05.11.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir íslendingar. Kjarninn í stefnuræðu hæstv. forsrh. er ekki lýsing á stórhuga stefnu nýrrar ríkisstj., ekki frásögn af fyrirhuguðum framkvæmdum til þess að bæta hag íslendinga og auðga líf þeirra, ekki fyrirheit um bjartari framtíð íslendinga í landi sínu, aukið réttlæti, fjölskrúðugri menningu. Nei, það, sem svipinn setur á skýrslu hæstv. forsrh., er lýsing á efnahagsöngþveiti, meira öngþveiti í atvinnumálum, fjármálum, verðlagsmálum og kjaramálum en sögur fara af í nálægum löndum. Hæstv. forsrh. segir þjóð sinni frá því, að á þjóðhátíðarári, þegar íslendingar minnast 1100 ára búsetu í landi sínu, þegar góðæri hefur ríkt árum saman til lands og sjávar og verðlag erlendis á afurðum landsmanna hefur verið mjög hagstætt, hafi stefnt að verðbólgu, sem hefði orðið langt yfir 50%, eins og það var orðað í skýrslunni, horfur hafi verið á, að þjóðartekjur á mann beinlínis minnkuðu að raunverulegu verðgildi, að mikill viðskiptahalli yrði við útlönd og talsverð rýrnun gjaldeyrisstöðunnar þrátt fyrir miklar erlendar lántökur.

Hæstv. forsrh. byrjar skýrslu sína á því og leggur á það áherslu, að í sumar hafi blasað við mikill hallarekstur hjá báta- og togaraflotanum og fram undan hafi verið stórfelldur taprekstur frystihúsa. Hann vekur athygli á tæpri stöðu ríkissjóðs, miklum erfiðleikum ýmissa ríkisfyrirtækja og fjárvöntun til framkvæmda og fjárfestingarsjóða. Og enn segir hæstv. forsrh., að örar kaup- og verðlagsbreytingar hafi ruglað verðskyn almennings og komið glundroða á fjármál einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera. Þessari lýsingu lýkur svo hæstv. forsrh. með því að segja, að eftir að þessi úttekt var gerð, hafi þróunin fram til haustsins enn versnað.

Almenningur hlýtur að spyrja: Hvað er hér á ferðinni? Þetta minnir miklu meira á harðvítuga stjórnarandstöðuræðu en boðskap nýrrar ríkisstj. um framtíðarfyrirætlanir. Liggur hér einhver fiskur undir steini? Augljóst er, að allt upphaf skýrslu hæstv. forsrh. er harðvítug gagnrýni, lýsing á öngþveiti, frásögn af óstjórn, en óstjórn hvers? Hver ber ábyrgðina á verðbólgunni, hallarekstrinum, viðskiptahallanum, kjaraskerðingunni? Hæstv. forsrh. hlýtur að vera að minna á, að það sé enginn annar en sjálfur samstarfsflokkur Sjálfstfl. í ríkisstj., Framsfl. Hann fór með stjórnarforustuna á þeim árum, þegar öngþveitið varð til. Hann er faðir verðbólgunnar, þótt hann hafi auðvitað þurft á einhverjum að halda til þess að gegna móðurhlutverkinu, en til þess var Alþb. bráðfúst af mikilli gleði.

Það er augljóst, að allt upphaf skýrslu hæstv. forsrh. er miskunnarlaus gagnrýni á samstarfsflokkinn, Framsfl. Engum dettur í hug, að forustumenn hans séu svo skaplausir, að þeir taki slíkri húðstrýkingu með þögninni, hvað þá með bugti og beygingum. Þeir svara eflaust fyrir sig og segja allt það rangt, sem hæstv. forsrh, hafði verið að segja. Þannig byrjar þetta stjórnarsamstarf, þannig mun það halda áfram og af þessum og þvílíkum ástæðum mun því ljúka, þegar tortryggnin, sem nú ríkir, er orðin að óheilindum og óvild.

Þegar sköpunarsaga þessarar ríkisstj. er athuguð, er kannske ekki óeðlilegt, að það hvarfli að einhverjum, að Sjálfstfl. kunni að telja sig hafa nokkurs að hefna í framhaldi þeirra atburða. Það var svo sem enginn glæsibragur yfir því, að stærsti flokkur landsins skyldi láta fyrrv. forsrh., þann mann, sem ekki hafði reynst geta stjórnað landinu í 3 ár, mynda fyrir sig ríkisstj., þó að Sjálfstfl. fengi forsætið, en yrði að sætta sig við, að ráðh. Framsfl. yrði fjölgað. Það hlaut að vera beiskur biti að kyngja að afhenda Framsfl. æðstu stjórn viðskiptamála, þeim flokki, sem ruddi haftastefnunni braut inn í íslensk efnahagsmál og hélt yfir henni verndarhendi í 30 ár, — haftastefnunni, sem reynst hefur íslenskri efnahagsþróun skaðlegri en nokkurt annað hagstjórnartæki og Framsfl. innst inni trúir enn á, hvað sem ýmsir forustumenn hans segja, svo sem fyrir fáum árum t.d. kom fram í því, að hann studdi ekki aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA.

Ekki getur það verið með óblandinni ánægju, að Sjálfstfl. afhendir Framsfl. yfirstjórn landbúnaðarmála. Sá þm., sem sjálfstæðismenn telja hafa mestan kunnugleik allra á íslenskum landbúnaði og best skilja þarfir hans, Ingólfur Jónsson, fær hvergi að koma nærri. Og augljóst er, að íslenskir neytendur eiga áfram að fá að greiða 2/5. hluta af því verði, sem erlendir neytendur, svo sem englendingar og færeyingar, greiða fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir.

Ekki getur það verið Sjálfstfl. til sérstakrar gleði að trúa fyrrv. dómsmrh. áfram fyrir embættisveitingu dómsmrn., eftir að aðalblöð Sjálfstfl. eru búin að hamra á því, að frá því sé varla undantekning, að hann hafi í 3 ár veitt eingöngu framsóknarmönnum embætti án tillits til allra reglna utan þeirrar einu, að um framsóknarmann sé að ræða.

Á því geta þannig verið ýmsar eðlilegar skýringar, að hæstv. forsrh. skuli byrja skýrslu sína til þings og þjóðar í upphafi stjórnarferils síns á því að lýsa, hversu gersamlega óhæfur samstarfsflokkurinn hafi verið til þess að stjórna landinu. Það getur varla verið nein hrifningaralda, sem nú líður um Sjálfstfl. Sú alda er eflaust af öðrum toga spunnin og er ekki undarlegt.

En hvað skyldi vera efst í huga framsóknarmanna eftir myndun þessarar ríkisstj.? Ef litið er yfir íslenska stjórnmálasögu frá því að fyrst var myndað rn. á Íslandi árið 1917, finnast þess engin dæmi, að stjórnmálaflokkur hafi kúvent jafnkirfilega og Framsfl. gerði við myndun þessarar ríkisstj. næstum tvo áratugi hefur hann talið Sjálfstfl. höfuðóvin sinn og áhrif hans á íslensk þjóðmál hættulegri en allra annarra, jafnvel kommúnístanna í Alþb. í 20 ár hefur það verið aðalboðskapur Framsfl. til íslenskrar þjóðar, að Sjálfstfl. sé hættulegasta aflið í íslenskum þjóðmálum, hann sé fulltrúi einkahagsmuna og brasks, ábyrgðarlaus og jafnvel á mála hjá erlendum hagsmunum á sviði utanríkismála. En á nokkrum vikum gleymist allt þetta og það er grafið á bak við gamla og nýja ráðherrastóla.

Hvað segir heilbrigt hugsandi íslendingur við öðru eins og þessu? Skipta hugsjónir engu máli í stjórnmálabaráttunni? Eru orð og eiðar aðeins marklaust hjal? Eru völd hið eina, sem máli skiptir? Er ekki eitthvað til, sem heitir sómatilfinning, sjálfsvirðing og samviska? Þetta ættu ekki aðeins góðir framsóknarmenn að hugleiða, heldur þjóðin öll.

Hvílíkur umskiptingur Framsfl. er í þessari stjórnarsamvinnu kemur gleggst fram í því, að hann hefur nú tekist á hendur að framfylgja þveröfugri stefnu í utanríkismálum við þá, sem hann hét þjóðinni að fylgja sumarið 1971 og þangað til hann átti kost á því að mynda stjórn með Sjálfstfl. Sumarið 1971 skuldbatt Framsfl. sig til þess, að varnarliðið skyldi verða látið hverfa á brott af landinu á kjörtímabilinu í áföngum. Auðvitað var þessi stefna stórhættuleg og alröng. En Framsfl. sagði hana vera rétta og í samræmi við hagsmuni íslendinga. Að vísu er skylt að geta þess, að utanrrh. Framsfl. gerði ekki ýkjamikið til þess að framfylgja henni. Kannske hefur það ekki verið að ástæðulausu, að samstarfsflokkur Framsfl., Alþb., tók að gruna hann um græsku í þessu sambandi. Ef eitthvað væri til í þeim áburði, yrði ferill Framsfl. í þessu máli enn ófegurri en hann sannanlega er. En ekki vil ég taka undir svo alvarlegan áburð. Hitt er staðreynd, að það tók utanrrh. Framsfl. meira en tvö ár að semja bréf til Bandaríkjastjórnar um framkvæmd á ákvæðum stjórnarsáttmálans frá 1971 og koma því til Washington, og var þó í bréfinu ekki ætlast til þess, að stjórnarsáttmálinn væri framkvæmdur að fullu. Hinir skeleggu hernámsandstæðingar í ráðherrastólum Alþb. létu sér þetta allt saman lynda. Skörungsskapar þeirra og festu í þessu máli verður eflaust lengi minnst.

Þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar var mynduð sumarið 1971, lýsti Alþb. því yfir sem helsta stefnumáli sínu í stjórnarsamstarfinu að koma hernum úr landi. Eftir nokkurra mánaða setu þeirra í ríkisstj.ákvað hún stórfelldar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir bandarískt fé. Af miklu lítillæti létu ráðh. Alþb. sér nægja að bóka mótmæli, sögðu þetta ekki vera í samræmi við sjálfstæða íslenska utanríkisstefnu, en sátu samt kyrrir í ríkisstj., enda ekki búnir að vera þar mjög lengi. Eftir tvö ár voru ráðh. Alþb. fallnir frá því, að bókstaflega allur her skyldi hverfa af landinn. Hingað áttu að mega koma svonefndar hreyfanlegar flugsveitir frá hinu óttalega Atlantshafsbandalagi, þótt enginn hafi í raun getað frá því skýrt, hver munurinn væri á hreyfanlegum flugsveitum og þá væntanlega einhverjum öðrum, sem ekki væru hreyfanlegar. Enn mikilvægara var þó hitt, að ráðh. Alþb. voru búnir að fallast á, að ekki skyldi allur herinn vera farinn fyrir endalok kjörtímabilsins, heldur mætti nokkur hluti hans vera hér áfram fram yfir kosningar. En svo komu kosningarnar dálítið fyrr en við hafði verið búist og þriggja ára seta hernámsandstæðinganna í ráðherrastólum Alþb. reyndist bókstaflega engan árangur hafa borið í aðalbaráttumálinu. Ekki hafði fækkað í varnarliðinu um einn einasta hermann, ekki eina einustu flugvél. Árangurslausari baráttu hafa engir íslenskir ráðh. háð en Alþb-ráðh. í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar fyrir málstað hernámsandstæðinga. Þetta er saga um ómyndarskap eða sundurlyndi, að því er sumir telja kannske óheilindi. Og dæmisaga er þetta um það, að eitt eru orð og annað gerðir.

Mikill meiri hluti íslendinga fagnar því áreiðanlega, að stefna ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar skuli ekki hafa náð fram að ganga, og styður þá meginstefnu í utanríkismálum, sem núv. ríkisstj. fylgir, þótt samningarnir, sem nýlega hafa verið gerðir við Bandaríkjastjórn, séu losaralegir að ýmsu leyti og af þeim of mikil peningalykt. En það er augljóst, að meginstefna þessarar ríkisstj. í utanríkis- og varnarmálum er alveg gagnstæð þeirri, sem fyrrv. stjórn fylgdi. Þess vegna varð þjóðin agndofa, þegar hún heyrði að Framsfl. ætlaði að fara áfram með stjórn utanríkismála í þessari ríkisstj. og meira að segja sami maðurinn ætlaði að gegna embætti utanrrh, áfram og gera nú það, sem hann var búinn að segja þjóðinni í 3 ár. að rangt væri að gera. Er nema von, að fólk spyrji: Hvernig má annað eins og þetta gerast? Svona háttarlag tíðkast ekki í einkalífi manna. Það mundi vera talið ólöglegt í viðskiptum. Menn spyrja: Gilda einhver önnur siðalögmál í stjórnmálum? Auðvitað á svarið að vera neitandi. En ekki er reynslan góð af myndun þessarar ríkisstj.

Ég gat þess áðan, að e.t.v. væri vægðarlausri lýsingu hæstv. forsrh. á afrekum fyrirrennara síns og Framsfl. á sviði efnahagsmála ætlað að varpa skugga á Framsfl. og gjalda honum rauðan belg fyrir gráan vegna ágengni í sambandi við stjórnarmyndunina. Einhver gæti látið sér detta í hug, að Sjálfstfl. væri líka ósárt um, þótt sómi Framsfl. í sambandi við utanríkismál yrði ekki sérlega mikill, þeim sé mátulegt að teyga þann beiska bikar í botn, sem þeir tóku sér í hönd með samstarfinu víð kommúnista í Alþb.

Ég hef fram til þessa fyrst og fremst fjallað um lýsingu hæstv. forsrh. á efnahagsástandinu og stefnubreytinguna á utanríkismálum. Ég tel stefnubreytinguna í utanríkismálum hafa verið rétta. En hvað er að segja um ráðstafanir þær í efnahagsmálum, sem ríkisstj. sumpart hefur gert og sumpart boðað?

Hæstv. forsrh. segir, að sé gerð tilraun til að draga saman kaupmáttaráhrif þeirra ráðstafana, sem gripið hefði verið til, og þeirrar verðþróunar, sem nú sé fyrirsjáanleg, sé niðurstaðan sú, að stefnt sé að svipuðum kaupmætti launa og var á árunum 1972 og 1973 fyrir launþega í heild og ívið meiri kaupmætti fyrir þá, sem lægst hafa launin. Þetta er sagt í nafni ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. Hvað felst í þessu í raun og veru? Loforðið frá 1971 um, að kjör launþega skyldu batna um 10% á ári, hefur ekki verið haldið. Nú er það talinn góður árangur, ef tækist að halda kaupmætti launa svipuðum og var í fyrra og hittiðfyrra, og kjarabæturnar, sem felast áttu í kaupgjaldssamningunum í febr. s.l., eru allar roknar út í veður og vind, eru löngu brunnar upp í verðbólgubálinu. Það er ekki aðeins, að kjör launþega séu nú í raun og veru verri en þau voru fyrir samningana, heldur er tekjuskiptingin nú ranglátari.

Sjálfsagt er að viðurkenna það, sem gott hefur verið í gerðum ríkisstj. í efnahagsmálum, en þar á ég fyrst og fremst við láglaunabæturnar. Hins vegar hefur verið hallað verulega á heilar stéttir og þá fyrst og fremst á sjómenn.

Ráðstafanir ríkisstj. hafa auðvitað haft í för með sér almenna kjaraskerðingu. Mér er ljóst, að eins og málum var komið voru einhverjar kjaraskerðingarráðstafanir óhjákvæmilegar. En ekki hefur verið nóg áhersla verið lögð á, að byrðunum væri réttlátlega skipt, og þótt enn sé næg atvinna í landinu hefur atvinnuöryggi alls ekki verið tryggt, því að ýmsar greinar útflutningsatvinnuveganna eru um þessar mundir að lýsa yfir, að reksturinn sé í hættu og kunni að stöðvast.

Um þann kafla í stefnuyfirlýsingu hæstv. forsrh., sem fjallar um frambúðarstefnuna í efnahagsmálum, má ýmislegt jákvætt segja, sem ég hygg að flestir ábyrgir stjórnmálamenn séu sammála um. Það er skynsamlegt markmið að stefna annars vegar að umbótum á sjálfu efnahagskerfinu, sem miða að meiri hagkvæmni í rekstri þess og auknu félagslegu réttlæti, og hins vegar að hlúa að nýjum atvinnugreinum, efla þær, sem fyrir eru, og gera stórátak í byggðamálum.

Fyrirkomulag það, sem verið hefur á greiðslu vísitöluuppbóta, þarf að endurskoða. En í því sambandi leggjum við í Alþfl. sérstaka áherslu á, að athugun á því máli fari fram í nánu samstarfi við launþegasamtökin. Vinnuaðferðir við gerð kjarasamninga þarf einnig að bæta, sömuleiðis í samstarfi við aðila vinnumarkaðsins, og er raunar nauðsynlegt, að fastri skipan verði komið á samráð ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðsins.

Alþfl. hefur áður lýst yfir stuðningi við hugmyndina um sameiningu tekjuskatts og helstu bóta almannatrygginga og var raunar fyrstur til að vekja opinberlega máls á nauðsyn þess, sem nú er farið að nefna sameinað tekjujöfnunarkerfi. Þá er það og gamalt og nýtt baráttumál Alþfl., að allir landsmenn eigi aðild að lífeyrissjóði með hliðstæðum og jöfnum hætti og að starfandi sé öflugt lánakerfi til íbúðabygginga. Alþfl. er sérstaklega undir núv. kringumstæðum ljós sú nauðsyn aðhalds í ríkisfjármálum, endurskipulagningar lánamála og umbóta í skattamálum og verðlagsmálum.

Siðast en ekki síst styður Alþfl. heils hugar stefnuna um 200 mílna efnahagslögsögu.

Þau frumvörp og þær till., sem hæstv. ríkisstj. mun flytja og lúta að þessum málum, mun Alþfl. styðja. En hann saknar margs í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Megingalli hennar er sá, að hún ber þess vott, að enn hafi stjórnarflokkarnir í raun og veru ekki komið sér saman um heildarstefnu í efnahagsmálum, sem þeir báðir standi heils hugar saman um. Það er augljóst, að þær ráðstafanir, sem búið er að gera, nægja ekki til þess að rétta þjóðarskútuna við. Menn hljóta að spyrja: Hvað verður gert til viðbótar? Við því fæst ekki svar í stefnuyfirlýsingu hæstv. forsrh. Það, sem búið er að gera, er ekki nóg og ekki nógu gott. Launþegum hefur ekki veríð sýnd nægileg sanngirni, og sumar stéttir hafa verið beittar ranglæti. Ekkert hefur verið minnst á það gífurlega félagslega ranglæti, sem felst í ófullnægjandi eftirliti með skattaframtölum og þeim gífurlegu skattsvikum, sem allir vita að viðgangast. Ekkert bólar heldur á neinum sparnaðarráðstöfunum. Skýrslan, sem nýlega var birt um nefndir ríkisins, er þó órækur vottur um verkefni á því sviði. Og ekki er það veigamikið, sem sagt er í stefnuyfirlýsingunni um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er þó augljóst, að það hefur dregist úr hófi fram að endurskoða stjórnarskrána, sem enn er að stofni til frá 1874, og kosningalögin. Sú kjördæmaskipun, sem lögleidd var 1959 og var þá réttlát, er nú orðin mjög ranglát vegna fólksflutninga innanlands. Atkvæðisréttur kjósendanna er nú orðinn allt of ójafn eftir búsetu og ákvæði kosningalaga um kjör þm. og úthlutun uppbótarþingsæta eru þannig, að smáflokkur, sem fær nokkur hundruð atkv. í litlu kjördæmi, getur orðið þingflokkur, en helmingi og jafnvel þrisvar sinnum stærri flokkur getur lent utan þings. Slíku þarf auðvitað að breyta.

Um stefnuyfirlýsingu ríkisstj. í heild er það að segja, að hún er ekki nógu skýr og ákveðin til þess að af henni megi dæma ríkisstj. Auk þess á að mínu viti ekki að dæma flokka eða ríkisstjórnir eftir yfirlýsingum þeirra, heldur gerðum þeirra. Ég er þeirrar skoðunar, að sérhver ný ríkisstj. eigi eðlilegan rétt á nokkrum tíma til að átta sig á aðstæðum og móta stefnu sina, hún eigi að fá tíma til að láta nokkra reynslu skera úr um, hvort stefnan er rétt eða röng. Það á að koma í ljós, hvort hún er afturhaldssöm eða framfarasinnuð. Þá er réttur tími kominn til þess að fella yfir henni dóm. Fyrir fram skal ég því ekki fordæma verk þessarar ríkisstj. Ég get þó ekki látið vera að minna á, að þær ríkisstj. undanfarinna áratuga, sem hafa verið íslenskum launþegum þyngstar í skauti, hafa verið samstjórnir Sjálfstfl. og Framsfl. Auðvitað eru í báðum flokkum frjálslynd öfl, enda væru þeir ekki jafnstórir og þeir ern, ef svo væri ekki. En í báðum eru líka sterk afturhaldsöfl. Þegar flokkarnir hafa unnið saman einir, hefur reynslan orðið sú, að afturhaldsöflin í báðum flokkum hafa náð saman og niðurstaðan orðið neikvæð stefna í þágu ýmissa þröngra sérhagsmuna. Ótti margra íslenskra launþega um, að þetta muni nú gerast einu sinni enn, er því miður ekki ástæðulaus.

Alþfl. mun í stjórnarandstöðu sinni ekki stuðla að áframhaldandi upplausn eða ringulreið í íslenskum efnahagsmálum eða íslenskum þjóðmálum yfir höfuð að tala. En hann mun veita ríkisstj. virkt og ábyrgt aðhald. Hann mun vekja á því athygli, ef hún bregst skyldum sínum um að bæta úr stjórnleysi undanfarinna ára. Hann mun í sífellu minna hana á nauðsyn þess, að staðinn sé traustur vörður um hag launþega. Alþfl. mun leggja sérstaka áherslu á samstarf við launþegasamtökin og stuðla að því, að réttmæt sjónarmið þeirra hljóti viðurkenningu. Alþfl. mun í stjórnarandstöðu sinni segja og gera það, sem hann telur rétt, í trausti þess, að með heilbrigðri gagnrýni verði best unnið að hag og heill þjóðarinnar. — Góða nótt.