06.12.1974
Sameinað þing: 18. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

68. mál, átján ára kosningaaldur

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Við þm. Alþfl. höfum á þskj. 72, flutt svo hljóðandi till. til þál.:

Alþ. ályktar, að gerð sé athugun á því hvort ekki sé tímabært og æskilegt að taka upp 18 ára kosningaaldur á Íslandi, og að jafnframt verði endurskoðaðar til samræmis við það aldurstakmarkanir laga á réttindum ungs fólks.

Athuganir þessar skal gera 9 manna n., kosin af Alþ. N. kýs sér sjálf formann.“

Allt frá því alþfl.- menn voru fyrst kosnir til Alþ. fyrir tæpum 6 tugum ára hafa þm. hans haft forustu um breytingu í lýðræðis- og jafnréttisátt á l. um kosningarrétt og kjördæmaskipan. Á fyrstu árum Alþfl. sem stjórnmálafl, með fulltrúa á Alþ. höfðu þannig þeir einir atkvæðisrétt við kjördæmakosningar, sem voru orðnir 25 ára að aldri og stóðu ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Við landskjör giltu þá sömu skilyrði varðandi þá sem þegið höfðu af sveit, en kosningarréttur í þeim kosningum var miðaður við 35 ár.

Rýmkun kosningarréttarins var frá öndverðu eitt af mestu áhugamálum Alþfl. Alþfl. barðist fyrir því að numið yrði úr l. það ákvæði að fólk, sem vegna fátæktar eða sjúkdóma hafði neyðst til þess að þiggja sveitarstyrk og ekki getað endurgreitt hann, yrði svipt kosningarrétti, og flokkurinn barðist fyrir því að kosningarréttur yrði miðaður við 21 árs aldur. Þetta ákvæði var m.a. í fyrstu stefnuskrá Alþfl.

Framan af mætti þessi barátta Alþfl. mikilli andstöðu, en þó tókst að lokum að fá stuðning viðsýnna manna úr öllum flokkum við þessi baráttumál Alþfl. Árið 1929 var svo 21 árs kosningaaldur lögfestur og sveitarstyrksákvæðið afnumið hvað varðar kosningar til sveitarstjórna. Með stjórnarskrárbreytingu árið 1934 voru sömu ákvæði tekin upp við þingkosningar.

Næsti áfangi í baráttu Alþfl. fyrir rýmkun ákvæða l. um kosningarétt og kjörgengi hófst árið 1963, en snemma á því ári hélt Alþfl, aukaþing, þar sem afgr. var ný og endurskoðuð stefnuskrá fyrir flokkinn. Eitt þeirra nýmæla, sem í stefnuskránni fólust var að Alþfl. tók upp baráttu fyrir 18 ára kosningaaldri. Þessa stefnu sina hefur Alþfl. og aðildarfélög hans síðan ítrekað á þingum sínum, nú síðast á 34. flokksþingi Alþfl., sem haldið var á árinu 1972 og á nýloknu þingi Sambands ungra jafnaðarmanna, 28. þingi þess, sem haldið var dagana 8: 10. nóv. s.l. Var á þessu þingi, 28. þingi SUJ, skorað á Alþ. samþ. á yfirstandandi kjörtímabili lög um að kosningarréttur, kjörgengi og hjúskaparréttur karla og kvenna yrði miðaður við 18 ár.

Í beinu framhaldi af þessari stefnuskrársamþykkt frá árinu 1963 um 18 ára kosningaaldur fluttu þm. Alþfl., þeir Benedikt Gröndal, Birgir Finnsson, Friðjón Skarphéðinsson, Jón Þorsteinsson og Sigurður Ingimundarson, till. til þál, um 18 ára kosningaaldur á Alþ. árið 1965, 80. löggjafarþinginu. Till. hljóðaði svo:

Alþ. ályktar, að gerð skuli athugun á því, hvort ekki sé tímabært og æskilegt að taka upp 18 ára kosningaaldur á Íslandi. Athugun þessa skal gera 7 manna n. kosin af Alþ. N. kýs sér sjálf formann. N. skal skila áliti fyrir setningu reglulegs Alþ. árið 1966.“

Í grg. með þessari till, þingflokks Alþfl. frá 1965 segir m.a. svo, með leyfi forseta:

„Því er haldið fram gegn 18 ára kosningaaldri að ungt fólk hneigist til ofstækis, öfga og yfirborðsmennsku. Þetta er sleggjudómur og mundi ráðlegra að sýna æskunni fullkomið traust. Þá fyrst mun reyna á þroska hennar og hann mun ekki bregðast í þessu efni fremur en hjá hinum eldri. Mikið er talað um vandamál æskunnar, ekki síst í velferðarríkjunum. Mun ekkert ráð betra í þeim efnum en að veita æskufólki sinn sess í þjóðfélaginu með fullri ábyrgð og trausti.

Íslenska lýðveldið þarf á hverjum manni og konu að halda og það krefst félagslegs þroska af hverjum einstaklingi. Því er tími til kominn að sýna hinni fjölmennu kynslóð, sem innan skamms á að erfa landið, það traust, að veita henni fulla íhlutun um stjórn landsins við 18 ára aldur.“

Þessar röksemdir úr grg. þáltill. frá 1965 með 18 ára kosningaaldri eiga ekki síður við nú en þær áttu við þá.

Framangreind þáltill. þm. Alþfl. frá 1965 var tekin til umr. á þessu þingi. Var henni vísað til athugunar hjá allshn. Sþ., og leitaði n. m.a. álits eftirtalinna aðila: SUS, SUF, SUJ, Æskulýðsfylkingarinnar, íslenskra ungtemplara og Sambands bindindisfélaga í skólum. Tveir þeirra síðast nefndu, þ.e.a.s. Íslenskir ungtemplarar og Samband bindindisfélaga í skólum, voru till. andvígir, en hinir umsagnaraðilarnir allir, öll stjórnmálasamtök ungs fólks í landinu, lýstu sig fylgjandi henni þegar árið 1965. Í áliti allshn. kom fram að n. þótti rétt og eðlilegt að láta fara fram sérstaka athugun á því hvort ekki væri tímabært að lækka kosningaaldurinn frá því sem þá var, en ekki náðist í nefndinni samkomulag um að tiltaka sérstaklega 18 ár í því sambandi. Þá taldi n. rétt að jafnframt yrðu endurskoðaðar aðrar aldurstakmarkanir laga á réttindum unga fólksins, svo sem fjárræðisaldur og hjúskaparaldur. Gerði n. nokkrar breyt. á till. þm. Alþfl. og lagði til, að hún yrði samþ. með svo hljóðandi breyt.:

Tillgr. orðist svo:

Alþ. ályktar að gerð skuli athugun á því hvort ekki sé tímabært og æskilegt að lækka kosningaaldur og að jafnframt verði endurskoðaðar aðrar aldurstakmarkanir laga á réttindum unga fólksins. Athugun þessa skal gera 7 manna n. kosin af Alþ. N. kýs sér sjálf formann. N. skal skila áliti svo snemma að unnt verði að leggja niðurstöður hennar fyrir reglulegt Alþ. 1966.“

Þannig breytt var till. svo samþ. á fundi Sþ. 22. apríl árið 1965. Breyt. er sem sagt fólgin í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi því atriði, að í staðinn fyrir að miða við 18 ára kosningaaldur, eins og þm. Alþfl. gerðu ráð fyrir, er aldurstakmark niður fellt, og í öðru lagi að því leyti til að inn í till. er því bætt, sem mér og okkur flm. finnst eðlilegt, að jafnframt því sem endurskoðuð verði ákvæði laga um kosningarrétt og kjörgengi unga fólksins, þá fylgi þeirri endurskoðun önnur endurskoðun á ákvæðum laga um önnur réttindi og aðrar skyldur sem ungt fólk þarf að gangast undir.

Með hliðsjón af þessu áliti allshn. Sþ. árið 1965 og því að Alþ. samþ. þessa niðurstöðu höfum við orðað till. núna eins og í tillgr. segir, að jafnframt því að athugað verði að færa kosningaaldurinn niður í 18 ár, þá verði jafnframt kannað að laga önnur ákvæði laga um réttindi og skyldur ungs fólks til samræmis við það.

Framhald málsins varð svo það að á næsta reglulega Alþ., 87. löggjafarþingi, sem var síðasta þing á kjörtímabili, var samþ. sú breyt. á stjórnarskrá lýðveldisins að kosningarrétt skyldi miða við 20 ár í stað 21 árs. Þessi stjórnarskrárbreyting varð tekin fyrir aftur á Alþ. á 88.löggjafarþingi, strax á fyrsta þingi að þingkosningum loknum, og samþ. þar endanlega hinn 29. mars árið 1968. Jafnframt voru á því þingi samþ. lög um breyt. á sveitarstjórnarl., nr. 58 frá 1961, þar sem kosningarréttur til sveitarstjórna var færður úr 21 ári í 20 ár, og lög um breyt. á l. um kosningar til Alþ., nr. 52 frá 1959, til samræmis við stjórnarskrárbreyt. Virðist full samstaða hafa ríkt meðal allra þingflokka um þessar breyt., nema hvað ágreiningur var uppi um aðrar breyt. á l. um kosningar til Alþ. sem gerðar voru og ekki fjölluðu um lækkun kosningaaldursins. Var sá ágreiningur einkum um 4. gr. lagabreyt., sem fól í sér að á eftir 2. málsgr. 27. gr. l. um kosningar til Alþ. skyldi koma ný málsgr. þar sem yfirkjörstjórn eru gefin fyrirmæli um hvernig með skuli fara beri sá aðili, sem skv. reglum flokks á að ákveða eða staðfesta framboðslista endanlega, fram mótmæli gegn því að listi sé í framboði fyrir flokkinn. Ágreiningurinn um þessa nýju lagasetningu, sem m.a. kom fram í þn. þeim sem um málið fjölluðu, var því ekki um lækkun kosningaaldursins, heldur aðrar breyt. sem gerðar voru jafnhliða og ekkert áttu skylt við lækkun kosningaaldurs úr 21 ári í 20.

Ég tek þetta sérstaklega fram og undirstrika það, að þegar þessi breyt. var gerð var ekki ágreiningur um hana sjálfa milli þingflokka á Alþ., heldur var hún gerð í fullri samstöðu allra þm. og þingflokka.

Þm. Alþfl. telja að með þessari lækkun á kosningaaldri hafi áfanga verið náð í því stefnumáli flokksins að færa kosningaaldur og önnur aldursákvæði, sem takmarka réttindi og skyldur ungs fólks, niður í 18 ár. Flokkurinn telur, að reynslan hafi ótvírætt sýnt að unga fólkinu var fyllilega treystandi fyrir þeim auknu réttindum og þeirri auknu ábyrgð, sem í breyt. fólust, og bendir í því sambandi á að engar raddir hafa heyrst opinberlega um að hækka beri aldursmarkið upp í 21 ár aftur, enda væri slíkt í algjöru ósamræmi við þá stefnu sem ríkir í slíkum málum meðal nálægra þjóða.

Þegar þm. Alþfl. fluttu þáltill. sína um 18 ára kosningaaldur var þegar hafin víða um lönd hreyfing fyrir slíkum breyt. til réttarbóta fyrir ungt fólk. Þá höfðu stórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, þegar riðið á vaðið og miðað kosningarrétt við 18 ára aldur, Sovétríkin út frá þeirri meginforsendu að við 18 ára aldur mætti búast við því að hver íbúi landsins hefði náð fullum vinnuafköstum og því að fullu orðinn hlutgengur sem þjóðfélagsþegn, en Bandaríkin út frá þeirri meginforsendu að við 18 ára aldur væri þegar búíð að leggja margvíslega ábyrgð á unga fólkið, svo sem að berjast og jafnvel fórna lífi sínu fyrir land sitt. Var þó 18 ára kosningaaldur þá ekki í gildi kominn í öllum fylkjum Bandaríkjanna. Það hefur orðið síðan.

Á þeim tæpa áratug, sem liðinn er frá því að þáltill. Alþfl.-þm. um 18 ára kosningaaldur var flutt, hefur þróunin í nálægum ríkjum haldið áfram í þá átt sem spáð var í grg. með þeirri till. Þannig er kosningarréttur í Bandaríkjunum nú almennt miðaður við 18 ár, í Stóra-Bretlandi sömuleiðis og einnig í Vestur-Þýskalandi og í Hollandi. Í Svíþjóð er miðað við 19 ára aldur og mikil hreyfing er í öðrum nálægum löndum fyrir breyt. í þessa átt. Þó skal það tekið fram að jafnvel þó að kosningarréttur sé í Sovétríkjunum miðaður við 18 ár er kjörgengi þó ekki miðað við 18 ár í öllum atriðum í sambandi við kosningar í því landi. Þannig er kjörgengi til æðsta ráðsins í Sovétríkjunum miðað við 25 ára aldur þó að kosningarréttur fáist í slíkum kosningum við 18 ára aldur.

Flm. þessarar till. telja að í ljósi reynslunnar, sem fengist hefur af lækkun kosningarréttar úr 21 ári í 20 ár, þeirrar þróunar, sem þegar hefur orðið og fyrirsjáanleg er í þeim málum meðal nálægra þjóða, svo og þeirra staðreynda að íslensk ungmenni eru yfirleitt virkari þátttakendur í atvinnulífi og félagsmálum þjóðar sinnar og er iðulega gert að axla meiri ábyrgð og meiri skyldur en tíðkast meðal ýmissa annarra þjóða, þá sé nú fyllilega tímabært að stíga sporið til fulls og miða kosningarrétt og kjörgengi við alþingis- og sveitarstjórnarkosningar á Íslandi við 18 ára aldur. Jafnframt telja flm. eðlilegt og sjálfsagt að endurskoðaðar verði til samræmis aðrar aldurstakmarkanir laga á réttindum og skyldum unga fólksins.

Við flm. þessarar till. teljum rétt að sami háttur verði hafður á þessum athugunum og árin 1965 og 1966, þ.e. að Alþ. kjósi til þess sérstaka n. og verði við það miðað að í henni eigi sæti fulltrúar frá þingflokkunum öllum. Með því móti væri auðveldað að samstaða gæti tekist á Alþ. um þær breyt. sem gerðar yrðu. Við flm. erum jafnframt þeirrar skoðunar að rétt sé og skylt að gefa n. rúman tíma til þess að ljúka athugun á þessu máli og samningu þeirra lagafrv. sem því fylgja. Jafnframt teljum við sjálfsagt að Alþingi og aðrir þeir, sem málið kann að varða, fái þann tíma sem til þarf til þess að kynna sér væntanlegar niðurstöður athugananna. Því væri eðlilegt að n. fengi tíma til athugunar á málinu þar til á öðru reglulegu Alþingi hér frá. Þá yrðu niðurstöður hennar kynntar opinberlega, en síðan teknar til umræðna og afgreiðslu á næsta þingi þar á eftir, síðasta reglulegu þingi á yfirstandandi kjörtímabili, þannig að stjórnarskrárbreytingin, sem gera verður varðandi lækkun kosningaaldursins, þurfi ekki að valda þingrofi og nýjum kosningum fyrr en þær ber að með réttum og eðlilegum hætti.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að leggja til, að þessari þáltill. verði vísað til hv. allshn.