10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af hinni munnlegu fsp. hv. fyrirspyrjanda, Ragnars Arnalds, þá er svar við henni ekki tilbúið frá viðkomandi stofnun.

Það er í fyrsta lagi út af ummælum hv. 2. þm. Vestf., aths. hans við það að þetta sé dýrasta lausnin. Ef við erum að tala um dýra eða ódýra lausn, hagkvæma eða hagkvæmari, fer það auðvitað eftir því við hvað er miðað. Það er ósköp auðvelt að segja að þetta sé tiltölulega ódýr lausn, ef miðað er við sparnað á olíu í dísilstöðvum fyrir norðan. Til að losna við mikla framleiðslu með olíukyndistöðvum fyrir norðan er þetta mjög hagkvæmt. Þegar ég tala um að þetta sé dýr lausn, þá á ég sumpart við að þetta er dýrara en sumar aðrar leiðir til samtengingar Norðurlands og Suðurlands, en fyrst og fremst átti ég að sjálfsögðu við hitt, að það hefði verið miklu ódýrara að byggja í tæka tíð nýjar virkjanir fyrir norðan. Það er enginn vafi á því að hefði fyrrv. hæstv. iðnrh. haft framtak til þess að undirbúa fyrr og betur Kröfluvirkjun, t.d. tveimur árum fyrr, þá mundi Kröfluvirkjun bjarga við þessum málum þannig að það yrði ekki nauðsyn að leggja þennan milljarð í línuna norður.

Ég vil taka fram að framtíðarstefnan er að sjálfsögðu sú að það verður að tengja saman orkusvæðin, landsfjórðungana. En auðvitað þarf að kanna í hvaða röð þessi mál eiga að koma. Ég er þeirrar skoðunar að það væri hagkvæmara bæði fyrir Norðurland og fyrir landið allt, ef í tæka tíð hefðu verið framkvæmdar virkjanir fyrir norðan og síðar hefði verið ráðist í þessa framkvæmd.

Þegar fyrirspyrjandi, Ragnar Arnalds, leyfir sér að vera með ásakanir í minn garð eða núv. ríkisstj. um þessi efni, þá er ég sannast sagna furðu lostinn. Þessi hv. þm. er form, fyrir þeim flokki sem fór með orkumálin undanfarin 3 ár. Hvað hefur gerst á Norðurlandi á þessum tíma? Eftir að möguleikar lokuðust með frekari orkuöflun í Laxá, sem lá fyrir þegar vinstri stjórnin var mynduð, hefur sannast sagna ekkert gerst. Hvers vegna var ekki þá þegar hafinn undirbúningur að því að virkja Kröflu í tæka tíð? Hvers vegna var ekki hafinn undirbúningur að því að virkja Jökulsá í Axarfirði, Dettifoss, Skjálfandafljót, Jökulsá í Skagafirði, Blöndu eða eitthvað, sem að gagni gæti komið? Allt er látið reka á reiðanum. Þegar svo allt er komið í algert óefni er ráðist í þessa byggðalínu, sem svo er kölluð, og ástandið fyrir norðan er þannig að nú er engin lausn sjáanleg önnur en þessi lína. En þegar þeir, sem hafa staðið að þessum drætti og trassaskap, leyfa sér að koma hér í ræðustól og deila á aðra fyrir að þetta sé þeim að kenna, þá er skörin farin að færast upp í bekkinn.

Varðandi hins vegar ástæðuna til þess að ekki var hafist handa fyrr um byggðalínuna, þá er það sumpart vegna þess að hönnun hefur ekki verið lokið fyrr, en er að mestu leyti lokið nú. Eins og kom fram í skýrslu, sem ég las upp hér áðan frá sjálfri byggðalínunefnd er hönnun ekki lokið að fullu enn þá. Þó er auðvitað hægt að hefja framkvæmdir. En hvers vegna voru ekki hafnar framkvæmdir í sumar? 300 millj. heimild var sett inn í fjárl. Það var ákveðið af fyrrv. ríkisstj. og liggur fyrir skriflega frá fjmrn. að það var ákveðið að skera þetta niður í 25 millj. Í staðinn fyrir 300 millj. skyldi á þessu ári varið 25 millj. kr. til byggðalínunnar og því skyldi öllu varið til hönnunar. Þetta liggur skriflega fyrir. Það er furðulegt þegar menn, sem hafa staðið jafnnærri fyrrv. ríkisstj. og Ragnar Arnalds, leyfa sér að ásaka okkur, sem nú höfum tekið við, fyrir að við framkvæmum þetta ekki þegar í stað sem fyrrv. ríkisstj. lagði á hilluna.

Meginatriði málsins er að á undanförnum 3 árum hefur veríð gersamlega vanrækt að undirbúa virkjanir fyrir norðan. Því er svo komið sem komið er fyrir þann drátt, að það er engin leið til önnur en að fá rafmagn að sunnan og þess vegna verður nú að ráðast í þessa línu.