en þeir, sem versla með sement, halda því réttilega fram að ekki sé unnt að selja sementið úti á landi eftir að hafa flutt það með bifreiðum langar leiðir á sama verði og á hafnarbakkanum, nema flutningskostnaður sé að fullu greiddur. Flutningskostnaður er mjög dýr á landi, og það dugir ekki að segja að verðið eigi að vera svipað um allt land nema þessi kostnaður sé greiddur.

Á Suðurlandi er það þannig, að Selfoss er einn þessara staða sem verðjöfnun nær til, Hella, Hvolsvöllur og Vík í Mýrdal. Þeir, sem kaupa sement fyrir austan Mýrdalssand, fá enga verðjöfnun. Það liggur í augum uppi að sement austur á Kirkjubæjarklaustri hlýtur að vera miklu dýrara en í Vík. Það liggur einnig í augum uppi að eyfellingar, sem kaupa sement á Hvolsvelli eða Hellu, verða að fá sementið miklu dýrara en ákveðið er á fyrrnefndum verslunarstöðum. Einnig má minna á uppsveitir Árnessýslu, það kostar stórfé að flytja sementið frá Selfossi og nægir því ekki, þó að flutningskostnaður væri greiddur frá Reykjavík að Selfossi, til þess að árnesingar gætu fengið sement á lægsta verði.

Menn geta deilt um hvort réttmætt sé að hafa jöfnunarverð á sementi um allt land. Það er staðreynd að samþ. hafa verið lög um það og ríkisstj. hefur gefið út reglugerð í þeim tilgangi að láta þessa verðjöfnun koma til framkvæmda. En eins og háttað er enn í dag, þá er ekki um að ræða að unnt sé þrátt fyrir lögin, þrátt fyrir reglugerðina að hafa líkt verð á sementi um land allt.