11.12.1974
Neðri deild: 18. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

93. mál, iðnfræðsla

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Frv. það til l. um breyt. á l. nr. 68 frá 11. maí 1966, um iðnfræðslu, sem er á þskj. 103, gerir ráð fyrir breytingu á 12. gr. núgildandi l. um iðnfræðslu. Þetta frv. má segja að geri í meginatriðum ráð fyrir tveimur breytingum að því er varðar núgildandi lög. Í fyrsta lagi er ákveðið í núgildandi l. að aðeins einn iðnskóli skuli vera í hverju skólaumdæmi. Hér er lagt til að það, sem er hámarkstala í núgildandi l. að því er varðar iðnskóla í hverju skólaumdæmi, verði lágmarkstala framvegis. Í öðru lagi er hér um að ræða breytingu í þá átt að gera Barðastrandarsýslur að sérstöku skólaumdæmi.

Það er megintilgangur með flutningi þessa frv. að opna leið til, með þessum tveim breytingum á núgildandi iðnfræðslulögum, sem hér eru lagðar til, er geri kleift að reka áfram þann iðnskóla sem rekinn hefur verið á Patreksfirði í rösk 30 ár. Iðnaðarmannafélagið á Patreksfirði stofnaði iðnskóla þar í jan. 1942 og starfar sá skóli enn. Fram til ársins 1972 höfðu 137 nemendur innritast í skólann en 91 hafði lokið prófi. Margir þeirra, sem þarna um ræðir, hafa haldið áfram námi, þ.e.a.s. þeir sem ekki luku prófi á Patreksfirði. Skóli þessi, sem starfræktur hefur verið þetta lengi, hefur ekki notið neinnar fyrirgreiðslu að því er ég best veit úr ríkissjóði og hefur búið alla tíð við allþröngan kost, þótt ekki sé meira sagt, að því er varðar skólahúsnæði og allan aðbúnað. Þessi þrönga aðstaða hefur að sjálfu sér leitt til takmörkunar á nemendafjölda en innritunarár á þessu tímabili hafa aðeins verið 13. Skólinn hefur samt sem áður getað sinnt að mestu leyti þörfum þorpsins fyrir iðnfræðslu, þótt sumir hafi þó orðið að leita annað.

Eins og ég gat um áðan munu þeir, sem annað hafa leitað, undantekningarlítið eða undantekningarlaust hafa leitað hingað til Reykjavíkur til náms. Ég held að það liggi ljóst fyrir að ef ekki verður hér á breyting frá því sem nú er, á þann hátt að Iðnskólinn á Patreksfirði verði viðurkenndur af hálfu ríkisins, þá sé hætta á því á næstunni, vegna fjárhagslegra erfiðleika og slæmrar aðstöðu, að þessi skóli leggist niður. En með samþykkt þess frv., sem hér um ræðir, skapast grundvöllur til að efla þennan iðnskóla á Patreksfirði svo að iðnnemar á sunnanverðum Vestfjörðum neyðist ekki í framtíðinni til þess að leita til Reykjavíkur með iðnnám sitt.

Það er vonandi öllum hv. þdm. ljóst, ef þeir kynna sér þetta mál, að mikill áhugi hefur verið af hálfu heimamanna á því að skapa þann grundvöll sem til þarf til þess að festa örugglega í sessi til framtíðar þetta skólasetur þeirra Barðstrendinga. Bæði almenningur, sveitarfélagið og sýslunefndir svo og Fjórðungssamband Vestfjarða hafa gert ályktanir um þetta mál og allar fara þær í þá átt að óska þess eindregið að gerð verði breyting á iðnfræðslulögum til þess að þetta megi verða.

Það þarf ekki að taka það fram að nú að undanförnu hefur mikið verið rætt og ritað um aukna verkmenntun í skólakerfi hér á landi. Ég held að m.a. sé það, sem hér er lagt til, eitt af þeim atriðum sem styrki þá viðleitni sem uppi hefur verið til að auka verkmenntun í landinn og það sé því einn þáttur til þess að bæta þá viðleitni. Ég held líka að svo langur starfstími sem hér um ræðir hjá Iðnskóla Patreksfjarðar hljóti að hafa sannað þá nauðsyn sem á því er að slíkt skólasetur sé starfrækt á þessum slóðum.

Ég ætla svo ekki á þessu stigi máls að hafa um þetta öllu fleiri orð, en ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.