12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti: Á þessu stigi málsins snýst deilan um rækjuveiðarnar á Húnaflóa um þá ákvörðun hæstv. ráðh., hvort banna eigi vinnslustöðina á Blönduósi. Auðvitað er það mjög slæmt að til slíkra takmarkana þurfi að koma, að umsvif manna séu takmörkuð með þessum hætti, og ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að vera mjög sterk rök til þess að setja slíkar takmarkanir. Ráðh. hefur sett fram sín sjónarmið og það verður auðvitað að meta undir þessum kringumstæðum eins og öðrum, hvort þetta eigi rétt á sér eða ekki. Hins vegar vek ég athygli á því, að það er auðvitað mjög algengt og ekkert nýtt, hvorki af hálfu ráðh. Sjálfstfl. né annarra, að það séu lagðar fram ýmsar reglugerðir sem fela í sér takmarkanir á umsvifum einstaklinga í atvinnurekstri og öðru, og þurfa þm. ekki að undra sig á slíkum reglugerðum.

Ráðh. hefur bætt inn í reglugerðina ákvæði þar sem segir að það skuli vera til staðar viðurkenndar vinnslustöðvar. Deilan snýst um það, hvort hann hafi lagastoð til þess að setja slíkt ákvæði inn í reglugerðina. Á það verður að sjálfsögðu að reyna — sjálfsagt hjá dómstólum — hvort slíkt reglugerðarákvæði stenst, og mun ég ekki blanda mér inn í þær deilur frekar hér.

En ég stend upp vegna þess að hv. 1. landsk. vakti athygli þm. á raunverulegum orsökum þessa vandamáls. Orsök þessa vandamáls er sú, að norður á miðin í Húnaflóa sækja sjómenn sem ekki hafa aðstöðu til þess að sækja mið á sínum heimastöðvum. Og þar á ég við að þarna er um að ræða, svo sem er á allra vitorði, báta sem gerðir hafa verið út hér sunnanlands, en nú hafa sótt á miðin í Húnaflóa. Þessir bátar sækja á önnur mið vegna þeirrar staðreyndar að þeirra heimamið eru lokuð núna. Faxaflóinn er lokaður fyrir þeim sem gerðir eru út á þessu svæði. Nú er svo komið fyrir mönnum, sem gera út þessa báta og eiga þá, að þeir geta ekki gert út á heimamið. Þeir geta ekki heldur selt sína báta vegna þess að þeir eru ekki gjaldgengir annars staðar vegna þeirra reglugerðarákvæða sem um það gilda og banna það að menn veiði eða geri út báta, nema þeir séu búnir að vera á skrá þar um tiltekinn tíma.

Ég vil ítreka þetta sjónarmið. Orsök þessa vandamáls er þessi fyrst og fremst að það er ekki búið að bátum hér sunnanlands, hér við Faxaflóann, sem skyldi. Ég skora á þingheim að taka það mál til rækilegrar athugunar og reyna að leysa þennan vanda Faxaflóabátanna með öðrum hætti en þeim að standa í stríði norðanlands.