11.12.1974
Efri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

95. mál, vegalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal halda mig við þetta frv. sem mest og ekki fara náið út í þær almennu bugleiðingar, sem kannske eiga frekar heima í umr. síðar í vetur, þegar ný vegáætlun sér dagsins ljós. Ég vil þó þakka hæstv. ráðh. fyrir mjög greinargóðar upplýsingar sem hann gaf okkur áðan um ýmsar áætlanir sem framkvæmdar hafa verið á vegum hans rn., og alveg sérstaklega vil ég þakka honum fyrir þær athuganir, sem hann hefur gert í sambandi við vegakafla á hringleiðinni austur, og vona svo sannarlega að þar fylgi fleira á eftir.

Þessi þáttur ríkisútgjaldanna er hvort tveggja mikilsverður í hvívetna svo og fjárfrekur, og þarf þar vissulega margs að gæta. Þar steðja vissulega óvæntir erfiðleikar að þegar bensínverð hefur hækkað svo gífurlega og því erfiðara um vik að sinna þeim tekjustofni sem drýgstur hefur verið til vegaframkvæmda í landinu. Þó var á sumarþinginu bætt þar ríflega við og má þó vera að sumum þyki ekki nóg að gert.

Ég dreg enga dul á það að ég sé ekki eftir hækkun bensínskatts sem rennur beint til vegaframkvæmda sé þar staðið að á þann veg sem ég tel eðlilegast, þ.e. að frumatriði þess máls sé fólgið í sem mestu jafnrétti öllum til handa hvar sem þeir kunna að búa á landinu.

Frv. þetta, sem hér er til umr., tel ég vera til bóta svo langt sem það nær. Aðalspurningin er reyndar eins og fyrrum, eins og ég vék að áðan, um framkvæmd vegamála almennt hér á landi næstu ár, spurningin um það hvort hraðbrautir út frá höfuðborgarsvæðinu verða látnar sitja í fyrirrúmi eða stefnt að bættri samtengingu landshluta og fyrst og fremst, sem ég vildi þó helst af öllu, bætt ástand akvega innan landshlutanna. Það er það verkefni sem mér fyndist að ætti í raun að vera forgangsverkefni Vegagerðar ríkisins því að svo miklu skiptir þetta verkefni samgöngurnar innan hvers landshluta um alla þróun okkar byggðamála. Úr þessu fæst skorið með næstu vegáætlun, en ég óttast þó að hraðbrautirnar verði þar of frekar til fjárins. Það sýndi a.m.k. vegáætlun lögð fram í vor í heldur ríkum mæli. Það má vera að önnur fjáröflun leysi þessi hraðbrautarmál eða lagningu bundins slitlags á þjóðvegina svo sem frv. hefur komið fram um, — frv. sem hæstv. ráðh. vék að og kom fram í hv. Nd., sem snýr enn aðeins að annarri hlið þess máls því að ekki þarf siður áfram að halda austur á bóginn, halda áfram hringvegarframkvæmd þeirri sem enn er aðeins rúmlega hálfnað verk. Verði út í þessa fjáröflun farið af fullum krafti þá þarf vitanlega að hvoru tveggja að huga og verður vonandi gert og ég fagna mjög orðum hæstv. ráðh. þar að lútandi, einkum hvað snertir veginn austur á bóginn.

Það kom mjög skýrt fram í máli hans að hann yrði ekki látinn sitja á hakanum ef af þessari fjáröflun yrði. En verði þarna rösklega að staðið ætti það um leið að létta vanda Vegasjóðs sjálfs vegna hraðbrauta út frá Reykjavík og meira ætti þá að koma til annarra verkefna, þ.e. þeirra verkefna sem ég álít brýnust varðandi almenn vegamál. Samtenging einstakra byggðarlaga innbyrðis er slík lífsnauðsyn að fátt veit ég betri stuðning við bætta möguleika íbúanna til samskipta af hvers konar tagi þjónustulega séð, öryggisins vegna svo og allra menningarlegra samskipta. Það er því ekki vegna neinnar andúðar við góðar hraðbrautir út frá höfuðborgarsvæðinu sem ég legg slíka áherslu á þetta forgangsverkefni. Þörfin er aðeins svo brýn og aðkallandi annars staðar, að gera vegina úti á landsbyggðinni nokkurn veginn akfæra mestan hluta ársins a.m.k. að þeir vekir verða að ganga fyrir úthlutun hins almenna vegafjár og eru þó tveir þættir þar enn ótaldir, sem ég hef lagt sérstaka áherslu á og með tillöguflutningi á Alþ. vikið að alveg sérstaklega og bent á ákveðnar leiðir. Þetta frv. kemur einmitt inn á vissa hluta þessarar till., í sumu þó ekki á þann veg kannske sem skyldi og í öðru vitanlega ekki. Ég tek dæmi um viðunandi lausn samkv. 9. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að íbúamörk þeirra staða, sem þéttbýlisvegafjár njóta, færist úr 300 í 200, þótt ég hafi nú á síðustu tímum hallast að því að hér um gildi öll þéttbýlismyndun, allir þéttbýlisstaðir, því að íbúaaukning þeirra sumra hverra, þótt smáir séu í byrjun, kallar fljótt á víss verkefni, sem sinna þarf, og þá vaknar sú spurning hvort ekki eigi að gera það frá upphafi þéttbýlismyndunar á hverjum stað eftir að hún er kominn upp yfir vissa tölu, sem gæti þá allt eins miðast við 50 jafnvel eða 100. En ég fagna sem sagt þessari leiðréttingu, hún er vissulega til bóta.

Algert sérvandamál, sem ég sé ekki beina lausn á í þessu frv. þó að það komi vitanlega þar inn í óbeint, eru þjóðvegirnir sem liggja eftir endilöngum kauptúnum og kaupstöðum landsins eða að miklum hluta. Ég hef margbent á það að hér þurfi til að koma alveg sérstök fjárveiting eða ráðstöfun fjár í þessu skyni auk þéttbýlisvegafjárins. Þetta er einkanlega orðið aðkallandi nú, þegar hin ýmsu sveitarfélög una ekki lengur við malar- og moldargötur sinar, heldur leggja á göturnar bundið slitlag. Þetta er nefnilega verkefni sem er svo gerólíkt að umfangi og kostnaði að engin samlíking kemst að miðað við fyrra ástand þessara vega. Einmitt þetta hlýtur að kalla á sérstaka fjáröflun til viðbótar, — hreinlega til víðbótar við núverandi fjáröflunarkerfi Vegasjóðs. Ríkisvaldið getur ekki lagt þessa byrði á sveitarfélögin á sama hátt og áður þegar verkefnið var allt annað og smærra í sniðum. Ég verð sem sagt að vona og vil trúa því að 11. gr. frv. snerti ekki þetta sérstaka mál neitt, sé ekki fyrst og fremst hugsuð varðandi þessa þjóðvegi í sambandi við gegnumaksturinn um kauptúnin, heldur sé hér um að ræða verkefni svo sem einmitt segir greinilega í grg. með frv. Ég álít að þessu verkefni eigi að sinna sérstaklega og ég treysti því að viðkomandi þm. svo og hæstv. ríkisstj. sjái til þess að þar verði séð fyrir sérstakri fjárveitingu, því að ég álít og miða þar við reynslu frá mínum heimastað að ríkið verði hér að taka á sig hlut umfram þéttbýlisvegaféð og utan þess jafnvel sem almennt vegafé gefur til annarra vegaframkvæmda.

11. gr. frv. er sú gr., sem ég hef helst staldrað við og er að því er ég vil skilja hana mjög til bóta, en þó hefði ég kosið vegna fyrri reynslu að ákvæði gr. sjálfrar hefði verið ótvíræðara og meira í samræmi við þá grg. sem frv. fylgir eða aths. við frv. Reynslan að þeim 10% af þéttbýlisvegafé, sem hingað til hefur verið haldið sérstaklega eftir, er a.m.k. ekki góð fyrir landsbyggðina og hefur raunar farið í örfáar stórframkvæmdir, nauðsynlegar skulum við segja. Þessi reynsla, ég vil segja vandræðasaga þessa 10% gjalds, er einmitt undirstrikuð í grg. eða aths. með frv. Nú þegar lögð er til hækkun þessa sérstaka gjalds, sem eftir er, haldið upp í 25%, þá er að vísu bætt þar inn í að fenginni umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, sem er vissulega til bóta, en að öðru leyti sýnist mér sama orðalag gilda og hefur verið notað beinlínis til rökstuðnings því, eins og í grg. segir, að þetta fé hefur verið notað í því skyni einu að binda við tvær aðalframkvæmdir, við Hafnarfjarðarveginn í Kópavog og í Suðurlandsveginn á Selfossi. „En gert er ráð fyrir frekari dreifingu fjár þessa,“ segir með mjög svo hógværu orðalagi í niðurlagi grg. eða aths. með 11. gr. Hins vegar segir fyrr í grg. eða aths. um 11. gr., með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að árlega skuli halda eftir 25% af heildarframlagi því, sem veitt er til lagningar þjóðvega í kaupstögum og kauptúnum, í stað 10% svo sem nú er. Er þetta lagt til til þess að auðvelda fámennum kaupstöðum og kauptúnum að flýta gerð þéttbýlisvega með bundnu slitlagi skv. 30. gr.

Það er mín skoðun vegna fyrri reynslu að þetta ákvæði, sem þarna er mjög skýrt og ákveðið og ágætt, hefði í raun þurft að standa í sjálfri frvgr. svo að ekkert færi þar á milli mála og raunar miðast beinlínis við vegina almennt á þessum stöðum, að það séu ekki bara þjóðvegirnir heldur gatnagerðin á þessum stöðum yfirleitt. Ég sem sagt vona að þm. geti fært þetta til betri vegar því að ég neita því ekki að að öðrum kosti óttast ég að framkvæmdin verði svipuð eða gangi a.m.k. eitthvað í sömu átt og verið hefur. Byggðanefnd Alþ. hefur mjög um þetta fjallað og þar hefur það ítrekað komið fram og að ég held einróma að þessi prósenta þyrfti að vera hvort tveggja hærri og eins að hún kæmi sveitarfélögum þeim, sem nú standa í stórframkvæmdum, mest byrjunarframkvæmdum í lagningu bundins slitlags á vegi sína, fyrst og fremst til góða, eins og grg. eða aths. með 11. gr. víkur mjög glögglega að og ég tel fullkomlega rétta. Ég hefði sem sagt viljað fá hér um skýrari ákvæði og ég hef að vísu einnig uppi um það eindregnar óskir að þetta framlag yrði fært upp í a.m.k. 35% ef séð verður til þess að ákvæðin standi sem nánast þessu sem þarna segir, til þess að auðvelda fámennum kauptúnum og kaupstöðum að flýta gerð þéttbýlisvega með bundnu slitlagi.

Ég skal ekki fara að endurtaka það sem ég hef áður sagt um þessi mál hér á Alþ. frekar en ég hef nú þegar gert. Hins vegar veit ég að hér þarf til alveg sérstakt átak, alveg sérstaka aðstoð. E.t.v. færir efling Lánasjóðs sveitarfélaga okkur þar nokkuð í áttina, ég reikna heldur með því. E.t.v. fær Byggðasjóður þarna viðbótarverkefni einnig, það kann vel að vera, að með eflingu hans fari hann að taka einhvern þátt í þessu, t.d. varðandi sveitarfélögin. En fleiri leiða þarf eflaust að leita svo að sveitarfélögin fái sinnt verkefninu með fullum sóma og án þess að skapa sér óviðráðanlegrar byrðar.

Til viðbótar þessu get ég lýst fullum stuðningi við breytingarnar varðandi vegi að sjúkraflugvöllum svo og breytingu á sýsluvegum og einnig þá um leið nauðsynlegri hækkun framlaga til þeirra. Hinu er svo ekki að neita, að kaupstaðirnir sleppa þarna of vel miðað við ýmis sveitarfélög sem þeim eru svipuð að stærð og legu, en það er reyndar önnur og meiri saga. Jafnvel eru til um það dæmi að sveitarfélög hafi sótt um kaupstaðarréttindi til kannske ekki annars meira en að losna við sýsluvegagjöldin. Ég skal hins vegar játa það, að ég er ekki eins hrifinn af hugmyndinni í 5. gr. um að heimila að styrkja af fé sýsluvegasjóðs lagningu og viðhald vega að sumarbústaðahverfum, þó að samkomulag náist um mótframlag af hálfu eigenda um afnot vegarins. Ég álít að sýsluvegasjóður hafi næg verkefni, þrátt fyrir að þarna komi til aukning fjár til hans, þó að þessu verði ekki bætt inn. Út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því að það fólk, sem hefur efni á því að byggja sér sumarbústað og jafnvel heilar hallir í þessu efni, komist þangað nokkurn veginn klakklaust, en ég held að það eigi þá að bera þann kostnað sjálft, ef það þarf að fara það mikið út úr vegakerfinu að það sé nauðsynlegt. Að öðru leyti biðum við þm. vitanlega vegáætlunarinnar nýju með nokkurri óþreyju, enda gefst þá vitanlega betra tækifæri til umræðna um málið almennt og einnig með tilliti til hinna ýmsu verkþátta vegamála í landinu.