06.11.1974
Neðri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil strax við 1. umr. þessa máls lýsa stuðningi við það og segja hér örfá orð til viðbótar.

Stuðningur minn við þetta stjfrv. sýnir að sjálfsögðu, að ég er ábyrgur stjórnarandstæðingur, enda sjálfsagt af nógu að taka af hinum verri verkum hæstv. ríkisstj., sem ástæða er til að gagnrýna, og því alveg sjálfsag!t að láta ráðh. njóta sannmælis.

Það er enginn vafi á því, að það er stórvaxandi ásókn á Lánasjóð sveitarfélaga frá sveitarfélögunum til framkvæmda. Ég held þó, að það sé ekki alveg rétt, sem hv. 5. þm. Reykn. vildi vera láta hér áðan, að það hafi verið mjög þrengt að sveitarfélögum í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég held einmitt, að sú breyting, sem gerð var á tekjustofnum sveitarfélaga á þeim tíma, og þær framkvæmdir, sem verið hafa í gangi á vegum sveitarfélaganna almennt síðan, sýni, að það var í reynd rýmkaður fjárhagur sveitarfélaga með tekjustofnabreytingunni. Hitt er eigi að síður rétt, að það er geysileg fjárþörf nú hjá sveitarfélögum til hinna ýmsu verkefna og framkvæmda, sem þau standa í.

En þetta viðhorf hv. stjórnarsinna að því er varðar stuðning við sveitarfélög í varanlegri gatnagerð t.d. hefði mátt koma fram í reynd á sumarþinginu, þegar það var sannarlega tækifæri til þess í reynd — ekki að veita sveitarfélögunum lánsmöguleika, heldur að koma á ákveðnum tekjustofni, til þess að þau gætu farið í þær framkvæmdir, sem nú eru mest knýjandi og heyrast raddir um alls staðar að af landinu frá þessum sveitarfélögum um, að verði að hrinda í framkvæmd. Og það var að láta ákveðinn hluta af bensínskattshækkuninni renna einmitt til þessara framkvæmda. Þá hefðu hv. stjórnarliðar átt í reynd að sýna, hver hugur fylgdi máli í þessum efnum, við lausn þessara vandkvæða sveitarfélaganna í þessum framkvæmdum. En vonandi hafa þeir séð að sér. Og batnandi mönnum er best að lifa.

Ég vil aðeins taka undir það, sem hér hefur komið fram, að mér finnst ekki óeðlilegt, að það haldist sama hlutfall í fjárframlögum bæði frá Jöfnunarsjóði og ríkissjóði, þannig að ég tel ástæðu til þess, að það verði skoðað, hvort ekki sé fært, að ríkissjóður leggi fram til jafns við Jöfnunarsjóðinn. Ég vona a.m.k., að það verði skoðað í n., hvort slíkt sé ekki framkvæmanlegt. — Ég held, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta, en ég sem sagt ítreka stuðning við þetta frv.