06.11.1974
Neðri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Lánasjóður sveitarfélaga var stofnaður með l. nr. 35 frá 1966. Þetta frv. fjallar um breyt. á þeim l. og felur það í sér að auka óafturkræft framlag til sjóðsins honum til eflingar.

Aðdragandi að stofnun Lánasjóðs sveitarfélaga var sá, að á árinu 1963 var ákveðið að taka lánsfjármál sveitarfélaganna til sérstakrar athugunar. Var þá skipuð n. manna til þess að rannsaka og gera till. um, á hvern hátt rekstrar- og stofnfjárþörf sveitarfélaganna yrði best leyst. Sú n. skilaði ítarlegu áliti og grg. og samdi frv. til l., og var það lagt fyrir Alþ. 1964–1965 á vordögum 1965. Ítarlegt álit n. fylgir frv. sem grg. á þskj. 511 í A-deild þingtíðinda frá því ári.

Þegar n. fjallaði um þetta mál. voru einkum uppi tvær skoðanir um það, hvernig leysa skyldi þetta vandamál. Önnur skoðunin var sú að stofna sérstakan banka, sveitarfélagabanka, sem hefði þessi málefni með höndum. Hin till. var sú að setja á fót stofnlánadeild sveitarfélaga, sem yrði deild í einhverjum þeirra banka, sem fyrir voru. Niðurstaðan varð málamiðlun og á því byggðist frv. Hún fól það í sér að stofna Lánasjóð sveitarfélaga, sem hefði fyrst og fremst með höndum að veita sveitarfélögunum stofnlán til nauðsynlegra framkvæmda eða fjárfestingar og í annan stað að aðstoða sveitarfélög við útvegun nauðsynlegra rekstrarlána hjá bönkum og sparisjóðum.

Þetta frv. náði ekki fram að ganga á þinginu 1965, en var svo lagt fyrir næsta þing nokkuð breytt og síðan lögfest sem lög nr. 35 frá 1966, eins og ég gat um í upphafi. Þessi lög kveða svo á, að Lánasjóður sveitarfélaga skuli vera sjálfstæð stofnun, sameign allra sveitarfélaga á Íslandi. Stjórn hans er þannig skipuð, að fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga kýs 4 menn í stjórnina, en ráðh. skipar einn mann og er hann formaður stjórnarinnar.

Í till. undirbúningsnefndar var gert ráð fyrir því, að stofnfé sjóðsins, árlegt óafturkræft framlag, yrði 15 millj. frá sveitarfélögunum sjálfum, þ.e.a.s. Jöfnunarsjóði þeirra, o: jafnhá upphæð árlega frá ríkissjóði. Þegar frv. var afgr. sem lög, var haldið óbreyttu þessu ákvæði um framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en breyting gerð varðandi ríkissjóð, þannig að ákveðið skyldi í fjárl. ár hvert, hvert framlagið skyldi verða. Á þeim árum, sem liðin eru síðan, hafa framlögin verið eins og greinir á bls. 2 í aths. með frv., að frá Jöfnunarsjóði hefur hið árlega framlag jafnan verið hið sama, 15 millj. kr. Frá ríkissjóði var fyrst ákveðið í fjárl. 4.5 millj. á ári og hélst það í 5 ár. Árið 1972 var framlagið hækkað í 7 millj., 1973 var það hins vegar 5 millj. 950 þús. og á árinu 1974 var það aftur hækkað upp í 8 millj. Á þessu ári er því hið árlega framlag frá Jöfnunarsjóði og ríkissjóði samtals 23 millj.

Stjórn Lánasjóðsins og sambands ísl. sveitarfélaga hafa haft af því að undanförnu þungar áhyggjur, hversu stefndi með sjóðinn. Þeir hafa talið, að þar sem raungildi hinna árlegu óafturkræfu framlaga til sjóðsins minnki stöðugt, þá sé sjóðnum stefnt í bráða hættu, því að eigið ráðstöfunarfé sjóðsins fari minnkandi, og hafa því talið brýna þörf á, að hér yrði gerð veruleg bragarbót. Samband ísl. sveitarfélaga og stjórn Lánasjóðsins hafa því gert till. um, að framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga yrði breytt þannig, að í staðinn fyrir fast framlag, 15 millj. á ári, skyldi það verða 5% af brúttótekjum Jöfnunarsjóðs. Það mundi því breytast frá ári til árs, en miðað við áætlun um tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga nú í ár hefði framlagið orðið rúmar 47 millj. frá Jöfnunarsjóði. Gera má ráð fyrir. að á næsta ári yrði þessi upphæð hærri, jafnvel töluvert hærri.

Þá er lagt til, að í stað þess að framlag ríkissjóðs sé ákveðið í fjárl. ár hvert, verði það lögbundið, að eigi skuli það nema lægri fjárhæð en 21/2% af tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, m.ö.o. að í stað þess, að í öndverðu var lagt til, að ríkissjóður legði að jöfnu við sveitarfélögin, þá er nú lagt til, að framlag ríkissjóðs verði helmingur á móti framlagi sveitarfélaganna.

Þetta er aðalefni frv., að lagt er til. að hið árlega framlag úr Jöfnunarsjóði verði 5% vergum tekjum sjóðsins og árlegt framlag ríkissjóðs eigi lægra en 21/2% af þessum sömu tekjum.

Hið óafturkræfa framlag til sjóðsins hefur af eðlilegum ástæðum ekki náið því, að eigið fé Jöfnunarsjóðs yrði ýkjamikið, en í árslok 1973 mun eigið fé sjóðsins hafa verið rúmlega 183 millj. Ef þetta frv. verður samþ., sem ég vænti, mundi sjóðurinn eflast verulega á næstu árum og fá ólíkt meira bolmagn til að sinna hlutverki sínu. Ráðstöfunarfé sjóðsins á undanförnum árum hefur fyrst og fremst verið lán frá Framkvæmdasjóði, sem Lánasjóður hefur svo endurlánað. Því þarf auðvitað að halda áfram. En ég vil taka það fram að í sambandi við eflingu Byggðasjóðs tel ég, að Lánasjóður sveitarfélaganna ætti að njóta þar nokkurs góðs af. Í málefnasamningi ríkissj. er gert ráð fyrir því. að Byggðasjóður verði efldur og að framlag til sjóðsins nemi 2% af útgjöldum fjárlagafrv. Nú er svo háttað starfsemi Lánasjóðs sveitarfélaga, að hann hefur lánað fé til ýmissa framkvæmda í hinum strjálu byggðum, kauptúnum og sveitarfélögum víðs vegar úti um land, og er það mikilvægur þáttur í jafnvægi í byggð landsins. Á bls. 3 í frv. er rakið, hvað einstakar tegundir framkvæmda hafa fengið af lánsfé, og er þar hæsta upphæðin vatnsveitur, en það eru tæpar 200 millj., sem sjóðurinn hefur frá öndverðu samtals lánað til vatnsveitna. Næsthæsti liðurinn er hitaveitur, tæpar 160 millj. Þriðji liðurinn er gatnagerð og holræsagerð, tæpar 100 millj. Auk þess hefur hann lánað til skóla, sjúkrahúsa og læknisbústaða og ýmislegs fleira.

Þó að Lánasjóðurinn yrði efldur á þann hátt, sem hér er lagt til, þarf hann að sjálfsögðu á miklu fé að halda, sem hann sjálfur tæki að láni til endurlána, og mundi það eins og áður væntanlega koma frá Framkvæmdasjóði. En ég vil varpa því sérstaklega fram, að mjög er eðlilegt og yrði í samræmi við tilgang Byggðasjóðs, að Lánasjóðurinn nyti nokkurs af því fé, sem Byggðasjóður hefði til umráða.

Þetta frv. er einn liður, mikilvægur liður í þeim aðgerðum að reyna að rétta hlut sveitarfélaganna. Í stefnuskrá eða málefnasamningi ríkisstj. er ákveðið, að unnið skuli að því að endurskoða fjárhagslegan grundvöll sveitarfélaganna til þess að tryggja sjálfstæði þeirra og framkvæmdagetu. Ég vænti þess, að þetta frv. fái greiðan gang í gegnum þingið, og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og félmn.