11.12.1974
Efri deild: 19. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

95. mál, vegalög

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil eins og annar ræðumaður, sem hér hefur komið, bera fram þakklæti mitt til hæstv. samgrh. fyrir þá ítarlegu grg. og skýringar sem hann hefur gefið okkur þm. í sambandi við það frv. sem hér er til umr. Þær voru vissulega fróðlegar og athyglisverðar allar þær upplýsingar og sú heildaryfirsýn sem maður fékk við að hlusta á ræðu ráðh. Þegar rætt er um vegamálin og nauðsyn á lagningu varanlegs slitlags á vegi landsins kemur ofarlega í huga manna — ekki síst okkar sem teljum okkur vera fulltrúa dreifbýlisins, að ævinlega þegar talað er við þá aðila, sem þar eru búsettir, þá finnur maður að efst á óskalista allra þeirra, sem búa fjærst þéttbýlinu, eru framkvæmdir um bættar samgöngur. Þess vegna vek ég athygli á því til að mynda hvernig komið er málum í austurhluta Norður-Þingeyjarsýslu, að þar er ákaflega margt vangert og mjög nauðsynlegt að fljótlega verði tekið til alvarlegrar athugunar að bæta úr þeim miklu vanköntum sem eru til að mynda á vegasambandinu milli þorpanna við Þistilfjörð, Þórshafnar, Raufarhafnar og Kópaskers, því að eins og ég sagði fyrr: frumskilyrði þess að hægt sé yfirleitt að halda við byggð í dreifbýlinu eru bættar samgöngur. Ef hægt er að fullnægja óskum fólksins sem býr þar um það veigamikla atriði, þá held ég að mönnum komi almennt saman um að það séu margvíslegir kostir sem fylgja því einmitt að vera búsettur í dreifbýli, sem gætu vegið upp á móti því sem við köllum gæði þess að búa í þéttbýlinu.

Ég vil því leggja mikla áherslu á það að við afgreiðslu þessa frv. verði tekið til mjög gaumgæfilegrar athugunar að reyna eftir föngum að veita meira fjármagn til þess að bæta úr hinum miklu vandkvæðum sem þetta fólk á við að etja. Ég get vel fallist á þær skoðanir, sem hér hafa komið fram, um það jafnvel að breyta einhverju í sambandi við hlutfallaskiptingu af svokölluðu þéttbýlisfé.

Eins og kom fram í ræðu ráðh. er hér um gífurlega mikla upphæð að ræða sem það kostar að vega, ef svo mætti að orði komast, hið strjálbýla en víðfema land okkar. E.t.v. má segja og það af nokkurri sanngirni, að það sé líka kraftaverk hvað okkur hefur tekist að gera í vegamálum við jafnerfið skilyrði og við að mörgu leyti eigum við að etja sem byggjum þetta land.

Ráðh. kom inn á fjármögnunarleiðina og eins og oft áður í því sambandi verður maður var við, þegar rætt er um að fjármagna framkvæmdir í þessu þjóðfélagi, að þá er ráðamönnum mjög tamt að stöðvast við þá hugmynd að bjóða út svokölluð verðtryggð skuldabréf eða happdrættisbréfalán. Ég get tekið undir þau aðvörunarorð sem hv. 12. þm. Reykv. flutti hér áðan, að í sambandi við þessa tilhögun um útvegun fjármagns bæði til vegaframkvæmda og annarra framkvæmda í þessu þjóðfélagi, þá er það skoðun mín, að við séum komin nú þegar svo langt, að það nálgist hættusviðið í þeim málum, að nota þann hátt við fjármagnsútvegun sem hefur verið að bjóða út lán með þessum kjörum að lánin séu verðtryggð.

Ég hef einhvern tíma áður gert grein fyrir þeirri skoðun minni að fólgin sé stórkostleg hætta fyrir allt fjármálakerfi þjóðarinnar í þeirri stefnu sem fengið hefur að ráða og hefur verið allt of mikilsráðandi í sambandi við fjármunaöflun til framkvæmda í þessu þjóðfélagi, einhliða heimild hins opinbera til þess að verðtryggja skuldbindingar. Eins og kom greinilega fram í ræðu hv. 12. þm. Reykv. erum við á þennan hátt að keppa í of ríkum mæli um hið takmarkaða sparifé landsmanna sem á að standa undir öllum venjulegum rekstri og framkvæmdum og er fyllsta ástæða til þess að hafa hér gát á. Eins og hann benti á er svo komið að þessi fjármögnunarleið hefur að mínum dómi verið ofnýtt og er algjört ábyrgðarleysi ef nú er ekki stungið við fótum og þessi mál athuguð gaumgæfilega alveg niður í kjölinn. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það verður ekki lengur haldið áfram á þeirri braut að ríkið, einn aðili í þessu þjóðfélagi, geti notað þá aðstöðu að sitja sem einn aðili að þeim markaði að bjóða út verðtryggð skuldabréf, enda er svo komið, eins og bent hefur verið á, að þetta er eins og að lenda í höndum á verstu okurklóm.

Þau mál eru ekki til umr. núna og vonandi gefst tækifæri til að ræða þau á öðrum vettvangi. En ég vil aðeins lýsa þeirri skoðun minni hér, að ég er ekki í nokkrum vafa um að almenn fjárhagsmál þjóðarinnar verða ekki leyst nema með því að opna hér almennan verðbréfamarkað í þjóðfélaginu þar sem við fjármögnun, hvort heldur er til almennra eða opinberra framkvæmda, verði greitt fyrir fjármagnið eins og það kostar á hverjum tíma og framboð og eftirspurn ein látin ráða.

Ég vil svo að öðru leyti lýsa stuðningi mínum við frv. og endurtek þakklæti mitt fyrir þá greinargóðu ræðu sem hæstv. samgrh. flutti í sambandi við þetta mál. Ég vona að þegar málið fær afgreiðslu verði tekið til gaumgæfilegrar athugunar að reyna að hafa það sjónarmið fyrir augum að bæta úr þeim vandkvæðum sem dreifbýlið á við að búa í sambandi við samgöngumál almennt.