09.12.1974
Neðri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og kunnugt er felur þetta frv. í sér að efla Lánasjóð sveitarfélaga og gera það á þann veg að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggi fram árlega 5% af tekjum sínum og helmingsframlag komi á móti þeirri fjárhæð úr ríkissjóði.

Í grg. frv. er getið um hverjar hefðu orðið tekjur sjóðsins af þessu á árinu 1974 hefði frv. þá verið í gildi og er það greint á bls. 2. Tekjur af þessu hefðu orðið 71 millj. kr. Nú hefur verið reiknað út, eins og kemur fram í áliti hv. n., að á næsta ári mundu þessar tekjur nema um 133 millj. 725 þús. kr. miðað við áætlun fjárlfrv. eins og það liggur fyrir. Sú fjárhæð, sem sjóðurinn fær á þessu ári, er 15 millj. úr Jöfnunarsjóði og 8 millj. frá ríkissjóði, samtals 23 millj. Með samþykkt þessa frv. er því ljóst að hér væri um að ræða mjög verulega eflingu sjóðsins, í stað þess að framlögin úr jöfnunarsjóði og ríkissjóði eru í ár 23 millj. yrðu þau a.m.k. 133–134 millj. á næsta ári. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða fyrir sveitarfélögin til eflingar þeirra fjárhag og framkvæmdum.

Ég vil þakka félmn. og form. hennar og frsm., hv. 4. þm. Vestf., fyrir góða afgreiðslu á málinu, þar sem hún mælir með því að frv. verði samþ. óbreytt og vænti þess, eins og hv. frsm. tók fram, að þetta mál fái greiða för í gegnum þingið og verði lögfest fyrir jól þannig að það geti tekið gildi, eins og gert er ráð fyrir í 3. gr., i. jan. 1975.