10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

304. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er ástæðulaust að lesa upp fsp, því að bæði liggja þær fyrir á þskj, og auk þess hefur hv. fyrirspyrjandi lesið þær upp.

Veturinn 1970–1971 gerði iðnrn. í samvinnu við Orkustofnun till. að lúkningu sveitarafvæðingar á 4 árum Þegar fyrrv. ríkisstj. tók við völdum í júlí 1971 lagði hún svo fyrir að þessi áætlun yrði endurskoðuð á þann veg að ljúka rafvæðingunni á þremur árum í stað fjögurra, þ.e.a.s. á árunum 1972–4 að báðum meðtöldum. Reynslan hefur sýnt, að þessi áætlun hefur ekki staðist. Þegar þessi áætlun var gerð voru taldar 930 bújarðir í sveitum utan samtengingar við veitukerfin. Af þessum 930 býlum var gert ráð fyrir skv. áætluninni að tengja 765 býli og var skiptingin þessi: Á fyrsta ári, árinu 1972, gerði áætlunin ráð fyrir að tengd yrðu 328 býli. Hins vegar varð í framkvæmd ekki tengt meira á því ári en 241. Á næsta ári, 1973, gerðu áætlanir ráð fyrir að tengd yrðu 239 býli. Í framkvæmdinni voru tengd 260. Á þriðja árinu, 1974, var ráðgert að tengja 198 býli skv. áætluninni, en skv. upplýsingum Rafmagnsveitna ríkisins verður ekki lokið við að tengja á árinu nema 100 býli. Samtals hefur því á þessum þrem árum, sem þriggja ára áætlunin gerði ráð fyrir, verið tengt 601 býli af 765, sem gert hefur verið ráð fyrir bæði í fyrri og síðari áætluninni að tengja.

Skv. upplýsingum Rafmagnsveitnanna hafa engar verulegar breyt. verið gerðar á hinni upprunalegu áætlun um rafvæðingu sveitanna aðrar en þessi, að framkvæma skyldi hana á þremur í stað fjögurra ára.

Af þeim 765 býlum, sem áætlunin gerði ráð fyrir að tengd yrðu, falla úr allmörg býli, sumpart vegna þess að þau hafa farið í eyði, sumpart vegna þess að þau hafa einkavatnsaflstöðvar og hafa því ekki óskað eftir tengingu. Þá hafa í nokkrum tilfellum verið tengd viðbótarbýli sem voru utan áætlunar. Af þessum ástæðum er áætlað að heildarfjöldi tengdra býla fækki um 60–70, miðað við hina upprunalegu áætlun. Skv. því ætti nú að vera lokið við tengingu um 600 býla, eins og ég gat um, en ólokið að tengja um 100 býli af þeim u.þ.b. 700 sem hin endurskoðaða áætlun tekur til, með með hliðsjón af þeirri breytingu til fækkunar sem ég gat um.

Standa vonir til að þessi 100 býli, sem eftir eru, verði tengd samveitum á næsta ári, 1975. Verður þá reyndin sú að þessi þriggja ára áætlun tekur yfir 4 ár, eins og upphaflega hafði verið áætlað.

Það, sem valdið hefur fyrst og fremst töfum á framkvæmdum þessarar þriggja ára áætlunar, er að ekki hefur verið veitt nægilegt fé til framkvæmdanna, miðað við að framkvæma þetta á þremur árum. Vaxandi dýrtíð og aukinn kostnaður við framkvæmdir hafa haft sitt að segja í þessu sambandi. Til skýringar má benda á að kostnaður við rafvæðingu nú í ár, 1974, var áætlaður 206 millj. kr. miðað við verðlag 1. mars s.l. Í fjárl. ársins var hins vegar gert ráð fyrir 161 millj. kr. til þessara framkvæmda og síðar á árinu var sú fjárveiting lækkuð um 60 millj. eða niður í 101 millj. Af þessu sést að ekki var í reynd veitt fé nema sem svaraði helmingi af framkvæmdaáætluninni, en við þetta bætist svo hækkaður kostnaður á þessu ári síðan í mars, sem er talinn nema um 25% af fyrrgreindri áætlun. Það hefði skv. þessu orðið að verja samtals um 257 millj. kr. til framkvæmda á þann hátt sem ætlað var að gera á árinu 1974.

Það gefur auga leið að töluvert átak þarf til þess að ljúka þessari rafvæðingu. Hefur ráðuneytið fyrir hönd Rafmagnsveitna ríkisins farið fram á verulega aukningu á fjáröflun til þessa verks. Er enn til athugunar að kanna með hverjum hætti væri hagkvæmast að sjá þeim býlum fyrir raforku sem njóta hennar ekki enn og er unnið áfram að því verkefni.

Með þessu hefur í meginatriðum verið svarað fyrstu fjórum líðum fsp. En varðandi 5. liðinn skal þetta tekið fram: Í þriggja ára áætluninni var gert ráð fyrir dreifiveitu um Árneshrepp, en ekki gerð nánari grein fyrir á hvern veg ætti að afla orkunnar. Nú hafa Rafmagnsveitur ríkisins að beiðni rn. athugað þessi mál og svar þeirra er sem hér segir:

„Áætlanadeild telur að rafvæðingu árneshrepps verði á hagkvæmastan hátt hagað þannig að einfasa háspennulína 19 kw. verði lögð frá Hólmavík og norður í Árneshrepp. Háspennulínan nær nú þegar nokkuð inn fyrir Hólmavik og yrði þá haldið áfram með línuna yfir Trékyllisheiði norður í Árneshrepp og alla leið til Ófeigsfjarðar. Flutningsgetan yrði um 300 kw., sem er talið fullnægjandi eins og er. Heildarkostnaður er áætlaður 35 millj. kr., en rafvæðingin nær til 27 heimila, félagsheimilis og barnaskóla.“

Þetta var svar Rafmagnsveitna ríkisins eða áætlanadeildar. Þar sem þar er ekki getið um það atriði, sem hv. fyrirspyrjandi spyr um, hvenær gert sé ráð fyrir þessari rafvæðingu, vil ég bæta því við að gert er ráð fyrir henni á næsta ári.