12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

Umræður utan dagskrár

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ástæðan til þess að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, er sú að miklir og alvarlegir erfiðleikar eru í raforkumálum Austurlands og fyrirsjáanlegur skortur á raforku í vetur.

Eins og kunnugt er átti Lagarfossvirkjun að taka til starfa um n.k. áramót, en það hefur nú skeð, sem raunar hefur verið upplýst hér áður, að hún mun ekki komast í gagnið fyrr en seinast í marsmánuði eða jafnvel síðar. Einnig er þess að geta að orkuþörf á Austurlandi hefur vaxið síðan í fyrra á sama tíma um sem svarar 1 mw. Loðnuvinnslutíminn á Austurlandi varir fram í marsmánuð, að líkindum fram í miðjan mánuð eða jafnvel lengur. Í fyrra var það um miðjan marsmánuð sem lauk loðnuvinnslu eystra. Það er því sýnilegt, að það horfir til vandræða í sambandi við loðnuvinnsluna á komandi loðnuvertíð, og er talið að það muni vanta um 2 mw af raforku til þess að fullnægjandi megi heita fyrir loðnutímabilið. Á þessu svæði eru 11 síldarverksmiðjur og litlu fleiri frystihús og starfræksla þessara fyrirtækja er geysilega þýðingarmikill þáttur í að hagnýta loðnuna. Heildarverðmæti loðnuaflans í fyrravetur, þegar búið er að framleiða mjöl, lýsi og frysta loðnu, mun nema um 4.2 milljörðum kr. Þar af er hlutur Austurlands um 32.4% eða 1365 millj. kr., þannig að hér er mikið í húfi ef þessar verksmiðjur og frystihús skortir rafmagn til þess að hægt verði að starfrækja þessi atvinnutæki á loðnuvertíðinni í vetur.

Í fyrravetur var um að ræða orkuskort og þá var þetta mál leyst þannig, að tekin var á leigu gastúrbínuvél frá Noregi, sem framleiddi um 1300 kw. eða 1,3 mw. Nú er þessi möguleiki ekki fyrir hendi. Það er ekki hægt að fá þessa vél eða vélar þaðan leigðar í vetur, aðeins hægt að fá þær keyptar og þær eru rándýrar, kosta um 40 millj. kr. og þar að auki mjög eyðslufrekar. En hvað er þá til ráða? Það þarf að hefjast handa strax. Það má enginn dráttur á verða. Ég vil benda á tvær leiðir í þessu efni. Önnur leiðin er sú að keyptar verði dísilvélar frá Bandaríkjunum, sem hægt er að fá keyptar, litlar vélar, sem framleiða um 1 mw. af raforku og kosta um 14 millj. ísl. kr. Það er víst hægt að fá þær afgreiddar með litlum fyrirvara og þyrfti tvær vélar, sem mundu kosta 28 millj. kr. Í öðru lagi er hugsanlegt, að hægt sé að finna gamlar bátavélar, stærri báta, sem ekki eru notaðar eða jafnvel vélar úr togurum, sem hafa verið lagðar af, og tengja rafal við þær og hagnýta þær þennan tíma sem loðnuvertíðin varir. Það er sýnilegt að hefjast þarf handa mjög rösklega í þessu máli, ef ekki á að verða hætta á að truflanir verði á starfrækslu loðnuverksmiðjanna og jafnvel frystihúsanna.

Ég vil því beina þeirri fsp. til hæstv. raforkurh. hvort hann geti upplýst þingheim nánar um þetta mál, annaðhvort nú eða þá síðar, þegar hann hefur fengið meiri tíma til að undirbúa svar sitt og jafnframt að hann beiti áhrifum sínum til að tryggja næga raforku á Austurlandi í vetur til þess að loðnuvinnslunni verði ekki stefnt í hættu á komandi vertíð vegna raforkuskorts. Það liggur fyrir fsp. frá hv. 5. þm. Austurl. um þetta efni, en tíminn hleypur frá okkur og þetta er auðvitað mjög skammur tími til þess að gera ráðstafanir, og þess vegna vildi ég leyfa mér að hreyfa þessu máli hér og beina þessari fsp. og þessum tilmælum til hæstv. raforkurh.