05.11.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, minntist hér á fjárlagafrv. og taldi, að lítið hefði orðið úr tali sjálfstæðismanna um lækkun ríkisútgjalda. Ég vil taka það fyrst fram, að þar sem svo skammur tími var til undirbúnings fjárlagafrv. sem nú var, getur náttúrlega enginn maður búist við því, að þar sé um verulegar breytingar að ræða til niðurskurðar og sparnaðar, vegna þess að allt slíkt krefst mikillar vinnu og alllangs tíma. Hins vegar er rétt að minnast þess, að þessi hv. þm., Lúðvík Jósepsson, hefur átt sæti í tveimur vinstri stjórnum, og þegar fyrri vinstri stjórnin komst til valda, var m.a. fyrirheit hennar að draga úr ofþenslu efnahagslífsins. Menn bjuggust við því, að á næsta þingi þegar hún afgreiddi sín fyrstu fjárlög sæi þess nokkurn stað. Það voru liðnir 7 mánuðir frá myndun stjórnarinnar þegar fjvn. skilaði áliti sínu og í áliti þessa meiri hl. fjvn. vinstri stjórnarinnar fyrri frá 17. febr. 1957 standa þess orð:

„Meiri hl. n. er ljóst, að hækkun fjárl.“ — því að fjárl. hækkuðu verulega — „getur í fljótu bragði virst í ósamræmi við þá yfirlýstu stefnu núv. ríkisstj. að draga úr ofþenslu efnahagslífsins. En við mat á því, hvað gera skuli, verður að hafa eftirfarandi í huga: Sá maður, sem bjargar sér út úr vagni, sem er á hraðri ferð kemst ekki hjá því til þess að forða sér frá að missa fótanna að hlaupa fyrst í sömu átt og vagninn stefnir.“

Þetta var stefnuyfirlýsing Lúðvíks Jósepssonar og vinstri stjórnar, þegar þeir voru við völd fyrra sinnið og höfðu haft alllangan tíma til þess að endurskoða útgjöld ríkisins og lækka fjárlög.

Þessi sami hv. þm. taldi það núv. ríkisstj. til foráttu, að hún vildi vinna að því að gera verðlag frjálst. Þessi hv. þm., sem hefur verið viðskrh. lengi, ætti að vita það og veit það vafalaust með sjálfum sér, að núv. verðlagskerfi hefur fyrir löngu gengið sér til húðar. Reynslan hefur sýnt bæði hér og annars staðar, að það kerfi tryggir ekki hin hagkvæmustu kjör fyrir almenning, þvert á móti. Reynslan sýnir, að annað skipulag reynist miklu betur, það skipulag, að meginstefnan sé frjálst verðlag og verðlagið ráðist af samkeppni og árvekni neytendanna, en ríkisvaldið hafi jafnan heimild til að grípa inn í, ef um misnotkun er að ræða.

Þá minntist þessi sami hv. þm. á vestur-þjóðverja og samningaumleitanir við þá um landhelgismálið. Hv. þm. hefur misskilið eða misheyrt það, sem ég sagði í örstuttu samtali við útvarpið fyrir nokkru, þar sem ég var spurður um, hvaða mál ég teldi að kæmu bráðlega til umræðu á þingi, og meðal þess, sem ég nefndi, var spurningin um, hvort ætti að reyna að leysa með samningum landhelgisdeiluna við vesturþjóðverja. Ég sagði þar ekkert um efni málsins, ekki eitt orð. Það er vafalaust ósk okkar flestra, að þessa deilu takist að leysa, og er allmikið í húfi, að það takist. En vitanlega veltur allt á því, hvort þeir samningar fást, sem eru viðunandi fyrir íslenska hagsmuni. Hæstv. forsrh. skýrði frá því í stefnuræðu sinni, að skýrsla viðræðunefndarinnar yrði afhent öllum þingflokkum og ekkert yrði afráðið í málinu án samráðs við alla þingflokka. En þegar hv. þm. Lúðvík Jósepsson talar hér með hneykslun mikilli um það, að nú eigi að fara að semja við vesturþjóðverja Íslandi í óhag, þá er ekki laust við, að það minni á það, sem gerðist fyrir ári. Þá hafði hæstv. þáv. forsrh. farið til Lundúna og samið þar við forsrh. breta og þau samningsdrög voru síðan lögð fyrir Alþ. Þá heyrðist það frá þessum hv. þm. og málgagni hans, að hér væri um allt að því landráðasamning að ræða, úrslitakosti Edwards Heath, sem ekki kæmi til mála að ganga að. En það voru ekki margir dagar liðnir þegar hann var búinn að gleypa öll þessi stóru orð og ásamt öllum sinum flokksbræðrum á Alþ. búinn að samþykkja þessa úrslitakosti Edwards Heath með nafnakalli hér á Alþ.

Herra forseti. Það var talið til tíðinda endur fyrir löngu, þegar það spurðist einn sólbjartan sumardag, að flugmenn hefðu flogið svo hátt upp í himingeiminn, að þeir sáu allt Ísland í einu. Við þyrftum sem oftast, íslendingar, a.m.k. annað kastið, að hefja hug upp yfir daglegt þras og amstur og reyna að sjá allt Ísland í einu. Við augum blasir þá hin óviðjafnanlega fegurð fósturjarðarinnar, hið langdræga tæra útsýni, sú náttúra landsins, sem krefst virðingar og varðveislu. Og hugurinn beinist um leið að þeim lindum afls, orku og auðæfa til lands og sjávar, sem þessi þjóð á í landi sínu og umhverfis það. Það er höfuðvandi okkar að búa þannig í landinu að nýta sem haganlegast auðlindir þess, en vernda um leið og virða þessi gæði öll. sem okkur eru gefin.

Þegar við erum nú vel á vegi að endurheimta undir íslensk yfirráð öll hin gjöfulu fiskimið umhverfis Íslandsstrendur, sem við áttum og sátum einir að fyrstu 500 ár Íslandsbyggðar, verðum við að gæta varúðar. Það má aldrei ofbjóða fiskstofnunum. Öll ofveiði og rányrkja skal stranglega bönnuð. Fiskvernd og fiskrækt þurfa að vera okkar leiðarljós og heilög boðorð. Þetta á jafnt við um veiðar á hafi úti sem í ám og vötnum. Og eins er farið auðlindum á landi. Afl og orku í fossum og fljótum, heitum lindum og gufuhverum eigum við að virkja og nýta með það fyrir augum, að landsmönnum verði til hags og heilla í lífsbaráttu þeirra, en jafnframt verði þess vandlega gætt að skaða ekki landið sjálft, trufla ekki fegurð þess og yndisþokka.

En náttúruvernd og umhverfissjónarmið fela það ekki á sér, að engu megi hreyfa frá því, sem áður var. Forfeður okkar, sem völdu þjóðinni hinn undurfagra þingstað á Þingvöllum, breyttu rennsli Öxarár, veittu henni úr farvegi sínum niður á völluna til gagns og yndisauka. Þannig hefur mannshöndin margt vel gert. Hér þurfa jafnan að fara saman nytsamlegar framkvæmdir og tillitssemi við náttúru landsins. Það mætti hafa það til fyrirmyndar, að í landi einu eru það lög, að fyrir hvert það tré, sem höggvið verður, skuli tvö gróðursett í staðinn.

Svo er fyrir þakkandi í landi okkar, að oft verða virkjanir beinlínis til hreinlætis og heilsubótar. Þannig er t.d. hitaveitum farið. Hitaveitan í höfuðstaðnum, sem nú hefur starfað í 30 ár, hefur sparað þjóðinni mikinn gjaldeyri og borgarbúum stórfé og aukið þægindi þeirra. Reykjavík skipar þann einstæða sess meðal höfuðborga heims að vera reyklaus borg. Þannig getur virkjun náttúruafla aukið hollustu og dregið úr mengun.

Nú mun nær helmingur landsmanna búa við hitaveitur. Það verður að leggja áherslu á nýjar hitaveitur og stækkun þeirra, sem fyrir eru. Allmargar hitaveitur eru í undirbúningi. Ákveðið er, að frv. um hitaveitu Suðurnesja verði lagt fyrir þetta þing, en hún nær til 7 sveitarfélaga auk flugvallarins og mun fá orku frá Svartsengi. Að því er stefnt, að sem flestir njóti hitaveitu og þar sem því verður ekki við komið verði hús hituð með rafmagni.

Í stefnuskrá ríkisstj. er lögð áhersla á aukinn hraða í virkjun íslenskra orkugjafa, bæði til iðnvæðingar og í því skyni að gera íslendinga óháðari innfluttri orku. Þar er lögð áhersla á að hraða stórvirkjunum gera áætlun um virkjun vatns- og varmaorku landsins, þannig að næg orka verði fyrir hendi til almenningsþarfa og aukins iðnaðar og iðju, og að tryggja sem fyrst með nýjum virkjunum næga raforku á Norðurlandi og öðrum landshlutum, sem eiga við orkuskort að búa. Norðurland er nefnt hér sérstaklega. Það er vegna þess alvarlega ástands, sem þar ríkir, en skortur á raforku er ýmist þegar orðinn eða yfirvofandi. Nú eru margir stórbrotnir virkjunarmöguleikar til á Norðurlandi eins og Dettifoss, Blanda, Skjálfandafljót, Jökulsá í Skagafirði o.fl. Það, sem hugur manna beinist einkum að nú, er Krafla og er þegar hafinn undirbúningur að gufuvirkjun bar með 55 þús. kw eða 55 mw. En það tekur væntanlega 3 eða jafnvel 4 ár, að hún komist í notkun, og hvernig á þá að leysa úr hinum gífurlega vanda þangað til? Við það er glímt nú, skoðaðir gaumgæfilega allir möguleikar og hugsanlegar leiðir og málið verður að leysa.

En þótt Norðurland sé nefnt, er ástandið á Austurlandi einnig mjög alvarlegt. Lagarfossvirkjun átti að vera tekin til starfa, en vegna vanefnda og dráttar á afhendingu tækjabúnaðar mun hún ekki geta tekið til starfa fyrr en í fyrsta lagi í febrúar. Þar er einnig mikill vandi á höndum. Þar eru mörg verkefni til athugunar, smærri virkjanir og stórvirkjanir. Svo er talið, að með stórvirkjunum þar megi jafnvel fá 1600 mw eða stærstu raforkuver á Íslandi. Það eru nokkur ár síðan hugmynd kom fram um það að veita saman vötnum norðan Vatnajökuls, þ.e.a.s. Jökulsá á Fjöllum, Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal. Hvort sem þær verða sameinaðar eða virkjaðar hver í sínu lagi, þá er ljóst, að þar er um stórfellda orkumöguleika að ræða. Þessum rannsóknum verður að sjálfsögðu haldið áfram. En það, sem þar er nærtækast og samtök sveitarfélaga á Austurlandi hafa lagt sérstaka áherslu á, er að undirbúa sem fyrst virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal, þar sem gert er ráð fyrir um 30 mw. afli. Á þessu þingi og það nú alveg á næstunni verður flutt frv. um heimild til að fela Rafmagnsveitum ríkisins eða öðrum aðila að reisa og reka vatnsaflsstöð við Bessastaðaá í Fljótsdal, og í því frv. er gert ráð fyrir því, að óski sveitarfélög á Austurlandi að gerast eignaraðilar að virkjun Bessastaðaár og öðrum orkuverum á orkuveitusvæðinu, sé ráðh. heimilt að gera samninga þar um. Ég vil taka það fram sérstaklega, að með væntanlegum frv. um heimild til virkjunar Bessastaðaár verður að sjálfsögðu á engan hátt dregið úr fyrirætlunum um rannsóknir á hinum stórfelldu Austurlandsvirkjunum.

Í ályktun, sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur nýlega samþykkt, er lögð á það áhersla, að stjórn slíkra orkufyrirtækja verði heima í héraði. Það er sjónarmið, sem ríkisstj. telur sjálfsagt að taka til velviljaðrar athugunar. Nú hefur m.a. verið ákveðið, að stjórn Kröfluvirkjunar, sem hefur með höndum undirbúning og framkvæmdir við Kröfluvirkjun, skuli flytjast frá Reykjavík og aðsetur hennar verða á Akureyri.

Þótt Norðurland og Austurland hafi hér verið gerð sérstaklega að umtalsefni vegna þess mikla vanda, sem þar er fram undan, eru mikil og aðkallandi verkefni bæði á Suður- og Vesturlandi og Vestfjörðum í orkumálum. Þeim verður að sjálfsögðu að sinna ekki siður en öðrum, enda verður það að vera sjónarmið íslenskra stjórnvalda á hverjum tíma að líta jafnt til allra landshluta, til hinna strjálu byggða og þéttbýlis, að reyna að sjá allt Ísland í einu.