12.12.1974
Sameinað þing: 22. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

Umræður utan dagskrár

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég skil ákaflega vel áhyggjur manna og sérstaklega þm. Austf. út af því hörmungarástandi sem er í orkumálum þar um slóðir. En mér finnst ástæða til að nota þetta tækifæri til að vekja athygli hv. þm. á því, að á Laxárvirkjunarsvæðinu eru líka mjög mikil vandræði. Þar er um varanlegan orkuskort að ræða vegna þess að við höfum ekki nógu mikil tæki til þess að framleiða vatnsorkuna og enn fremur eru ákaflega miklar truflanir á þeirri orkuframleiðslu. Hins vegar er á þessu svæði ein mesta iðnaðarframleiðsla á landinu, sem er ákaflega orkufrek, og til þess að mæta þeim vanda, sem þarna skapast, hefur um nokkuð langan tíma og sífellt í vaxandi mæli orðið að grípa til þess ráðs að framleiða orku með olíu, sem er ákaflega dýr, og ekki undir neinum kringumstæðum hægt að selja orkuna á því verði sem kostar að framleiða þessa orku. Orkuframleiðsla sem þessi er fjárhag Laxárvirkjunar gersamlega ofviða, þannig að ef svo heldur áfram sem nú stefnir, þá er fyrirsjáanlegt fjárhagslegt hrun Laxárvirkjunar sem fyrirtækis. Ég held að það sé því kominn tími til að það mál verði tekið til mjög alvarlegrar athugunar, og ég beini þeim tilmælum til hæstv. ríkisstj. að það verði hið fyrsta tekið til alvarlegrar athugunar að greiða verulega niður olíuverð, fyrir þá olíu, sem notuð er til orkuframleiðslu til að viðhalda nauðsynlegri starfsemi á svæði eins og því sem Laxárvirkjun útvegar orku til. Ég álít, að hér sé um fyllstu sanngirniskröfu að ræða og það verði undir engum kringumstæðum hægt að ætlast til þess, að virkjanir og rafveitur sem slíkar, eða orkuframleiðandi eins og t.a.m. Laxárvirkjun geti staðið undir því að framleiða orku með jafndýrum hætti og þetta og fá ekki nema brot af framleiðslukostnaði til baka aftur, — þarna verði ríkisvaldið að koma til hjálpar og það sé ein fyllsta sanngirniskrafa. Ég leyfi mér að vænta þess, að þetta verði tekið til athugunar hið allra fyrsta.