10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það kom fram skýrt svar við þessari fsp., sem hv. þm. vantaði aðeins svar við. Þegar allt kom til alls hafði hv. þm. fengið allt annað upplýst, en það kom alveg skýrt og greinilega fram. Ég hef kannske ekki lesið það nógu greinilega, en hér stendur: „Þegar endanlegt uppgjör lægi fyrir, mundi bankinn gera till. um ráðstöfun fjárins, en jafnframt óska þess, að ríkisstj. og Alþ. tækju lokaákvörðun um hana. Mun því málið koma til kasta Alþ., þegar þar að kemur.“

Hitt er svo, eins og ég sagði áðan, að hugleiðingar um það, hvort sérfræðingar séu orðnir of áhrifamiklir í landsstjórninni eða ekki, eiga ekki heima í sambandi við fsp. En ef einhver þm. er þeirrar skoðunar, þá er honum í lófa lagið að koma fram með þáltill. um það, almenna eða takmarkaða við eitthvert tiltekið svið, að áhrif sérfræðinga skuli takmörkuð, og þá er hægt að ræða það (Grípið fram í: eða utan dagskrár.) — jafnvel utan dagskrár, sem helst ætti þó ekki að gera nema væri um aðkallandi mál að tefla.

Ég skal heldur ekkert fara út í umr. hér um stjórnarskrá eða skilning hv. þm. á því, hvernig 41. gr. stjórnarskrárinnar eigi að skilja. Auðvitað er það öllum vitanlegt að Seðlabankinn er ekki á fjárl. og svo er um ýmsar fleiri ríkisstofnanir og þar með um alla ríkisbankana, þannig að það þyrfti kannske ýmislegt að breytast ef ætti að framfylgja til hlítar þeim hugmyndum sem mér virtust vaka fyrir hv. þm.