12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta var mikill og merkilegur lestur sem hv. þm. viðhafði hér áðan, en í l. um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi segir:

„Ráðh. getur veitt undanþágu til þess að stunda rækjuveiðar á tilteknum svæðum. Skal binda leyfin þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja. Einnig er heimilt að miða leyfisveitingar við ákveðnar stærðir báta.“

Í auglýsingu sjútvn., þar sem auglýst er eftir umsóknum um rækjuveiðileyfi á Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og Húnaflóa, segir:

„Rækjuveiðar á Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og Húnaflóa munu hefjast 1. okt. n.k. Veiðileyfi verða sem fyrr bundin þeim skilyrðum að veiðileyfishafi og eigandi báts hafi verið búsettur á viðkomandi svæði í a.m.k. eitt ár og báturinn sé þar skráður. Auk þess kann rn. að setja sérstakar reglur um stærðarmörk báta eða aðrar reglur sem horfa til takmörkunar á bátafjölda ef ástæða þykir til.“

Síðan segir að umsóknir skuli hafa borist fyrir tiltekinn tíma o.s.frv.

Það hefur verið gerður mikill úlfaþytur út af verksmiðju sem hefur verið reist á Blönduósi nýlega og sérstaklega í sambandi við veiðileyfi til tveggja báta frá Blönduósi sem sjútvrn. hefur gefið út. Ég ætla að lofa hv. alþm. að heyra þessi skilyrði í því bréfi sem skipstjóri annars þessa báts fékk með sínu leyfi, en hitt leyfið er samhljóða. Það er á þessa leið:

„Með tilvísun til 10. gr. 1. nr. 102 27. des. 1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi, vill rn. leyfa Kára Snorrasyni skipstjóra á mb. Aðalbjörgu HU 25 að láta stunda rækjuveiðar með venjulegri rækjuvörpu á Húnaflóa. Leyfi þetta gildir frá 15. okt. 1974 til 30. apríl 1975 með þeim skilyrðum og takmörkunum sem greint er frá í bréfi þessu.

1. Telji rn. áframhaldandi veiðar óæskilegar vegna ástands rækjustofnsins eða annarra ástæðna, fellur leyfið úr gildi er ráðh. hefur tilkynnt stöðvun veiðanna. Auk þess skal reikna með að leyfisbréf þetta verði afturkallað þegar samanlagður afli þeirra báta, sem leggja upp rækjuafla til vinnslu á Hvammstanga, hefur numið 250 smálestum.

2. Fiskifélagi Íslands skal send skýrsla hálfsmánaðarlega um veiðarnar á eyðublöðum, sem Fiskifélagið leggur til, útfylltum eins og mælt er fyrir á þeim hvern veiðidag.

3. Í einu kg af vetrarrækju mega eigi vera fleiri en 300 stykki.

4. Möskvastærð rækjuvörpu skal hvergi vera minni en 36 mm miðað við blautt efni, sbr. 1. gr. og bráðabirgðaákvæði í reglugerð nr. 104 16. maí 1974, um möskvastærðir botnvörpu og flotvörpu og um lágmarksstærðir fisktegunda.

5. Leyfið miðast við að rækjuafli bátsins verði verði unninn til manneldis í viðurkenndri rækjuvinnslustöð á veiðisvæðinu.“ — Þessu bið ég hv. þm. að taka eftir.

„6. Leyfishafi skal gefa eftirlitsmönnum rn. sannar og réttar upplýsingar um aflamagn í hverri veiðiferð.

7. Leyfishafi skal hlíta reglum sem forráðamenn rækjuvinnslustöðva og rækjuveiðinefnd koma sér saman um, svo og lögum og reglum sem settar kunna að verða um meðferð og vinnslu rækju og hámarksstærð hennar.

8. Brot á ákvæðum veiðileyfis þessa og sérhver misnotkun á því að dómi rn. varðar sviptingu leyfisins um tiltekinn tíma eða missi þess eftir ákvörðun rn. Leyfisbréf þetta geymist um borð í bátnum.“

Svo mörg eru þau orð. Þessum ákvæðum hefur ekki verið breytt á einn eða annan veg frá því sem hefur tíðkast í sjútvrn. í fjöldamörg ár bæði hjá ráðh. sjávarútvegsmála úr Alþfl., ráðh. Alþb. og af mér. En ég leyfði mér að setja í leyfið — eða rn.: „frá viðurkenndri vinnslustöð“. Á því tímabili, sem þetta bréf er gefið út, er engin viðurkennd vinnslustöð á Blönduósi, og ef þetta er brot á stjórnarskránni, þá verður að taka því, þá leita þessir menn réttar síns. Svo hafa þessir ágætu menn sent rn. skaðabótakröfu upp á tæpar 15 millj. fyrir það að rn. hafi bannað þeim að byggja rækjuvinnslustöð á Blönduósi, og þeir koma með þessa kröfu 10 mínútum fyrir 5 á föstudegi og og vilja fá svar á mánudegi. Ég var ekkert að flýta mér að svara þessu. Ég veit ekki, hvað þeir meina, þessir herrar og talsmenn þeirra, sem mér skilst að séu komnir inn á Alþ. með þessa kröfu. Svo fara þeir og byggja rækjuverksmiðju á eftir og eru byrjaðir að vinna rækju og segja svo að ég, þessi vondi sjútvrh., sé margfalt verri en Lúðvík, hann sé eini frambærilegi fulltrúi einkaframtaksins og frelsisins, — ég hafi neitað. Hvar standa þessir menn? Svo eru skrifaðar hér dag eftir dag í blöð æsifregnir og æsigreinar, á sama tíma og það, sem ég er að gera, er það sem Lúðvík gerði ekki og ekki heldur Eggert G. Þorsteinsson. Ég vil fá samræmingu á veiðum sem eru háðar leyfum og fá til þess lagaheimild að koma einhverju skipulagi á að það fari saman, veiðar og vinnsla. Þessi lagaheimild er ekki fyrir hendi. Þess vegna er þessi Blönduósverksmiðja komin upp. Þess vegna eru þeir að vinna rækju. En þær gera ekki hlutina einfaldari, yfirlýsingar forsvarsmanna þessarar verksmiðju sem lýsa því yfir að þeir ætli ekki að hlíta neinum reglum. Þeir ætla að veiða þegar aðrir bátar hætta núna í des. — eins og bátar á öllum þessum svæðum gera — og þeir ætla sennilega að veiða líka á jólunum, eftir því sem blöðin segja.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég ætla að fylgja því mjög strangt eftir að einn eða tveir bátar haldi ekki áfram veiðum á tilteknum svæðum. Hér hefur öll þessi ár, — það geta fyrirrennarar mínir í embætti sjútvrh. borið um, — alltaf náðst samkomulag á veiðistöðvunum um að veiðar skuli lagðar niður á ákveðnu tímabili og hafnar aftur með samkomulagi á milli þessara aðila og sjútvrn. Ég ætla að nota mér heimild, á meðan hún er ekki tekin úr þessum lögum, til að stöðva menn sem ætla að halda áfram og vera einir og sér og halda að þeir séu einir í heiminum. Ég ætla að stöðva þær veiðar og láta þá sitja við það sama og aðra sem hafa stundað þessar veiðar og byggt lífsafkomu sinna kauptúna á þessum veiðum í fjölmörg ár.