06.11.1974
Neðri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil hér aðeins með örfáum orðum við þessa umr. lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. Ég tel, að frv. miði að réttu marki. Það er mikil þörf á því að efla þann lánasjóð, sem hér um ræðir. Lánasjóður sveitarfélaga þarf að sinna mörgum og stórum verkefnum í stuðningi sínum við sveitarfélögin, og það er orðin brýn þörf á því að auka tekjur sjóðsins fyrir utan þá lánsmöguleika, sem hann hefur á hverjum tíma.

En ég vil strax varpa því fram, hvort ekki komi til mála við þá breytingu, sem nú verður gerð, að gera ráð fyrir því, að framlög til þessa lánasjóðs verði í sömu hlutföllum frá þeim aðilum, sem aðallega leggja sjóðnum fé, og upphaflega var gert ráð fyrir, þ.e.a.s. jafnmikið fastaframlag til sjóðsins frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og frá ríkissjóði. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að hækka að vísu verulega framlagið frá Jöfnunarsjóði og einnig frá ríkissjóði, en þó þannig, að framlag ríkissjóðs verði helmingi lægra en framlagið frá Jöfnunarsjóði. Það getur alltaf leikið á því nokkur vafi, hvað hægt er að leggja, á ríkissjóð, en ég held, að það sé enginn vafi á því, að bein framlög ríkisins í þennan stofnlánasjóð sveitarfélaganna verði, þegar nánar er að gáð, varla talin til mikilla aukaútgjalda fyrir ríkissjóð. Það eru aðeins tvær leiðir til að leysa úr vandamálum sveitarfélaganna í þessum efnum: annars vegar að efla lánasjóð þeirra sem síðan getur aðstoðað sveitarfélögin eftir lánareglum til þess að leysa sín verkefni, en hins vegar, sé það ekki fyrir hendi, er knúið á ríkissjóð með að hækka bein framlög hans til hinna ýmsu framkvæmda, eins og verið hefur á mörgum sviðum, og þannig koma útgjöldin eftir þeirri leið á ríkissjóð. Mér hefði satt að segja ekki fundist of mikið þegar farið er að breyta þessum lögum, að gera ráð fyrir því, miðað við það uppgjör, sem hér er gerð grein fyrir, þó að framlag ríkissjóðs hefði orðið á þessu ári 47 millj. kr. eða jafnhátt og framlag Jöfnunarsjóðs, í staðinn fyrir rúmar 23 millj., sem hér er gert ráð fyrir. Þetta vildi ég, að sú hv. n., sem fær málið til athugunar, íhugaði.

Ég vil aðeins minna á það um leið, að í tíð fyrrv. ríkisstj., vinstri stjórnarinnar svonefndu, voru framlög ríkisins til þessa sjóðs nokkuð hækkuð og sérstaklega var þá gert átak í því að útvega þessum lánasjóði verulega aukið lánsfé, enda byrja fyrst umsvif hans í lánveitingum, senn eitthvað munar um, í tíð þeirrar stjórnar.

Ég tók eftir því, að hæstv. félmrh. minntist á, að það væri yfirlýst stefna núv. ríkisstj. að vinna að því að rétta við fjárhag sveitarfélaga og styðja þau á fjárhagssviðinu. En ég vil benda á, að það er út af fyrir sig ekki mikill fjárstuðningur við sveitarfélögin að ákveða fyrst og fremst hækkun til Lánasjóðs sveitarfélaganna úr þeim sjóði, sem sveitarfélögin eiga sjálf og hafa samkv. lögum til sinna þarfa, en það er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er sjóður sveitarfélaganna og kemur þeim til stuðnings. Þá millifærslu, sem hér er gert ráð fyrir, tel ég vera til bóta, því að ég legg meiri áherslu á að efla í þessu tilfelli Lánasjóð sveitarfélaga en Jöfnunarsjóðinn. Mér er hins vegar ljóst, að þarna er verið að færa fé á milli. Það er verið að taka fé, sem sveitarfélögin eiga, og færa yfir í þennan sjóð. Hækkunin á fastaframlagi ríkissjóðs er beinn aukinn stuðningur, en ég tel, að sá stuðningur hefði mátt vera meiri.

Ég vil aðeins benda á það, að Lánasjóður sveitarfélaga hlýtur nú á næstu árum að verða að sinna í stórauknum mæli lánveitingum til gatnagerðar sveitarfélaganna, sem nú er óðum að hefjast, þar sem sveitarfélögin eru að vinna að því að koma bundnu slitlagi á vegi sina og gera þá þolanlega. Það eru uppi mjög stórar áætlanir í þessum efnum, og hér er um mjög aðkallandi verkefni að ræða. Það er augljóst mál, að eðlilegast væri, að það væri Lánasjóður sveitarfélaga, sem hér gæti aðstoðað sveitarfélögin með lánum. Sömuleiðis er það líka ljóst, að sjóðurinn verður að sinna í auknum mæli þörf sveitarfélaganna varðandi framkvæmdir í sambandi við vatnsveitur. Þar er um mjög fjárfrekar framkvæmdir að ræða í mörgum tilvikum og ekki auðvelt að fá lán til slíkra framkvæmda.

Ég þarf ekki að þessu sinni að ræða um þetta mál frekar. Ég aðeins ítreka það, að ég styð þetta frv., ég tel það miða í rétta átt, en vil gjarnan, að sú n., sem fjallar um málið, athugi, hvort ekki sé rétt, að framlag ríkissjóðs verði ákveðið í sömu hlutföllum við framlag Jöfnunarsjóðs og upphaflega var gert ráð fyrir, þ.e.a.s. jafnhátt, en ekki aðeins að hálfu, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.