10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

308. mál, atvinnulýðræði

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Þegar þm. Alþfl. fluttu till. til þál. um atvinnulýðræði á löggjafarþinginu 1972–73 þá stendur svo í grg., með leyfi forseta:

„Hér á landi hefur mikið verið rætt um atvinnulýðræði, málið kannað og skýrslur skrifaðar, en lítið orðið úr aðgerðum.“

Síðan skipar hæstv. félmrh. n. til þess að gera eitthvað eftir samþykkt Alþ. Þá virðist ekki bara vera hætt að gera hlutina, það virtist líka vera hætt að ræða um þá og kanna þá.

Á því röska ári, sem n. hefur haft til starfa, hefur hún haldið tvo bókaða fundi, nokkra óformlega viðræðufundi og svo samþ. að taka sér hlé frá störfum. Sennilega hafa þeir verið búnir að fá nóg, þessir ágætu nm., verið orðnir þreyttir á pexinu.

Hér er um að ræða eitt stærsta pólitíska mál, sem komið hefur upp á síðari tímum í öllum nálægum löndum. Hér er verið að gera tilraun til þess að færa lýðræði út í daglegt líf. Hér er verið að gera tilraun til þess að koma í veg fyrir að lýðræðið lýsi sér aðeins í því að almenningur fái að ganga tvisvar, annað eða fjórða hvert ár, að kjörborði og gera kross. En áhuginn hjá okkur íslendingum, þessari miklu lýðræðisþjóð, er ekki meiri en svo, að þegar n. er skipuð í málið, þá heldur hún tvo bókaða fundi og ákveður svo að taka sér hlé um óákveðinn tíma til þess að hvíla sig.

Það er alveg fráleitt að það taki mikinn tíma að vinna að upplýsingasöfnun um þetta mál. Við erum ekki margir þm. Alþfl., því miður, en við höfum þó haft tíma til þess, á þeim tíma sem við höfum til ráðstöfunar, að verða okkur úti um mikið magn af lögum, frv., till. og hugmyndum um þetta mál frá næstu nágrannaþjóðum. Það er alveg sjálfsagt að Alþfl. láni þessari ágætu n. þessi gögn, ef hún hefur ekki haft framtak í sér til að verða sér úti um þau.

Það er búið að ræða það fyrir mörgum árum á Norðurlöndum, hvort það eigi að láta aðila vinnumarkaðarins semja um þetta í frjálsum samningum eða setja löggjöf um þessi mál, og allir aðilar eru sammála um það þar eftir þær viðræður, sem þar hafa farið fram, að þetta verði ekki framkvæmt betur eða fljótar með öðrum hætti en þeim að viðkomandi löggjafarþing setji rammalöggjöf um málið. sem verkalýðshreyfingin hafi síðan svigrúm til þess að semja í frjálsum samningum um framkvæmd á innan ákveðinna marka.

Mér láðist í upphafi máls míns að þakka hæstv. ráðh. fyrir ágæt og skýr svör. Það vil ég hér gera, en ég vil jafnframt skora á hann og hvetja hann til þess að fara þess á leit við n. að hún hætti nú að taka sitt ótímabundna hlé, hún geri það nú tímabundið, bindi enda á þetta ótímabundna hlé hið allra fyrsta og hefji störf til þess að ljúka því verkefni sem henni var falið. Ef hún hefur ekki uppburði í sér til að afla sér þeirra gagna, sem n. þarf, þá er sjálfsagt að þingflokkur Alþfl. láni henni þau.