09.12.1974
Neðri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

90. mál, dýralæknar

Flm. (Gunnlaugur Finnsson):

Frv. þetta er um breyt. á lögum um dýralækna. Það var svo þegar þessi lög voru sett að dýralæknar voru ekki starfandi nálægt því á öllum stöðum í landinu. T.d. var þá enginn dýralæknir starfandi á Patreksfirði og ekki fyrr en rétt um það bil að til starfa tók dýralæknir á Ísafirði sem hafði ekki notið neinnar slíkrar þjónustu um langt árabil. Á s.l. sumri var hins vegar ráðinn til þessarar þjónustu dýralæknir á Patreksfirði. En þá hrukku menn upp við það að umdæmaskiptingin braut harla mikið í bága við hugsanlega þjónustu á þessu svæði. Ég vil nefna það sem dæmi að byggðir Önundarfjarðar eiga samkvæmt núgildandi l. að sækja dýralæknisþjónustu til Patreksfjarðar, en ekki til Ísafjarðar. Dýralæknirinn á Ísafirði hefur hingað til þjónað ekki aðeins við Ísafjarðardjúp og í grannsveitum Ísafjarðar heldur og Önundarfirði og Dýrafirði. Þarna eru landfræðilegar aðstæður þannig að það er nánast óhugsandi fyrir mann, sem búsettur er á Patreksfirði, að sinna, sérstaklega að vetrinum, þjónustu sem þarf að inna af hendi í Dýrafirði t.d. Þess vegna hef ég að ósk heimamanna flutt þetta frv. Og ég vil taka það fram að ég hef haft samband við dýralæknana á þessum stöðum báðum sem og í Stykkishólmi, en í 1. gr. er gert ráð fyrir því að Flateyjarhreppur falli undir Snæfellsnesumdæmi, vegna þess að greiðari leiðir liggja með flóabátnum frá Stykkishólmi norður til Flateyjarhrepps og svo þaðan suður um aftur heldur en ofan frá landi í Barðastrandasýslu.

Þetta frv. er eingöngu flutt til þess að leiðrétta landfræðilegan misskilning, ef svo má segja, vegna þess að höfðatala á búpeningi getur þarna ekki verið ákvarðandi um þjónustuumdæmi frekar en höfðatala mannfólksins sem þarf að njóta þjónustu á ákveðnum svæðum.