12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þessari fyrirspurn 8. þm. Reykv. Það hefur verið ákvæði í þessum skilyrðum, að ég held frá upphafi eða a.m.k. nú um þó nokkuð mörg ár, að skipstjóri hafi þurft að vera búsettur á svæðinu, enda eru veiðileyfi gefin út á nafn skipstjóra. En út af hinu atriðinu, sem þm. minntist á og er alveg rétt, að skipstjórinn, sem fékk þetta tiltekna veiðileyfi á Blönduósbát, fór, held ég, sjaldan með bátinn. Það var sótt um undanþágu fyrir son hans, en undanþágurnar eru afgr. í samgrn. og er rétt að þær kosta 150 kr. og þær voru veittar þar. En mér er sagt að þessi undanþága hafi verið afturkölluð, en það var ekki fyrir tilstilli sjútvrn., því að við gætum okkar mjög að koma ekki inn á starfsemi annarra ráðuneyta. Ég skal taka undir það sem hv. þm. sagði, að það er orðið ákaflega leiðinlegt að það sé hægt að veita undanþágur til eiginlega hvers og eins sem um þær sækir til þess að vera yfirmenn á bátum, jafnvel skipstjórar, fyrir 150 kr., en svo eru aftur ströng ákvæði um aldur manna er mega setjast í stýrimannaskóla og þeir verða að hafa haft ákveðinn reynslutíma á sjó. Það brann bátur 1. sept., held ég, í haust. Þar var stýrimaður á undanþágu, sem ég held að hafi verið 16 ára. Hann hefði ekki fengið inngöngu í stýrimannaskólann, en hann mátti vera stýrimaður á þessum bát af því að hann fékk undanþágu á 150 kr. Þessi undanþágufaraldur er auðvitað kominn langt út fyrir allt velsæmi og ég tek alveg undir það sem hv. þm. sagði hvað þetta snertir.

Út af því, sem 4. landsk. þm. sagði varðandi Djúpuvík, þá þarf ég ekki því við að bæta, sem 2. þm. Vestf. sagði. Ég tók ekki þátt í neinni afgreiðslu á lánum til Djúpuvíkur, þó að ég telji að þeir hafi átt það margfalt skilið, þessi nyrsti hreppur. Það skiptir töluverðu máli hvort þessi atvinnurekstur hefur verið í mörg ár og þarna er einn bátur, og kannske skiptir það mestu hvort þarna er einhver atvinnuvegur til að þetta fólk haldi áfram að búa þar, en hverfi ekki burtu.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar, en ég vænti þess, að þegar frv. um samræmingu vinnslu og veiða kemur frá n., þá geti menn fengið að tala eins og þeir vilja án þess að forseti slái svo í bjöllu sína sem hefur farið í taugarnar á sumum.