10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

308. mál, atvinnulýðræði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég skil vel undrun hv. fyrirspyrjanda á því að n. skuli hafa farið svo hægt í sakirnar eins og raun ber vitni. Það eru í þessari n., eins og kom fram, þrír fulltrúar frá verkalýðssamtökunum, og ég skal ekki segja hvort það verður talið réttað hafa með höndum verulegan eftirrekstur. Ég geri ráð fyrir því að samtökin telji sig þurfa að hafa nokkurn tíma til að kynna sér málið.

En út af þessu máli annars vil ég taka það fram, að þingflokkur sjálfstæðismanna hefur tekið þetta mál, atvinnulýðræði, einnig til umr. og skoðunar. Ég get tekið undir ákaflega margt sem hv. fyrirspyrjandi segir í þeim efnum, að æskilegt sé að vinna að auknu atvinnulýðræði, en þar eru auðvitað ákaflega margar leiðir hugsanlegar. Á sínum tíma, fyrir allmörgum árum, fluttu þm. Sjálfstfl. úr hópi hinna yngri manna till. um aukið atvinnulýðræði, þ.e.a.s. fyrst og fremst um hlutdeild starfsmanna í stjórn fyrirtækja, arðskiptifyrirkomulag o.fl. Tel ég nauðsyn að kanna þessi mál til hlítar, en að sjálfsögðu æskilegt að það, sem í þeim málum verður gert, verði í samstarfi og samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins.

Í sambandi við þetta mál vil ég svo skýra frá því, að mér hefur fyrir nokkru borist skýrsla um atvinnulýðræði sem ungur lögfræðingur, Ingólfur Hjartarson, hefur samið á vegum Minningarsjóðs um Ármann Sveinsson. Í þessari skýrslu, sem er mjög fróðleg og ítarleg, er m.a. gerð grein fyrir þróun atvinnulýðræðis í Noregi, í Danmörku, í Vestur-Þýskalandi og Júgóslavíu og síðan samantekt og yfirlit um markmið og leiðir í þeim efnum.

Ég hef að sjálfsögðu rætt um það við form. þessarar n., hvort hún gæti ekki hraðað störfum og skilað frá sér, áður en langt um líður, niðurstöðum sínum og mun gera það áfram. En ég vil taka það fram líka, að að sjálfsögðu verður að ætla samtökum þeirra aðilja, sem hér eiga hlut að máli, hæfilegan tíma til að gera upp við sig viðhorf sín til málsins. Það hefur að mínu áliti verið of lítið rætt um þetta merka mál hér á landi og full ástæða til þess að taka það meira á dagskrá en hingað til hefur verið.