12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Ég vil taka fram eftirfarandi út af því, sem hv. 2. þm. Austf. sagði þegar hann hóf mál sitt hið fyrra sinn, að það hefði aldrei fyrr verið beitt takmörkunum á ræðutíma utan dagskrár. Það má vel vera að hv. þm. hafi aldrei orðið var við það, því að hann hefði fráleitt sagt þetta ef hann hefði vitað betur. En til þess að staðfesta það sem ég sagði áðan, þá var 28. jan. 1974 beitt svipuðum takmörkunum og nú af Gils Guðmundssyni, forseta Nd. Og 13. febr. 1974 var einnig beitt sömu takmörkunum af Gils Guðmundssyni. 19. febr. 1974 var einnig beitt takmörkunum á ræðutíma utan dagskrár af Eysteini Jónssyni, forseta Sþ., og ennfremur 26. febrúar 1974 af forseta Eysteini Jónssyni. Ég geri ráð fyrir því, að það megi finna slík dæmi miklu oftar í þingsögunni, en það hefur ekki unnist tími til þess að leita að því nú. En þetta vildi ég upplýsa til þess að staðfesta það er ég áðan sagði.

Þá hefur hv. 4. þm. Austf. beðið um orðið utan dagskrár og verður einnig í því máli, er hann ræðir, viðhafður sami ræðutími og þingsköp leyfa um fsp. sem bornar eru fram skriflega.