12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég fæ ekki varist því að undrast orð síðasta ræðumanns, er hann telur sjálfsagt að taka sérstakt tillit til báta, bátstærða og landssvæða, ef þau aðeins eru utan Reykjavíkur og Faxaflóa, og ég vil taka mjög undir þau orð sem hv. 11. þm. Reykv. hér viðhafði um vandamál þessara litlu báta héðan úr Reykjavík, sem m.a. er ein forsendan fyrir þessu vandamáli í Húnaflóa. Það er enginn vafi að þarna hefur verið farið illa að eigendum báta úr Reykjavík. Þeir hafa engar skaðabætur fengið vegna lokunar Faxaflóans eða fyrir það að bátar þeirra ern ónýttir og þar á meðal með þessu ákvæði, sem gerir að verkum að það er ekki hægt að selja þá til staða úti á landi.

En það er eitt atriði, sem var hér komið aðeins inn á, sem ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um, það hefur enginn annar komið inn á þetta frekar, og það eru þau ákvæði, sem eru í reglunum um kaup bátanna, að skipstjórnarmenn þeirra verða að hafa verið búsettir á staðnum um eins árs skeið. Nú er mér kunnugt um að með þeim bát, sem hér hefur verið nafngreindur og er til umr., munu hafa flust tveir fyrri eigendur, sem báðir eru með fyllstu skipstjórnarréttindi. En þegar báturinn kom í sína nýju heimahöfn máttu þeir ekki gegna skipstjórn á bátnum. Hins vegar mun 17 ára unglingur hafa fengið undanþágu fyrir, að mig minnir, 150 kr. uppi í ráðuneyti til þess að fara með skipstjórn á bátnum. Og það er innan við þann aldur sem þeir verða að hafa sem setjast í skipstjórnarskóla.

Vegna þeirra miklu umr. sem hafa orðið bæði hér á þingi og utan þings á undanförnum vikum um öryggi sjómanna, um aukið öryggi þeirra, sem allir eru sammála um, að m.a. eykst með því að skipstjórnarmenn séu betur menntir en þeir sem fá sín réttindi með 150 kr. gjaldi uppi í rn. og við höfum allir viðurkennt þetta, — ég hef ekki heyrt neinn mótmæla því, — þá vil ég aftur í framhaldi af mínum fyrri orðum leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta geti verið rétt?