05.11.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Enn mun öllum í fersku minni, að í kosningabaráttunni s.l. sumar fengust frambjóðendur Framsfl. ekki til þess að gefa um það ótvíræðar yfirlýsingar, að þeir mundu að kosningum loknum beita sér fyrir áframhaldandi vinstri meiri hl. á Alþ. Því var haldið fram af talsmönnum Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og málflutning í kosningabaráttunni, mundi nota fyrsta tækifæri til þess að stíga til hægri og mynda stjórn með Sjálfstfl. Öllum, sem hugleiddu málatilbúnað þeirra framsóknarmanna og málflutning í kosningabaráttunni, hlaut að vera þetta ljóst. En augljósasta sannindamerki um þennan tvískinnungshátt þeirra framsóknarmanna var sá atburður, sem gerðist á miðstjórnarfundi Framsfl. á s.l. vori, þegar flokksforustan neitaði að samþ. till. um, að Framsfl. gengi til þeirra kosninga undir kjörorðinu „áfram vinstri stjórn“.

Þó að niðurstöður kosninganna hafi ótvírætt bent til þess, að meiri hl. kjósenda hafi viljað áframhald vinstri meiri hl. í landinu, kom það fljótlega í ljós í þeim viðræðum, sem fram fóru undir forustu Ólafs Jóhannessonar um myndun vinstri stjórnar, að takmarkaður vilji virtist vera hjá forustumönnum Framsfl. til þess að þær viðræður fengju jákvæða niðurstöðu. Og augljóst var, að með þessum viðræðum virtist formaður Framsfl. fyrst og fremst vera að reyna að afla sér hagstæðra spila á hendur til þess að slíta þeim viðræðum án árangurs. En eins og hann sjálfur hefur upplýst, þá eru það að hans mati klókindi í spilamennsku forustunnar, sem eiga að ráða, en ekki vilji fólksins.

Því miður varð Alþfl. til þess formlega, en vonandi óviljandi, að Ólafur Jóhannesson fann smugu til þess að slíta viðræðunum og greip þannig feginshendi hinn langþráða reisupassa yfir til Sjálfstfl. Það fer því ekkert á milli mála, að undir hafti tvískinnungsháttar notaði framsóknarforustan atkv. vinstri manna til þess að komast yfir á höfuðból hægri aflanna í landinu.

Það virtist taka tiltölulega stuttan tíma hjá þessum tveimur mestu peningaöflum íslenskra stjórnmála að ákveða það, að stjórn skyldi mynduð. Hitt tók lengri tíma, að rífast innbyrðis um embættin og stólana. Vart hefur nokkrum almennum kjósanda Framsfl. til hugar komið, að svo mikil yrði þjónustulund framsóknarforustunnar við Sjálfstfl. að Ólafur Jóhannesson krypi við fótskör formanns Sjálfstfl. og myndaði fyrir hann ríkisstjórn. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti og verkaði eins og köld vatnsgusa á margan kjósanda Framsfl., þegar þau tíðindi spurðust, að mynduð hefði verið ríkisstj. þessara tveggja flokka undir forustu Geirs Hallgrímssonar. Haft er eftir einum af fyrrv. þm. Framsfl., sem var þó alla tíð talinn heldur hægrisinnaður, að hann hafi í upphrópun sagt: „Guð hjálpi honum Ólafi“.

Menn biðu í talsverðri eftirvæntingu eftir því, hvert inníhald yrði í stefnuyfirlýsingin þeirra fóstbræðra, hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. En lítt urðu menn fróðari þegar það plagg birtist. Í því var ekkert sem hönd á festi til glöggvunar hvað gera ætti, en þess þó getið, að í stefnuræðu forsrh., þeirri sem þið nú hafið heyrt, mundi nánari grein vera gerð fyrir stefnu ríkisstj. Ég held, að mörgum ykkar fari líkt og mér, að þið verðið litlu nær eftir en áður af lestri hæstv. forsrh. að því er varðar skýrt markaða stefnu ríkisstj.

Það má raunar segja um stefnuræðu forsrh., að hún sé athyglisverðust fyrir það, sem ekki er þar sagt. Það hlýtur að vekja athygli, að í ræðunni er vart minnst orði á þá málaflokka, sem heyra undir ráðh. Framsfl. Þar finnst vart stafkrókur um menntamál, landbúnaðarmál, samgöngumál, dómsmál, allt málaflokkar, sem heyra undir ráðherra Framsfl.

En það er minnst á verðlagsmál og þau heyra undir sjálfan formann Framsfl. Og hver er sá boðskapur, sem hæstv. viðskrh. útdeilir? Jú, hann er sá, að allt verðlagseftirlit í landinu skuli afnumið og í stað þess komi ný löggjöf um verðmyndun og viðskiptahætti. Sem sagt, allt verðlag gefið frjálst.

Ætli flestir, sem hlýddu á sjónvarpsþáttinn Kastljós föstudaginn 25. okt. s.l., þar sem sýnt var fram á, hversu verðlagseftirlitið er óvirkt, séu ekki á einu máli um, að frekar sé þörf að herða verðlagseftirlit en afnema það. En hér er auðvitað á ferðinni enn eitt dæmið sem sýnir, að það er Sjálfstfl., flokkur auðmagns og peninga, sem ræður lögum og lofum í ríkisstj. Framsfl. fær ekki bara að vera með, heldur verður að sitja og standa eins og stóri bróðir vill.

Ég sagði áðan, að viðskiptamálin væru eini málaflokkurinn, sem vikið væri að í stefnuræðunni, af þeim, sem heyrðu undir ráðh. Framsfl. Ég gleymdi víst gamanleiknum hjá hæstv utanrrh. um varnarmálin. Honum eru að sjálfsögðu gerð góð skil, en af hverju getið þið, hlustendur góðir, örugglega sagt ykkur sjálfir.

Ekki er einu orði að því vikið í ræðunni, að herða þurfi skattaeftirlit og með þeim hætti reyna að koma í veg fyrir skattsvík. Ekki er heldur orði að því vikið, að breyta þurfi hinum óeðlilega rúmu afskriftum og fyrningum, sem eru kannske hvað mesta meinsemdin í skattalöggjöfinni og gera það að verkum, að fjöldi stórfyrirtækja og einstaklinga er skattlaus ár eftir ár og launafólki þannig gert að greiða þeim mun meira. Vart var við slíkri breytingu að búast af hálfu Sjálfstfl., og í þessu sem öðru hefur framsóknarforustan verið bundin.

Eitt þeirra stórmála, sem verið hafa á dagskrá, eru húsnæðismálin. Einn veigamesti þrándur í götu þess, að fólksfjölgun geti átt sér stað úti á landsbyggðinni, er skortur á íbúðarhúsnæði. Og hver eru svo fyrirheit ríkisstj. í þeim efnum? Í kaflanum um húsnæðismál er að því vikið, að styðja eigi starfsemibyggingarfélaga verkamanna, sem hefur verið lögbundið í áraraðir, og svo er minnt á, að nokkur sveitarfélög hafi byrjað byggingu leiguíbúða í samræmi við fyrirheit fyrrv. ríkisstj. um fjármögnun þeirra. Mikil er sú reisn hjá hæstv. ríkisstj. í þessum veigamikla málaflokki, sem hvað brýnastur er fyrir landsbyggðina.

Ég sagði áður, að sú stefnuræða hæstv. ríkisstj., sem hér var flutt, væri hvað merkilegust fyrir það, sem ekki væri í henni sagt. Eitt virðist þó ljóst, og það er, að þeir stjórnarliðar virðast sammála um, að draga beri stórlega úr fjárveitingum hins opinbera til hinnar margháttuðu uppbyggingarstefnu, sem framkvæmd hefur verið s.l. þrjú ár. Og þó fagurt sé mælt af hálfu ríkisstj. um stórauknar tekjur til Byggðasjóðs, verður ekki annað séð en þeirri aukningu eigi að mæta með stórfelldum niðurskurði að því er varðar framkvæmdaliði fjárlaga. Slík tilfærsla breytir engu fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Þó að margt og kannske flest sé óljóst um stefnu ríkisstj. þrátt fyrir stefnuræðuna, þá hefur almenningur í landinu og þá fyrst og fremst launafólk orðið þess vart í reynd, hverjir það eru, sem ríkisstj. ætlar að láta bera byrðarnar.

Fyrsta verk ríkisstj. var að hækka um 20% allt búvöruverð í landinu. Á sama tíma var ákveðið að binda allt kaupgjald. En síðan það gerðist hefur slíkt flóð verðhækkana dunið yfir, að engin dæmi munu vera til um slíkt áður. Stórfelld gengisfelling var ákveðin, þrátt fyrir að lýsing Þjóðhagsstofnunar á efnahagsástandinu leiddi í ljós, að vandi atvinnuveganna var ekki almennur, heldur bundinn við ákveðnar greinar. Þá samþ. stjórnarliðið á sumarþinginu stórkostlega hækkun á bensinskatti og þungaskatti dísilbifreiða umfram það, sem þörf var á. Ríkisstj. beitti sér fyrir samþykkt frv. um verðjöfnunargjald á raforku, sem í reynd þýðir a.m.k. 13% hækkun rafmagnsverðs í landinn. Og síðan var þetta kórónað með því að hækka söluskatt um 2 stig algerlega að ástæðulausu. Hér er um að ræða svo gegndarlausar skattaálögur af hálfu ríkisstj. á allan almenning í landinu á sama tíma og kaupgjald er bundið, að engar líkur eru á, að launþegasamtökin geti til lengdar unað slíku, allra síst þegar ljóst er, að engin tilraun er gerð til þess að láta þá forréttindahópa, sem vegna sérstakrar aðstöðu hafa að mestu sjálfdæmi um kaup og kjör, bera sinn hlut hinna sameiginlegu byrða.

Þó að ríkisstj. hafi með útgáfu brbl. um greiðslu láglaunabóta reynt að klóra í bakkann, er ljóst, að um er að ræða stórfellda kauplækkun hjá launafólki. Það, sem þó er alvarlegast, er sú mikla kauplækkun, sem verður hjá hinum lægst launuðu. Þrátt fyrir þá staðreynd, að láglaunafólkið hefur enga möguleika til að taka á sig kjaraskerðingu, hefur ríkisstj. ákveðið að láta það bera verulegan hluta verðbólgunnar bótalaust. Þannig lækkar ríkisstj. í reynd jafnt kaup láglaunafólks sem annarra launamanna um þúsundir króna á hverjum einasta mánuði. Talið er, að bein kauplækkun manns með um 35 þús. kr. í mánaðarlaun, sé um 11 þús. kr. þrjá síðustu mánuði þessa árs. Þessa kjaraskerðingu hjá þeim lægst launuðu hefði verið hægt að minnka verulega með því að koma í veg fyrir, að láglaunabætur gengju upp í gegnum allt launakerfið, jafnvel til uppmælingakerfisins, eins og nú virðist allt benda til að verði. Verði sú reyndin á og með hliðsjón af því, sem gerst hefur á árinu að því er varðar launamál, getur enginn búist við því, að láglaunafólk sætti sig við svo stórfellda kjaraskerðingu.

En meira hefur gerst. Brbl. um ráðstafanir í sjávarútvegi virðast að því er best verður séð staðfesta, að þegar Sjálfstfl. á aðild að ríkisstj., þá sé það föst regla að skerða kjör sjómanna stórlega. Ekki þarf nema horfa til viðreisnaráranna til að ganga úr skugga um þetta, en þá var um að ræða ekki bara einu sinni heldur oftar einhverjar mestu kjaraskerðingar, sem um getur á kjörum sjómanna. Þau brbl., sem nú hafa verið sett, eru mjög í sama anda. Nú er í reynd breytt umsömdum skiptakjörum sjómanna með því að auka stórlega greiðslur í stofnfjársjóð fiskiskipa af óskiptum afla, og er hér um að ræða hundruð millj. Í öðru lagi er með lögum þessum bundin hámarkshækkun fiskverðs og þar með stórlega skert verksvið Verðlagsráðs sjávarútvegsins. Hér er einnig um að ræða svo alvarlegar aðgerðir til skerðingar á kjörum sjómanna, ekki síst gagnvart þeim, sem verst voru settir, að ólíklegt er, að sjómannasamtökin telji sig ekki knúin til aðgerða og andsvara gegn svo óréttlátum aðgerðum.

Öllu launafólki í landinu mun fyrir löngu orðið ljóst, að þótt seta núv. ríkisstj. sé stutt, þá er einskis góðs að vænta af hálfu ríkisstj. í samskiptum hennar við launastéttirnar. A.m.k. er ljóst, að byrjunin lofar ekki góðu.

Eitt er það mál, sem nú er ofarlega í hugum okkar flestra íslendinga, en það er sá orðrómur, sem gengið hefur um að hæstv. ríkisstj. sé í þann mund ef ekki búin að gera samkomulag við vestur-þjóðverja um veiðiheimildir innan 50 mílnanna, meira að segja heimildir til handa verksmiðjutogurum. Í stefnuræðu forsrh. er lítið um þetta rætt, annað en að fullyrt er, að mikill áhugi sé af hálfu íslendinga að leysa þá deilu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá upplýsingar hjá hæstv. ríkisstj. um hvað sé að gerast í þessu máli hefur það ekki tekist. Það er því full ástæða til að óska eftir því við hæstv. utanrrh., sem hér talar á eftir, að hann geri, þótt ekki væri nema með örfáum orðum, grein fyrir stöðunni í þessu máli. Þessari ósk er hér með komið á framfæri við hæstv. ráðh. Það er einnig full ástæða til að vara við samningum í landhelgismálinu undir þeim kringumstæðum, sem nú ríkja.

Á svipuðum tíma og við þm. fengum í hendur stefnuræðu forsrh. var útbýtt hér á Alþ. frv. til fjárlaga fyrir árið 1975. Það plagg sýnir kannske betur en nokkuð annað, hver stefna núv. hæstv. ríkisstj. er í reynd. Ætli nokkur sé búinn að gleyma þeirri harkalegu gagnrýni, sem fram kom af hálfu Sjálfstfl., þegar til umr. voru fjárlög vinstri stjórnarinnar. Þá mátti oft lesa í Morgunblaðinu þversíðufyrirsagnir nm gengdarlaust bruðl og útþenslu ríkiskerfisins í fjármálum og þess getið, að aldrei fyrr hafi neitt álíka sést., fjárlög væru uppsprengd eyðslufjárlög. Ekki stóð heldur í þeim talsmönnum Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, núv, hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. sjútvrh., þegar þeir voru að fjargviðrast yfir þeim ósköpum, sem þeir töldu vera hin gífurlega háu fjárlög vinstri stjórnarinnar, og þá ekki siður þeirri óstjórnlegu hækkun, sem þeir töldu vera á fjárlagafrv. milli ára. Og hver var svo ástæðan fyrir þessari miklu hækkun fjárlaga frá tíð viðreisnarstjórnarinnar annars vegar og fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar hins vegar? Jú, hún var sú, að viðreisnarstjórnin hafði á sinum valdaferli vanrækt að veita fé til hinna margvíslegu samfélagslegu framkvæmda, samhjálpar, félagshyggju, og fjárveitingar til uppbyggingar úti á landsbyggðinni. Það var fyrst og fremst þetta, sem var þess valdandi, að fjárlög hækkuðu svo svo mjög í tíð vinstri stjórnarinnar. Það var þetta, sem talsmenn Sjálfstfl., talsmenn peningasjónarmiðsins fordæmdu hvað mest og áttu ekki nógu sterk orð til að lýsa vanþóknun sinni yfir.

En hvað gerist nú, þegar þessir blessaðir postular sparseminnar og réttlætisins eru sjálfir komnir í ráðherrastólinn? Hækkun fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar milli áranna 1973 og 1974 var 35%. En nú er hækkun þess fjárlagafrv., sem sparsemdarráðherrarnir leggja fram, 65% frá frv. til fjárlaga fyrir árið 1974, og nú eru það rekstrarútgjöldin, sem aðallega hækka. En um leið og 65% hækkun á sér stað frá frv. 1973, verður magnminnkun opinberra framkvæmda 10–15% að áliti ríkisstj. sjálfrar. Fjárlagafrv. ber greinilega með sér, að það eru hinar félagslegu framkvæmdir, sem verða fyrir niðurskurðarhníf hæstv. ríkisstj.

SF hafa gagnrýnt þá gífurlega auknu skattheimtu, sem núv. ríkisstj. hefur lagt á almenning í landinu, svo og þær kjaraskerðingaráðstafanir, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir og framkvæmt. SF gerðu s.l. sumar till. um aðrar leiðir til lausnar þeim vanda, sem við blasti í efnahagsmálum. Þau töldu, að miðað við það ástand, sem ríkti í efnahagsmálum þjóðarinnar, bæri að grandskoða, hvort ekki væri raunhæfast og réttlátast að reyna nú niðurfærsluleiðina. Sú leið væri í alla staði sanngjarnari og réttlátari gagnvart launafólkinu í landinu en sú stórkostlega gengisfellingarstefna, sem núv. ríkisstj. valdi.

Það er athyglisvert, að bæði formaður Framsfl., Ólafur Jóhannesson, og formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, lýstu því yfir, að sú leið sem Samtökin bentu á að farin yrði, væri að þeirra mati sú raunhæfasta og réttlátasta miðað við aðstæður. Þó fór það svo, að enn hefur ekki fengist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir sérfræðileg úttekt á því, hver útkoma hefði orðið, ef sú leið hefði verið farin. Ekkert skal um það full.yrt á þessu stigi, hver ástæða er fyrir þeirri tregðu, sem á því virðist vera, en vart verður trúað, að það vefjist fyrir sérfræðingum ríkisstj. að gera slíka úttekt.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Að lokum þetta. Enn sem fyrr heyrist nú barlómur og ramakvein fulltrúa hinna ýmsu atvinnugreina í landinu. Ýmislegt bendir til þess, að núv. valdhafar ætli í ríkum mæli að leysa vandann eingöngu á kostnað launafólks. Það er staðreynd, sem ekki verður vefengd, að úttekt Þjóðhagsstofnunar á afkomu atvinnuveganna leiddi í ljós, að ýmsar veigamiklar atvinnugreinar eru reknar með verulegum hagnaði. Einnig hefur verið upplýst, að ýmis fyrirtæki í frystiiðnaði skila hagnaði svo tugum millj. skiptir. Það er því full ástæða til, að hlutlaus úttekt verði gerð á raunverulegri fjárhagsstöðu atvinnufyrirtækja í landinu. Þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar, hafa allar miðað að því að færa mikið fjármagn frá launþegum yfir til atvinnufyrirtækjanna og valda þannig stórkostlegri kjaraskerðingu hjá launafólki. því er það réttlætiskrafa, að almenningur fái um það fulla vitneskju, hver er í reynd staða atvinnufyrirtækjanna. Með hliðsjón af því hafa þm. SF flutt hér á Alþ. till. til þál. um skipun nefndar til að gera slíka könnun og eigi sæti í henni einn fulltrúi frá hverjum þingflokki og auk þess einn fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, einn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einn frá Iðnnemasambandi Íslands. Það er von okkar, að með slíkri rannsókn verði úr því skorið, hvort í reynd sé slíkt vandræðaástand sem látið er í veðri vaka.

Herra forseti. Síðustu þrjú árin hafa verið sannkallað blómaskeið að því er varðar alhliða uppbyggingu úti á landsbyggðinni. Hjá því fólki víðs vegar í hinum dreifðu byggðum landsins, sem áður var fullt kvíða og svartsýni, hefur síðustu þrjú árin rofað til. Frá því að núv. ríkisstjórn tók víð völdum hefur látlaust verið á því hamrað af hennar hálfu, að nú þurfi að draga úr og taka saman seglin, sem á mæltu máli þýðir niðurskurð verklegra framkvæmda. Þessi söngur hefur að vonum vakið ugg í brjóstum landsbyggðafólks. Sá uggur sýnist mér því miður ekki vera að ástæðulausu, þegar litið er til stefnuræðu forsrh. og þó fremur til fjárlagafrv. Þar er vissulega gert ráð fyrir miklum samdrætti á þessu sviði. Því miður hefur sú orðið reyndin, þegar beitt hefur verið niðurskurði verklegra framkvæmda, að þá hefur það alltaf bitnað harðast á framkvæmdum úti á landi. Engum kemur víst til hugar, að það breytist undir handleiðslu núv. valdhafa. Það er afdráttarlaus krafa fólks á landsbyggðinni, að þeirri uppbyggingarstefnu, sem framkvæmd hefur verið, verði haldið áfram. Nógu lengi var búið að setja þetta fólk hjá, þó að ekki verði nú tekið til við slíkt að nýju. Það verður því greinilega eitt af aðalverkefnum þm. hinna dreifðu byggða að knýja á núv. valdhafa til þess að halda áfram uppbyggingarstefnunni. Sú barátta verður að öllum líkindum hörð, en með ykkar tilstyrk, góðir tilheyrendur vona ég, að hún takist.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.