10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

59. mál, vegarstæði yfir Þorskafjörð

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 62 er fyrirspurn frá hv. 3. þm. Vestf. sem er svo hljóðandi:

„Hvað líður könnun á vegarstæði yfir Þorskafjörð frá Stað á Reykjanesi að Skálanesi?

Svar við þessari fsp. er á þessa leið:

Á árunum 1968 og 1969 var gerð lausleg dýptarmæling í mynni Þorskafjarðar á mótorbáti. Á grundvelli þeirrar mælingar var lauslega áætlað að vegfylling yfir fjörðinn yrði 400–600 þús. kúbikmetrar eftir því hvaða breidd yrði á garðinum að ofan. Á grundvelli þessarar lauslegu athugunar er giskað á að kostnaður við vegagerðina yrði 200–250 millj. kr.

Eftir að ákveðið var í vegáætlun 1972–1975 að gera Djúpveg akfæran á áætlunartímabilinu var farið að athuga, hvort endurbyggja ætti núverandi veg yfir Þorskafjarðarheiði eða leggja nýjan veg úr Djúpi yfir Kollafjarðarheiði. Einn liður í athugunum á síðari valkostinum yrði eðlilega könnun á því hvort hagkvæmt yrði að stytta núverandi Vestfjarðaveg milli Bjarkarlundar og Kollafjarðar með því að leggja veg yfir Þorskafjörð utarlega eða innarlega og fyrir Djúpafjörð og Gufufjörð ef innri leiðin yrði valin um Þorskafjörð.

Unnið er nú að þessum athugunum og var um þetta rætt við þm. Vestfjarðakjördæmis á s.l. vetri að niðurstöður athugananna ættu að geta legið fyrir í meginatriðum í árslok 1975 eða fyrri hluta ársins 1976, það snemma að hægt yrði að hafa niðurstöðuna til hliðsjónar þegar vegáætlun fyrir árið 1976 og 1977 yrði endurskoðuð og ný áætlun samin fyrir árin 1978 og 1979. — Frekar hef ég ekki um þetta mál að segja.