10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Dómsmrh. (Ólafar Jóhannesson):

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæðulaust að minna á það, til hvers fsp. eru. Þær eru til þess að fá upplýsingar og ekki til annars. Ef menn vilja svo ræða það mál frekar og finnst þær upplýsingar, sem fram koma, gefa tilefni til þess, þá eru önnur form tiltæk til þess að taka málin upp á Alþ.

Ég sendi fsp. þessa Seðlabankanum og fékk frá honum svo hljóðandi bréf, sem er svar við þessari fsp.:

„Tilvísun er gerð til bréfs yðar, dags. 28. nóv. 1974, varðandi fsp. á Alþ. um þjóðhátíðarmynt, sem lögð hefur verið fyrir viðskrh.

Heildarupplag og sala þjóðhátíðarmyntarinnar hefur orðið eftirfarandi:

1. Venjuleg slátta. Af henni voru slegnir 12000 gullpeningar hver að verðmæti 10 þús. kr., 70 þús. silfurpeningar hver að verðmæti 1000 kr. og 70 þús. silfurpeningar hver að verðmæti 500 kr. og eru þeir allir uppseldir.

2. Sérunnin slátta. Af henni voru slegnir 8000 gullpeningar hver að verðmæti 10 000 kr. og eru þeir allir uppseldir. Einnig voru slegnir 58 þús. 1004 kr. silfurpeningar og 58 þús. 500 kr. silfurpeningar. Þessi tegund myntarinnar er ekki enn þá að öllu leyti seld, en upplýsingar um eftirstöðvarnar liggja ekki fyrir enn þá. Uppgjör frá erlendum söluaðilum varðandi myntina hefur ekki borist og því ekki á þessu stigi verið hægt að gera upp endanlegan ágóða af sölunni. Hins vegar er búist við því, að þær áætlanir, sem gerðar voru í upphafi, muni væntanlega standast, en þá var reiknað með því, að hagnaður yrði á bilinu 250–300 millj. kr.

Í upphafi árs, þegar ákvarðanir voru teknar um útgáfu þjóðhátíðarmyntarinnar, skýrði bankastjórn Seðlabankans ríkisstj. frá því, að þegar endanlegt uppgjör lægi fyrir, mundi bankinn gera till. um ráðstöfun fjárins, en jafnframt óska þess, að ríkisstj. og Alþ. tækju lokaákvörðun um hana. Mun því málið koma til kasta Alþingis, þegar þar að kemur.

Davíð Ólafsson.

Sigurður Örn Einarsson.“

Ég vænti, að með þessum upplýsingum sé fsp. svarað.