10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

50. mál, virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandasýslu

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er flutt af okkur öllum þm. Vestf. Till. er um það að fela ríkisstj. að heimila væntanlegri Vestfjarðavirkjun eða öðrum aðila að virkja Suður-Fossá á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandarsýslu í allt að 2 mw. raforkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu til Patreksfjarðar til tengingar þar við aðalorkukerfi Vestfjarða. Jafnframt er ríkisstj. falið að gera nú þegar af sinni hálfu ráðstafanir til að hraðað verði eins og frekast er unnt framkvæmdum þessum. Enn fremur segir í till. að stefnt sé að því að ljúka virkjunarframkvæmdum fyrir lok ársins 1976.

Þessi till. var flutt á síðasta Alþ., en hlaut þá ekki afgreiðslu. Málið kom þá nokkuð seint fram og ég hef lítið svo á að það, að málið hlaut ekki afgreiðslu, hafi verið frekar vegna þess hve síðbúið það var heldur en vegna hins, að andstaða væri gegn máli þessu. En nú er þessi till. til þál. endurflutt. Það er ekki að ástæðulausu að við komum með þetta mál hér inn á hv. Alþ. Á undanförnum missirum hafa skapast þau viðhorf í orkumálum heimsins að einskis má láta ófreistað í viðleitni landsmanna til að auka raforkuframleiðsluna. Mikið veltur á að engar ónauðsynlegar tafir verði á framkvæmd virkjana, sem þegar er hægt að byrja á, vegna þess að undirbúningsrannsóknum og athugunum er lokið. Eitt slíkt verkefni, sem biður framkvæmda, er virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandarsýslu.

Þegar árið 1951 beindist athygli manna að virkjun Suður-Fossár. Var þá gerð áætlun á vegum raforkumálastjóra um litla virkjun þar. Var hér um að ræða eina af mörgum athugunum sem gerðar voru vegna könnunar á orkuöflun fyrir Vestfirði. Reyndist hér um að ræða hagkvæmustu orkuöflunina, sbr. grg. í ársskýrslu Sambands ísl. rafveitna frá árinu 1952.

Árið 1961 voru teknar upp virkjunarathuganir að nýju við Suður-Fossá. Var þá gert yfirlit yfir jarðfræðilegar aðstæður og sama ár var enn fremur gert yfirlit yfir virkjunarmöguleika. Þá var árið 1965 mælt langsnið stíflusvæðis og gerð lausleg kostnaðaráætlun fyrir 1.75 mw. virkjun sem áætlað var þá að kostaði 36.6 millj. kr. Í júlí 1970 samþykkti sýslunefnd Vestur-Barðastrandarsýslu að hafa forgöngu og frumkvæði að frekari könnun á virkjun Suður-Fossár. Þá var verkfræðifyrirtækið Virkir h. f. fengið til að gera áætlun um þessa virkjun.

Virkjun sú, sem hér er lagt til að gerð verði í Suður-Fossá, er byggð á tillögum þeim og áætlunum sem Virkir h.f. lagði fram í nóv. 1970. Þar segir að virkjun Suður-Fossár sé tæknilega einföld Gert sé ráð fyrir að nýta afrennsli 18 ferkm. vatnasvæðis og miðla vatnsrennslinu í tveim uppistöðulónum og virkja með 160 m fallhæð. Gefur þetta tveggja mw. virkjun með 10 gwst. árlegri orkuframleiðslu. Áætlað var að virkjun þessi kostaði 63.1 millj. kr. miðað við verðlag ársins 1970. Í fyrra var þessi kostnaður ásamt kostnaði við aðalorkuveitu til Patreksfjarðar áætlaður um 145 millj. kr., en nú er þessi upphæð að sjálfsögðu allmiklu hærri.

Með till. þessari er lagt til, að ráðh. heimili væntanlegri Vestfjarðavirkjun eða öðrum aðila að virkja Suður-Fossá. Er þá gert ráð fyrir að Vestfjarðavirkjun verði sameignarfyrirtæki ríkis og sveitarfélaganna á samveitusvæði Vestfjarða. Slíkt væri eðlileg framkvæmd á stefnumörkun í raforkumálum Vestfjarða samkv. þál. sem samþ. var 5. apríl 1971, en þessi þál. um raforkumál Vestfjarða var fram borin á þeim tíma af öllum þm. Vestf.

Í þessari þál. segir, að kannaðar verði óskir sveitarfélaganna um þátttöku í virkjunarframkvæmdum með það fyrir augum að stofna sameignarfyrirtæki ríkis og sveitarfélaganna á samveitusvæðum. En þó að þessi stefna, sem ég hygg að hafi algert fylgi Vestfirðinga, þó að hún hafi verið mörkuð þegar árið 1971 þá er svo háttað enn þann dag í dag að ekki hafa þessi skipulagsatriði komið til framkvæmda. Þess vegna er í þáltill. þeirri, sem við nú leggjum fram, gert ráð fyrir að annar háttur geti orðið á um eignaraðild ef nauðsyn þykir, t.d. þar til komið verði á væntanlegri Vestfjarðavirkjun.

Virkjun sú, sem þáltill. fjallar um, er á suðurenda samveitusvæðis Vestfjarða og eykur því verulega öryggi notenda þess, einkum þeirra er búa sunnan Arnarfjarðar. Hér er því um að ræða virkjun sem gegnir hliðstæðu hlutverki að þessu leyti og vatnsaflsstöðvarnar á norðurenda samveitusvæðisins, á Ísafirði og í Bolungarvík. Með framkvæmd þessari er því verið að búa svo í haginn að í framtíðinni verði minni þörf á hinum mjög svo óhagkvæmu dísilrafstöðvum sem varastöðvum á þessum hluta samveitusvæðisins.

Þó að hér sé um að ræða virkjun sem fullnægir litlu af framtíðarorkuþörf Vestfjarða, er framkvæmd þessi mikilvægur þáttur í uppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða. Virkjun þessi á að framleiða meiri orku en sem svarar núverandi orkunotkun sunnan Arnarfjarðar og nemur vinnslugeta hennar meir en 1/3 af raforkuframleiðslu Vestfjarða í dag.

Nauðsynlegt er að undirbúningi verði hraðað svo við virkjun Suður-Fossár að framkvæmdir geti hafist sumarið 1975. Við ætlum að þá megi gera ráð fyrir að hægt verði að ljúka verkinu og orkuvinnsla geti hafist í árslok 1976. Þá verður komin í gagnið, eins og reiknað hefur verið með, Mjólkárvirkjun II sem nú er í byggingu og ætlað er að gefi 29 gwst. árlega orkuframleiðslu. Báðar þessar virkjanir eru mikilvægur þáttur í heildaruppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða. En jafnframt er nú brýn nauðsyn til að halda áfram virkjunarframkvæmdum, rannsóknum og hönnun nýrra mannvirkja, svo að séð verði á næstu árum fyrir orkuþörf Vestfjarða. Og þá verður að sjálfsögðu að hafa hugfast að mæta verður hinni stórauknu þörf fyrir raforku til húshitunar og aukins iðnaðar á Vestfjörðum.

Á síðasta þingi, þegar ég mælti fyrir þessari till., fór ég nokkuð út í það að lýsa orkumálum Vestfjarða í heild. Ég ræddi um virkjunarmál Vestfjarða almennt, raforkuþörf, virkjunarskilyrði, brýn viðfangsefni og undirbúning nýrra virkjana. Ég sé ekki ástæðu til þess nú að fara að ræða þessi mál almennt aftur, en aldrei verður nógsamlega mikil áhersla lögð á það, að svo mikla þýðingu sem rafmagnsvirkjanir hafa fyrir aðra landshluta, þá hafa þær óviða meiri þýðingu en einmitt á Vestfjörðum, vegna þess að þar er jarðhiti af mjög skornum skammti og ekki vel í sveit settur til upphitunar íbúðarhúsa. Á Vestfjörðum verður að byggja meir á raforku til upphitunar heldur en viðast hvar annars staðar á landinu.

Ég vænti þess að þessi till. okkar allra þm. Vestf. hljóti nú góðar undirtektir og skjóta afgreiðslu þannig að hægt verði sem fyrst að hefjast handa með næsta vori.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði till. þessari vísað til hv. fjvn.