10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

59. mál, vegarstæði yfir Þorskafjörð

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. — Eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. var gerð áætlun um þetta á árunum 1968–1969. Ég vil gjarnan að það komi fram að hún var fyrir frumkvæði heimamanna sem gerðu sjálfir þá mælingu sem áætlunin var byggð á. Það kom hins vegar í minn hlut að skrifa vegamálastjóra og óska eftir kostnaðartölum og fékk þær og þær sömu og hæstv. ráðh. fór með áðan. Hins vegar leitaði ég einnig til starfandi verkfræðings og bað um áætlun um þetta, og sú tala var langtum lægri en hjá vegamálastjóra. Ég held að ég fari rétt með að hann hafi áætlað kostnaðinn um 150 millj. kr. Þetta stafar af því að efnistaka er ákaflega góð þarna beggja vegna fjarðarins, alveg sérstaklega góð, laust stórgrýti sem hentar vel í þessa fyllingu. Ég er þeirrar skoðunar að til þess hafi ekki verið tekið nægilegt tillit í áætlun Vegamálaskrifstofunnar.

Nú fagna ég því að Vegamálaskrifstofan er með þetta í nánari athugun, og mér er kunnugt um að yfirverkfræðingur skrifstofunnar var þarna á ferðinni í haust og kynnti sér þessi mál. Hins vegar verð ég að segja það, að ég er ósammála hv. 3. þm. Vestf. þegar hann telur að þetta verði að skoða sjálfstætt, án hliðsjónar af því hvernig farið verður yfir í Ísafjarðardjúp. Þetta er mikill þáttur í því. T.d. verður varla farið yfir í Ísafjarðardjúp yfir Kollafjarðarheiði án þess að lausn sem þessi sé fengin, því að það er til lítils að fara þar yfir og lenda síðan á tveimur fjallvegum, sem eru oft, a.m.k. annar, ófærir mikinn hluta vetrar.

Það, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., er jafnframt í samræmi við það sem vegamálastjóri tjáði okkur. Ég fagna því að þessar áætlanir eiga allar að liggja fyrir þegar vegáætlun verður endurskoðuð.