10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

308. mál, atvinnulýðræði

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Mér þykir dálítið broslegt yfirlæti hv. síðasta ræðumanns svo og hitt hversu minnislaus hann virðist vera. Á þeim árum, sem hann talaði um, einbeittum við alþfl.-menn okkur að því í fyrsta lagi, að starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins fengju sæti í stjórn verksmiðjunnar, og í öðru lagi að reynt yrði við Áburðarverksmiðjuna að koma upp samstarfsnefnd hins vinnandi fólks og verksmiðjustjórnarinnar. Það sáu allir, sem sjá vildu á þeim árum, að ekki var fullkomið samkomulag milli stjórnarflokkanna sem þá voru, þó að báðir hefðu á sína vísu áhuga á málinu. Fyrra málið, að starfsfólk Sementsverksmiðjunnar fengi hlutdeild í stjórn verksmiðjunnar, komst ekki áfram. Hins vegar minnir mig að það hafi verið samþ. með atkv. Alþfl: manna og þáverandi stjórnarandstöðu gegn atkv. þáverandi iðnrh, og félaga hans í Sjálfstfl. að gera tilraun með að setja upp samstarfsnefnd við Áburðarverksmiðjuna. Við völdum okkur sem sagt ákveðið svið og það eðlilegasta svið, sem tvær stórar ríkisverksmiðjur eru, og vorum að reyna að vinna að málinu á því sviði. Fullyrðingar hv. þm. um aðgerðaleysi eða stuðningsleysi við hann eru því ekki með öllu réttar.