06.11.1974
Neðri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af þeirri umr., sem hér hefur farið fram um þetta mál, þykir mér rétt að geta þess að á þeim árum, sem ég var fjmrh., var þetta sú stofnun, sem lét mig mest í friði um það að auka við framlög til sjóðsins. Þegar ég tók við fjmrh.-embættinu, var um að ræða 41/2 millj., sem ríkissjóður greiddi til hans. Ég hækkaði það við ákvörðun á undirbúningi fjárl. upp í 7 millj. á því ári, og ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma fengið beiðni um að hækka fjárveitingu til Lánasjóðs sveitarfélaga. Við undirbúning frv. til fjárl. fyrir áríð 1974 var þetta svo hækkað um 1 millj., og mátti með sanni segja, að það væri gert alveg fríhendis, því að óskir lágu ekki fyrir um það.

Ég hef ekki heyrt um það fyrr en nú, að fyrrv. ríkisstj. hafi verið beðin að flytja frv. af þessari gerð, sem mér hefði ekki fundist neitt. óeðlilegt, þótt fram hefði komið, því að það var öllum ljóst, að sú lánastarfsemi, sem var hjá Lánasjóði sveitarfélaga, fór árvaxandi, vegna þess að kröfur til Lánasjóðsins uxu eins og annarra lánasjóða vegna framkvæmda, sem hafa orðið hjá sveitarfélögunum á síðari árum. Það varð á því gerbreyting og heldur áfram. Þess vegna var þessum lánasjóði sem öðrum stofnlánasjóðum mikil nauðsyn að reyna að auka eigið fé til lánastarfseminnar, og ég styð því að því, að þetta mál nái fram að ganga, enda var einróma samþ. í ríkisstj., að það yrði lagt fram.

Á sínum tíma, þegar I.ánasjóður sveitarfélaga var stofnaður, lýsti ég stuðningi mínum við hann og mælti, að mig minnir, þakkarorð til þess hæstv. ráðh., sem þá beitti sér fyrir og hafði þá sem nú góðan skilning á málefnum sveitarfélaga, eins og ég hélt mig hafa, þegar ég létti af þeim útgjöldum til almannatrygginga, sjúkrasamlaga og lögreglukostnaðar. Held ég, að þetta allt hafi gert það að verkum, að sveitarfélögin hafa verið meiri framkvæmdaraðili í sínum byggðarlögum á síðari árum en áður hefur verið, vegna þess að lögboðin gjöld þeirra tóku mestallar tekjur þeirra.

Það er ljóst, að sveitarfélög eins og fleiri framkvæmdaaðila skortir fé til framkvæmda nú. Það eru margir, sem skortir fé til framkvæmda, og má segja eins og sagt er um ríkisvaldið og fleiri, að framkvæmdagleði er mikil, enda er mikið á það sótt.

Það er óhugsandi í raun og veru í þéttbýlisstöðum, þorpum, kauptúnum og kaupstöðum, að búa við þær götur, sem þar hafa verið, forugar og rykugar, svo að menn hafa varla getað farið í sæmilegum fötum um þær. Þetta er að breytast og getur ekki annað en breyst. Það verður að vera sæmilega að gatnagerðarkerfinu búið í þéttbýli, svo að hægt sé að búa þar. Eina þáttur í því er það, sem er í frv. til vegal., sem var lagt fram í fyrravetur og verður endurflutt nú með lítils háttar breytingu, um það að styðja meira að gatnagerð í kaupstöðum og kauptúnum en áður hefur veríð gert. Ég álít, að það beri brýna nauðsyn til þess, og það er sami þáttur þar á ferðinni og er í þessu frv.