12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Að vísu má segja að það sé til lítils að standa upp og ræða þetta hitamál á svo skömmum tíma sem veittur er og tek ég undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um það atriði. Þó vil ég freista að koma hér að tveimur atriðum.

Í fyrsta lagi vil ég mótmæla þeim skilningi hv. fyrirspyrjanda að heimild sjútvrh. sé bundin við það eitt sem varðar fiskstofnana í sjónum. Við sátum báðir í þeirri n. sem undirbjó þetta frv., og ég hygg að hann muni minnast þess að ég vildi gjarnan koma þá að ákvæði um byggðasjónarmið, en það fékkst ekki. En ég varð aldrei var við það að því sjónarmiði mínu væri hins vegar mótmælt. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstj. beri, þegar hún veitir slíkt leyfi, að taka til greina öll þau mál sem hana varðar og varða landsmenn. Og ég tel að byggðasjónarmiðin séu þar ákaflega mikilvæg, það er viðurkennt mál. Og það er staðreynd að á þessu svæði eru byggðasjónarmiðin ákaflega mikilvæg.

Ég vil vekja athygli á því að atvinnulíf í Strandasýslu hefur bókstaflega byggst á því að strandamenn hafa lengi einir haldið uppi rækjuveiðum þegar þorskurinn hvarf af Húnaflóasvæðinu. Og ég vil einnig vekja athygli á því að á Skagaströnd hefur atvinnulíf verið endurreist með því að koma þar á rækjuvinnslu. Ég vil einnig vekja athygli á því að á þessu svæði eru 5 afkastamiklar vélar sem geta afkastað samtals um 4000 tonnum, en heimild er til að veiða þar 2300 lestir. Ég held að það sé óumdeilanlegt ef þarna bætast við tvær vélar í viðbót, að slíkt leiði aðeins til þess að þrýstingur verður vaxandi í þá átt að fleiri bátum verði hleypt inn á svæðið og getur ekki leitt til annars en að þarna verður hrun á rækjuveiðum á svipaðan máta og varð á Ísafjarðardjúpi og ég get ekki rakið hér.

Ég vil einnig vekja athygli á því að fiskifræðingar hafa fullyrt að rækjuveiðar á Húnaflóa séu núna í hámarki og komnar að hættumörkum og það megi ekkert út af bera. Ég tel það skyldu framkvæmdavaldsins við leyfisveitingar að taka tillit til þessarar mikilvægu staðreyndar. Ég fyrir mitt leyti mun ekki una við neitt annað.

Ég lýsi furðu minni á því sem fram kom hjá hv. 8. landsk. þm. áðan í þessu máli í sambandi við Árneshreppinn. Hann fullyrti að þar væri verið að tvöfalda vélakost. Mér er ekki kunnugt um það. Þar hefur aldrei verið rækjupillunarvél áður. Hins vegar hefur í Árneshreppi verið unnin rækja langan tíma með handpillun sem er varla eða ekki leyfð lengur. Þar er verið að setja upp eina litla danska vél til þess að halda því fólki við sem enn þá er á Djúpuvík. Þar er ekki um annað að ræða. Þar hefur verið gerður út bátur á rækju. Ég vildi gjarnan fá að vita hvort hann litur það einhverjum öfundaraugum.

Ég vil bæta því við að lokum að mér finnst satt að segja ástæða til að vara við því þegar fjármálamenn úr Reykjavík fara út á land til að ávaxta sína peninga á þann máta sem hér er um að ræða.