10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

308. mál, atvinnulýðræði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég stend nú hér upp til að taka undir þau orð hæstv. fyrirspyrjanda að vinnubrögð þeirrar n., sem hér um ræðir, eru sannarlega einkennileg. Ég vil taka undir það að hér er á ferðinni merkilegt mál sem satt að segja hefur gengið furðulega erfiðlega að koma verulega á dagskrá hér á landi. Ég sem sagt tek mjög eindregið undir það, að hér er um að ræða óhæfilegan drátt á nefndarstörfum.

Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að koma því á framfæri að mér þótti dálítið broslegt, svo að ekki sé meira sagt, þegar hv. fyrirspyrjandi hélt því fram og fór um það mörgum háfleygum orðum að Alþfl. hefði alla tíð haft forustu fyrir því að koma þessu máli á dagskrá. Ég er ekki að reyna að draga það af Alþfl. að hann kunni að hafa haft einhvern áhuga á þessu máli á undanförnum árum, en ég verð að segja það, að mér fannst hv. fyrirspyrjandi berja sér á brjóst af lítilli smekkvísi, svo að ég gat ekki orða bundist.

Ég sat á Alþ. á árunum 1963–1967 og ég get fullyrt að þetta mál bar aldrei á góma hér á Alþ. að frumkvæði Alþfl. og vildi gjarnan fá ábendingar um ef þetta væri rangt hjá mér. Aftur á móti vil ég nefna það hér að ég flutti þáltill. mörg þessara ára einmitt um það að skipuð yrði n. til að gera áætlun um aukið lýðræði í íslensku atvinnulífi. Ég átti þá von að hljóta einhvern stuðning af hálfu alþfl.- manna, sem þá áttu sæti hér á þinginu, en frá þeim heyrðist aldrei hósti eða stuna. Ég var að vonast til þess að Alþfl., sem þá var í stjórn, mundi kannske aðstoða mig við að koma þessu máli á framfæri, en því miður, það var aldrei minnsta viðleitni af hálfu þm. Alþfl. til að styðja okkur í því að þetta mál væri tekið á dagskrá. Ég er ekki að segja þetta til þess að miklast af þeirri till., sem við fluttum hér, heldur einungis vegna þess að mér þótti dálítið brosleg viðleitni hv. fyrirspyrjanda til þess að faðma þetta mál svo innilega að sér.