05.11.1974
Sameinað þing: 5. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Svo segir gamalt máltæki, að keypt vinátta kólni gjarnan. Þetta ætlar að sannast fljótt á núv. stjórnarflokkum, því að þeir keyptu vináttu hvor annars í einhverjum mestu hrossakaupum, sem um getur í íslenskri pólitík. Vináttan var því tekin að kólna þá þegar er þeir tókust í hendur, og hún hefur haldið áfram að kólna.

Það er t.d. ekki hlýtt vináttuþel í leiðurum Tímans, þar sem formaður þingflokks Framsfl. skammast við íhaldsblöðin og þar með auðvitað við Sjálfstfl. um nýliðna fortíð. Það er ekki heldur hlýtt vináttuþel á bak við stöðug skrif íhaldsblaðanna þess efnis, að vinstri stjórnin sáluga hafi stjórnað landinu svo illa, að henni séu að kenna allar þær miklu álögur, er lagðar hafa verið á þjóðina og launastéttir stynja nú undir. Það verður ekki heldur hlýtt vináttuþel á milli Sjálfstfl. og Framsfl., er þeir byrja fyrir alvöru helmingaskipti sín á völdum og ráðum í landinu, sem jafnan hafa einkennt samstjórn þeirra. Þeir hafa nú þegar orðið að grípa til þess að fjölga mönnum í ríkisstj. og ráðherrastólum, í stjórnum og nefndum til þess að ná samkomulagi um skiptin, þótt þeir tali um sparnað, og fleira af slíku mun vera væntanlegt, þegar þeir koma t.d. að bankastjóraembættum og öðru góðgæti, því að sæt er ávinningsvonin.

Núv. ríkisstj. hefur lagt gífurlegar álögur á þjóðina á skömmum tíma, meðan kaupgjald er í rauninni fast. Hún hefur hækkað söluskatt, hækkað margvíslega opinbera þjónustu, lækkað gengi o.s.frv.

Bræðravíg stjórnarblaðanna bera fyrst og fremst vott um slæma samvisku þeirra gagnvart almenningi. En þau sýna okkur meira. Tíminn eyðir enn þá heilum síðum til þess að réttlæta það, að forustulið Framsfl. skyldi í einni svipan kasta af sér vinstri klæðunum og ganga í faðm íhaldsins, svo að varla sjást nokkur merki um framsóknarstefnu, hina gamalrómuðu samvinnu- og jafnaðarstefnu Framsfl., í starfi hinnar nýju ríkisstj. Halldór E. Sigurðsson þurfti enn að verja verulegum hluta ræðu sinnar í þessa afsökun í kvöld. Það er von, að kjósendur Framsfl. um land allt séu undrandi og órólegir og Tíminn þurfi að taka á öllu til þess að skýra þessar pólitísku sjónhverfingar.

Íhaldsblöðin eiga ekki síður við margvíslega erfiðleika að etja, því að mörgum kjósendum Sjálfstfl. hefur þótt furðulegt, hve fljót flokksforusta hans var að semja við framsóknarforingjana og hvernig sjálfstæðisforustan gat samið svo herfilega af sér sem raun ber vitni, um valdaaðstöðu frá því sem allur þorri sjálfstæðismanna hefði viljað hafa hana. Hafi almenningi blöskrað hinar miklu álögur ríkisstj. á sumarþinginu, hafa menn nú fallið í stafi, er þeir sáu fjárlagafrv. það, sem stjórnin hefur unnið að síðan hún kom til valda og nú lagt fram á Alþ. Síðustu fjárlög fyrir vinstri stjórn fyrir árið 1971, hljóðuðu upp á rúmar 11 þús. millj. kr. Þá var Halldór E. Sigurðsson stjórnarandstæðingur og alveg að springa af hneykslun. Hann sagði, að þessi gífurlegu fjárlög væru spegilmynd af ríkisstj. og hin mestu verðbólgufjárlög. Svo tók Halldór sjálfur við stjórn fjármálanna í vinstri stjórninni, og viti menn: Þau stukku upp, fyrst upp yfir 20 þús. millj. og nú fyrir síðustu jól, fjárlög þessa árs, upp í tæplega 30 þús. millj. kr. Þetta þóttu Halldóri engin verðbólgufjárlög, heldur ósköp eðlilegt. En þá var Matthías Bjarnason í stjórnarandstöðu. Hann kallaði þetta eyðslu og ábyrgðarleysi og flutti margra klukkutíma ræðu hér á Alþ. um það, hvernig ætti að halda fjárl. í skefjum og hindra ofvöxt þeirra. Var það mikil kenning og glæsileg.

Nú eru sjálfstæðismenn teknir við stjórn fjármálanna, og þeir virðast vera búnir að steingleyma heilræðum þeim, er þeir sjálfir gáfu fyrir síðustu jól. Þeir bjóða upp á fjárlagafrv., sem hækkar upp í 44 þús. millj. kr. Er það furða, þótt Tíminn segi, að Halldór hafi staðið sig býsna vel miðað við Matthías, enda var Halldór drjúgur í ræðu sinni í kvöld.

Fjárl. eru auðvitað ekkert annað en það fé, sem ríkið tekur af þjóðinni til sinna þarfa. Þessi upphæð á nú í einu stökki að hækka um 12 milljarða, — hækkaðar álögur á þjóðina um 12 milljarða, — en samt segir Morgunblaðið þannig frá þessu, að ætla mætti, sérstaklega eftir fyrirsögnum, að skattar á þjóðina ættu að lækka. Það er raunar talað um smávægilega lækkun á beinum sköttum, en lítið minnst á heildina. Matthías fjmrh. Mathiesen er nefnilega eins og ágætur kaupmaður, sem segir við okkur: Því miður verð ég að hækka fötin um 50%, en ég ætla að lækka verðið á vasaklútunum.

Svo er það þetta með opinberu starfsmennina.

Fyrir nokkrum árum fylgdi ávallt hverju fjárlagafrv. ítarleg skrá um fjölda starfsmanna hjá ríkinu og fyrirtækjum þess. Þetta var fróðleg skrá, sem tilgreindi, hve margir væru í hverjum launaflokki í hverju fyrirtæki og hverri stofnun, hverju rn., og sitthvað fleira. Í tíð Halldórs E. Sigurðssonar sem fjmrh. hætti þessi skrá skyndilega að birtast með fjárlagafrv. Þá var gefin sú furðuleg skýring, að það væri ekki til nákvæm skrá og mjög erfitt að gera hana. Vinstri stjórnin hafði sem sé í öllu sukkinu hreinlega misst tölu á starfsliði ríkisins. Nú hefur hinn nýi fjmrh. lýst yfir þeirri veigamiklu stefnu, að hann ætli að láta telja starfsmenn ríkisins og verður það án efa merkilegt og gagnlegt manntal.

En hvílík stjórn er það ekki á einu fyrirtæki — og allt íslenska ríkið er varla stórfyrirtæki á alþjóðlegum mælikvarða — að vita ekki einu sinni tölu starfsmanna sinna. Ætli það hvarfli ekki að einhverjum þeirra, t.d. kennurum, sem hafa átt inni laun hjá ríkinu í marga mánuði, að e.t.v. séu þeir meðal hinna opinberu starfsmanna, sem fjmrh. Halldór I. og Halldór H. hafa ekki einu sinni tölu á.

Herra forseti. Íslenska þjóðin á við mjög alvarlegan efnahagsvanda að stríða. Um það deilir enginn. Verulegur hluti þessa vanda er innfluttur. En þar við bætist mikil heimatilbúin verðbólga ásamt fjölmörgum öðrum vandkvæðum. Um það er ekki heldur deilt. Þegar svo illa árar er þýðingarmikið, að þjóðin sýni þroska, ábyrgðartilfinningu og samstöðu. Ríkisstj. getur ekki kvartað undan því, að launþegasamtökin hafi brugðið fyrir hana fæti, og þrátt fyrir harða gagnrýni hefur stjórnarandstaðan ekki beitt sér alvarlega gegn ríkisstj. Hún hefur engan veginn notað þá aðstöðu, sem hún hefur t.d. hér á Alþ. Ríkisstj. hefur meira að segja haft langvarandi frið fyrir sjálfu Alþ. og ætlar víst ekki að láta Alþ. starfa allt of mikið næstu vikurnar, að því er frést hefur. Þegar svona stendur á, er mikilvægt, að ríkisstj. komi til móts við þjóðina og þessi öfl, fjöldasamtökin, stjórnarandstöðuna, og leggi ríka áherslu á að verja lífskjör og afkomu alls almennings. En að þessu leyti hefur mikið skort á. Það stóð ekki á álögunum, og kaupið má heita bundið fast. En hefur stjórnin barist af nógu mikilli hörku gegn verðhækkunum, eins og gert er í grannlöndum okkar? Hefur stjórnin ekki verið of leiðitöm við fyrirtækin án þess að kanna raunverulegan hag þeirra nógu vel? Eru hin nýju fjárlög ekki verðbólguaukandi? Er nú tímabært að afnema allt verðlagseftirlit? Skyldi það verða til þess að auka traust milli neytendanna í landinu og stjórnvaldanna? Allt, þetta verður að draga í efa.

Ríkisstj. hefur verið veik og hikandi stjórn, hlynntari fyrirtækjum en fólkinu sjálfu, hlynntari útgerðinni en sjómönnum. Hún hefur verið stjórn fjármagnsins.

Alþfl. mun veita þessari stjórn alla þá andstöðu, sem hann getur, án þess að sýna ábyrgðarleysi. Alþfl. heitir á alla launþega sem og aðra landsmenn að sýna árvekni og gætni á erfiðum tímum og undirbúa jarðveginn fyrir betri ríkisstj. svo fljótt sem kostur verður á. — Góða nótt.