12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur að nokkru svarað þeirri fsp. sem hv. fyrrv. sjútvrh. hv. þm., Eggert G. Þorsteinsson, beindi til okkar, út af lánveitingum úr Byggðasjóði. Ég sé hann reyndar ekki í salnum, en ég vil þó svara. Ég greiddi atkv. með þessari lánveitingu, enda er aðstaða í Árneshreppi allt, allt önnur en á Blönduósi. Ég veit að hv. þm. gerir sér grein fyrir því að sú vél, sem þar á að setja upp, afkastar aðeins broti af því sem hinar afkastamiklu vélar á Blönduósi geta unnið. Hún afkastar u.þ.b. 100 kg á klst., en hinar margföldu því magni. Auk þess hefur verið unnin rækja í Árneshreppi lengi. Þar er gerður út einn bátur, og fyrir þessa vél er þessi eini bátur nóg. Með þessu er ekki verið að ofgera aflanum eða veiðinni á Húnaflóa.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því hins vegar að ég hef ávallt litið svo á, að í þessu sambandi beri að taka til greina fleiri sjónarmið en aflamagn og megi kannski tefla á tæpara vað, ef önnur sjónarmið eru þar mikilvæg einnig. Ég hef tvívegis flutt í Ed. frv. um leyfi til að reisa vinnslustöðvar á þeim sviðum, þar sem aflatakmörkun er, og í því frv. kemur greinilega fram, að ég ætlast til þess, að einnig sé tekið tillit til byggðasjónarmiða. Ég vona því að afstaða mín til þessa máls sé ljós.