10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

73. mál, kaup á farþegaskipi er sigli milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það eru nú örfá orð aðeins. Þessi till. var flutt á síðasta aðalþingi, að mig minnir, og ég hef heyrt ýmsa ræða þessa till. og þá hugmynd sem í henni felst. Dómar manna eða ályktanir um till. hafa verið mjög misjafnir. Ég hef heyrt ýmsa fordæma hana algerlega og telja hana með öllu ólíklega til þess að komast nokkurn tíma í framkvæmd. Mér er það vitanlega ljóst að mál eins og þetta, sem er þetta mikil nýjung, hlýtur að þurfa að athuga vandlega áður en það kemst á framkvæmdastig. En ég vil leyfa mér að segja það hér, að ég álít að þetta mál sé þannig vaxið að það eigi alls ekki að svæfa það eða þegja það í hel á nokkurn hátt, heldur veita því þá allra bestu skoðun sem hægt er í té að láta.

Ég vil algerlega taka undir þau ummæli flm. að það sé ekki vansalaust fyrir íslendinga, sem eru strandþjóð og þar að auki eyþjóð langt úti í hafi, að eiga ekkert farþegaskip. Ég var áður flm. að því hér á Alþ. að það yrði hafist handa um að smíða farþegaskip til mannflutninga með ströndum fram. Það mál hefur verið athugað töluvert og menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að fyrir slíku skipi væri enginn grundvöllur. Ég hef aldrei sannfærst um það fyllilega, en það hefur orðið niðurstaða þeirra sem um það mál hafa fjallað. En eftir stendur það að við búum hér á þessum hólma, dreifðir um alla ströndina og eigum ekkert skip sem getur flutt fólk með venjulegum nútímahætti, hvorki innanlands né heldur landa á milli, síðan Gullfoss var seldur. Þetta er annað meginatriði till., að bæta úr þessu ófremdarástandi að nokkru leyti.

Hitt er svo það og ég vil vekja alveg sérstaka athygli á því að hér er hreyft þeirri hugmynd, sem ég tel mjög merkilega, að opna nýjar dyr, nýjan inngang að landinu. Ég held að það sé fyllilega tímabært að við förum að venja okkur við þá hugsun, íslendingar, að það er víðar hægt að koma hér við land, hvort sem menn koma í lofti eða á sjó, heldur en bara á einum stað. Og það er óeðlilegt að byggja upp ferðamannaaðstöðu og ganga út frá því sem algerlega óumbreytanlegu að allur ferðamannastraumur að og frá landinn þurfi að fara út frá einum punkti.

Ég skal ekki fella neinn dóm um það hvort endanlega reyndist vera rekstrargrundvöllur fyrir skipi af þessu tagi. Ég get alveg tekið undir það með hv. flm. að þó að það sé ekki hægt að gera ráð fyrir að slíkt skip yrði rekið með hagnaði, þá tel ég að það eigi að skoða málið mjög vandlega fyrir því.

Ég vil svo segja það að ég er flm. þakklátur fyrir að hreyfa þessu máli nú á ný, halda þessu máli gangandi. Og eins og ég sagði áðan, það eru tvö meginatriði í þessari till. Annars vegar að opna nýjar dyr að og frá landinu og hins vegar að stuðla að því að íslendingar eignist aftur farþegaskip. Mér finnst þessi tvö atriði vera þannig vaxin að þessi till. sé allrar athygli verð og beri að skoða hana í fullri alvöru.