09.12.1974
Neðri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. Eins og kemur fram í framlögðu nál. hefur n. fjallað um frv. Hún kvaddi á sinn fund Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga sem gaf n. margs háttar upplýsingar og svaraði ýmsum fsp. sem þar komu fram.

Það skal tekið fram að ætla má að framlag til sjóðsins árið 1975 frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og ríkissjóði verði sem hér segir: Frá Jöfnunarsjóðnum 89 millj. 150 þús. kr. og frá ríkissjóði 44 millj. 575 þús. kr., og eru þá lagðar til grundvallar tölur í frv. til fjárl. fyrir árið 1975 og gildandi lagaákvæði um tekjur Jöfnunarsjóðs.

Það er rétt til að skýra, hvernig þessar tölur eru fengnar, að vísa til frv. til fjárl. fyrir 1975, en þar segir, ef menn vilja bera þetta saman, á bls. 7, tekjuliður 1 15 01, að gert sé ráð fyrir aðflutningsgjöldum upp á 10 milljarða, en samkvæmt lagaákvæðum eiga 5% af þessum aðflutningsgjöldum að renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og það eru 500 millj. Auk þess er samkvæmt sama frv. á bls. 8 liður 1 17 01, söluskattur, 8% af þessum stofni eiga að renna í Jöfnunarsjóðinn af upphæðinni 16 milljarðar 877 millj. kr., sem gerði þá tekjulið fyrir jöfnunarsjóðinn upp á 1033 millj. Auk þess er tekjustofn fyrir sjóðinn landsútsvör, þau eru framreiknuð til þeirrar áætlunar sem ætla má að þau verði árið 1975, að upphæð 250 þús. kr. Tekjur Jöfnunarsjóðs í heild ættu þá að verða 1783 millj. kr., en skv. frv., sem hér er verið að fjalla um, ættu 5% af þessari upphæð að renna í Lánasjóð sveitarfélaga, sem yrðu þá 89 millj. 150 þús. kr. Helmingurinn af þessari upphæð ætti síðan að vera beint framlag ríkissjóðs, eða eins og segir í grg. 44 millj. 575 þúsund.

Það hefur verið dálítið um það rætt og kom fram í umr., ef ég man rétt, að bað væri æskilegt og eðlilegt að hlutur ríkissjóðs í beinu framlagi til Lánasjóðsins yrði hinn sami og hlutur Jöfnunarsjóðsins til Lánasjóðsina. Var svo ráð fyrir gert upphaflega í l. að þetta yrði jöfn greiðsla af beggja hálfu, en í framkvæmd varð það aldrei. Sem dæmi má taka að á árunum 1967–1971, að báðum árum meðtöldum, var beint framlag frá ríkissjóði aðeins 30% af hluta Jöfnunarsjóðs. En á næstu árum jókst nokkuð, en þó breytilega hlutur ríkissjóðs og var árið 1972 46.7%, árið 1973 var hann 39,7% og árið 1974 53,3%. Ef frv. verður samþ., þar sem gert er ráð fyrir hlutdeild ríkissjóðs 50% af hluta Jöfnunarsjóðs, þá yrðu þessi hlutföll lögfest nokkuð í þá átt eins og er ætlað að þau verði árið 1974.

Það hefur einnig komið dálítið fram að með þessum breytingum að hækka framlag Jöfnunarsjóðsins til Lánasjóðs sveitarfélaga verði tekinn spónn úr aski þeirra sveitarfélaga sem njóta hins beina framlags Jöfnunarsjóðsins. Ef við lítum ofurlítið á hvernig þessar hreyfingar hafa orðið frá því að Lánasjóður sveitarfélaga tók til starfa, þá voru heildartekjur Jöfnunarsjóðsins á fyrsta starfsári, 1967, um 258,8 millj. kr., en þá var framlagið til Lánasjóðs sveitarfélaga um 5.8% af heildartekjunum. Ef við lítum svo á árið 1971, þá eru tekjur Jöfnunarsjóðsins, þegar ég tek frá leiðréttingar, um 582,5 millj., en framlag Jöfnunarsjóðsins til Lánasjóðsins er þá ekki nema u.þ.b. 2,5% af tekjum sjóðsins. Árið 1973 hefur þessi hreyfing orðið á þann veg að þá er framlag Jöfnunarsjóðsins til Lánasjóðsins aðeins um 1,5% af heildartekjum sjóðsins, sem þá eru komnar í 988 millj. kr. Enda þótt við lögfestum þetta ákvæði núna um aukna hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í Lánasjóðnum erum við samt sem áður með u.þ.b. sama hlutfall og við vorum með á fyrsta starfsári sjóðsins, aðeins lægra þó. Það sést líka ef við skoðum umsvif sjóðsins og hvert hefur orðið hlutfallslegt framlag Jöfnunarsjóðs og ríkissjóðs til Lánasjóðsins í heild, að þá hefur þessi hlutdeild farið síminnkandi. T.d. á fyrsta starfsári er þessi hlutur um 80%, þ.e.a.s. framlag Jöfnunarsjóðs og ríkissjóðs, en hefur farið sífellt minnkandi, er kominn t.d. árið 1971, svo að ég taki sama ár og áðan, niður í 26,7% og 1973 er þessi hlutdeild komin niður í 13.6%.

Varðandi vaxandi umsvif sjóðsins er rétt að taka það fram að á liðnu ári voru lánsumsóknir til sjóðsins upp á 600 millj. kr. Þessar beiðnir skiptust þannig að það var sótt um til gatnagerðarframkvæmda lán að upphæð 300 millj. kr., til vatnsveitna 130 millj. kr., til skóla og íþróttamannvirkja í dreifbýli 95 millj. kr., til hitaveituframkvæmda 45 millj. kr. og til ýmissa annarra framkvæmda um 30 millj. kr., samtals 600 millj. kr. En það er aðeins hægt að sinna þessu þannig að lán verða væntanlega um 180 millj. kr. á því ári sem nú fer að kveðja.

Menn geta séð á þskj. 3 hvernig útborguð lán hafa verið og hver eru helstu verkefni sem sjóðurinn hefur sinnt á undanförum árum. Ef við lítum á þetta sjáum við að hingað til hafa vatnsveitur og hitaveitur verið í hæsta flokki, en nú sjáum við að gatnagerðarframkvæmdirnar hafa skotist þar upp fyrir.

Ég sagði áðan að lánveitingar á þessu ári væru um 180 millj. kr. En ég vil þá í leiðinni geta þess að ef þetta frv. verður gert að lögum, þá ætti ráðstöfunarfé sjóðsins á næsta ári að vera um 300 millj. kr. ef ekki verður rýrnun að krónutölu á þeim lánum sem lánasjóðurinn hefur fengið hjá Framkvæmdasjóði Íslands.

Það er kannske rétt, áður en ég fer úr ræðustólnum, að geta þess að það eru um 20% af heildarlánveitingum sjóðsins sem eru vísitölutryggð eða gengistryggð lán, þriðji hluti af þeim lánum, sem koma frá Framkvæmdasjóði, eru gengistryggð lán, þriðji hlutinn eru vísitölutryggð lán og svo er þriðji hlutinn óverðtryggð lán.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, vænta þess að hv. þm. greiði leið þessa frv. gegnum Alþ. Það er rétt að taka það fram í lokin að n. var sammála um að mæla með samþykkt frv. óbreyttu, þótt einstakir nm. áskilji sér rétt til að fylgja brtt., og ég vona að þetta frv. megi verða að lögum áður en þingið tekur jólafrí svo að sveitarstjórnarmenn, sem lögum samkvæmt eiga í þessum mánuði að vinna að fjárhagsáætlunum fyrir sín sveitarfélög, geti tekið eitthvert mið af því sem Alþ. kann að ákvarða í þessu efni.