12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það vandamál, sem hér er um að ræða, er vissulega mikið, því að það er mikið í húfi, að það verði til nægileg raforka á Austurlandi, þegar kemur nokkuð fram yfir áramótin og loðnuvertíðin byrjar. Mér sýnist satt að segja, að hér sé komið í hið mesta óefni.

Eins og komið hefur fram í fréttum, er þegar farið að skammta rafmagn til almennrar notkunar á Austurlandssvæðinu, og þó er það svo að um þetta leyti árs er reksturinn í fiskvinnslustöðvunum á Austurlandi allajafna lítill, miklum mun minni en í meðallagi. Ég efast ekkert um að frystihúsin á þessu svæði nota nú varla meira en hálfa orku á við það sem þau þurfa að nota þegar reksturinn er þar kominn í fullan gang, eins og verður nokkuð upp úr áramótum. Auk þess liggur svo hitt fyrir, að engin af loðnuverksmiðjunum er rekin nú, en á þessu svæði, ef maður tekur Hornafjarðarsvæðið með, er um að ræða 10 loðnuverksmiðjur sem þurfa á allmikilli raforku að halda. Mér sýnist því að það sé rétt, sem forstöðumenn fyrir rafmagnsmálum á Austurlandi hafa sagt að undanförnu og reyndar í marga mánuði, að það sé alveg fyrirsjáanlegt að þeirra dómi, að hér lendi þetta í hinu mesta óefni, þegar kemur fram á þennan vinnslutíma, ef ekki kemur eitthvað viðbótarafl til inn á þetta svæði.

Ég álít að það sé í rauninni alveg tilgangslaust að tala hér nokkuð um Lagarfossvirkjun og um einhverjar tafir sem orðið hafa á einstökum hlutum til þeirrar virkjunar. Það hefur nú komið í ljós, að það ætli að fara svo, þó að tékkarnir séu búnir að margbregðast í sambandi við afhendingu á ýmsum hlutum frá þeim, þá koma svo hlutir til þessarar virkjunar frá ýmsum öðrum og þeir ætla að verða miklum mun seinni í afhendingu, svo að það stendur meira á þeim. Ég held að það sé rétt, sem þeir segja sem þarna vita best um, að það eru ekki miklar líkur til þess að Lagarfossvirkjunin komi inn að neinu gagni fyrr en einhvern tíma í marsmánuði, og áður verður komin stöðvun á þessu að öllum líkindum eða þá verður að grípa til mikillar skömmtunar á rafmagni á þessu svæði. Því held ég að það sé í rauninni ekki um annað að gera, eins og komið er, en að bregðast við og útvega vélar til framleiðslu á raforku til bráðabirgða fyrir þetta svæði.

Það er langt síðan kom í ljós að ekki er hægt að fá þær túrbínustöðvar leigðar, sem menn höfðu gert sér vonir um. Það er langt síðan það kom í ljós. Og ég verð að segja að það er æðiseint á ferðinni að mínum dómi að segja það nú, að það muni líklega ekki vera um aðra leið að ræða en að kaupa dísilvélar og þá helst frá Ameríku. Ég tel að það eigi að kaupa þessar vélar tafarlaust og í rauninni, miðað við allar þær upplýsingar sem lágu fyrir, hefði átt að vera búið að kaupa þær, því að loðnuvertíðin getur byrjað eftir reynslunni upp úr miðjum jan., í kringum 20. jan. eða svo, og þá er aðeins rétt rúmur mánuður til stefnu. Það, sem skiptir máli á þessu svæði, er að það séu vinnslumöguleikar í upphafi loðnuvertíðar. Annars er hún gengin hjá, og það verða ekki aðeins aðilar á Austurlandi, sem þar tapa fé, heldur tapar auðvitað þjóðarbúið gífurlegum fjárhæðum ef svo illa tækist til, að það væri ekki hægt að reka loðnuvinnsluna þar með eðlilegum hætti. En ég dreg í efa fyrir mitt leyti að hægt verði með því vélafli, sem þarna er til staðar nú, og þeim orkuverum, sem þarna eru nú, að komast fram úr þessum vanda á þann hátt að takmarka aðeins raforkusöluna við almenna notkun. Ég efast um, að það verði hægt.

Ég fagna því að sjálfsögðu, sem hæstv. iðnrh. sagði hér, að það verði allt gert til þess að reyna að leysa þennan vanda, og ég efast ekkert um að ríkisstj. gerir sér grein fyrir því og hæstv. ráðh., að það er mikil þörf á því. En ég vildi fara fram á það við hann, að nú yrði ekki tapað neinum tíma úr því sem komið er með að festa kaup á vélum, sem hægt er að nota til raforkuframleiðslu á þessu svæði, og reyna að hraða því eins og mögulegt er, því að það má hafa þar fullan hraða á, ef þær eiga að vera komnar í gagnið upp úr miðjum jan. Á þetta vil ég leggja höfuðáherslu, að þetta verði gert og ekki beðið lengur, því að ég tel að þarna hafi verið beðið of lengi.