10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

308. mál, atvinnulýðræði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Við skulum nú ekki pexa öllu meira um þetta mál. Ég sagði það eitt að á árunum 1963–1967, þegar ég átti sæti hér á Alþ., hefði furðulítið heyrst í þeim Alþfl.-mönnum varðandi þetta mál, og sú fullyrðing stendur óhrakin enn. Hv. þm. Benedikt Gröndal færði það til að á þessum árum hefði Alþfl. verið að reyna að koma fulltrúum í stjórn Sementsverksmiðjunnar, en það hefði bara því miður ekki tekist. Þetta átti sem sagt að sanna að hugur hefði fylgt máli. Ég vil bara bæta því við að hér á Alþ. urðum við ósköp lítið varir við þessa viðleitni Alþfl. Það má vel vera að hún hafi átt sér stað, en við urðum afskaplega lítið varir við hana a.m.k. á þessum árum, hvort sem eitthvað gerðist í þessu máli seinna. Ég er ekki frá því að það hafi verið í kringum 1968 eða 1969 sem eitthvað gerðist í því máli — eða kannske enn seinna. En það stendur sem sagt alveg óhaggað að á þessum árum heyrðist aldrei hósti eða stuna frá þessum ágætu samþingsmönnum mínum á þeim tíma.