09.12.1974
Efri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

83. mál, lántökuheimildir erlendis

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 1. landsk. þm. varðandi hitaveitu Suðurnesja og fjármögnun til hennar get ég aðeins sagt það, eins og hann gat réttilega um, að í burðarliðnum er framlagning frv. um hitaveitu Suðurnesja. Fjárhagsáætlanir hafa, held ég, ekki verið gerðar. Þar er einnig um að ræða sérstaka stofnun sem slíka með sérstakri stjórn, og ég á von á því að frá henni komi mjög fljótlega, eftir að sú stjórn hefur verið kjörin, áætlun um framkvæmdir við hitaveitu. Vonast ég til þess að með einhverjum ráðum verði þá hægt að afla fjár til þess að þetta mjög svo mikla hagsmunamál Suðurnesja þurfi ekki að stranda af þeim sökum, og veit ég að hann og aðrir hv. þm. úr því kjördæmi verða góðir liðsmenn í því máli þegar þar að kemur.