13.12.1974
Efri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Lánasjóður sveitarfélaga var stofnaður með l. frá 1966. Hann hafði verið undirbúinn af sérstakri n. sem skilaði mjög ítarlegu áliti og till. um það efni og hafði m.a. kynnt sér bæði þarfir sveitarfélaganna fyrir lánastofnun eða lánasjóð og fyrirkomulag slíkra mála í nágrannalöndum. Í frv. var gert ráð fyrir því að stofna Lánasjóð sveitarfélaga og að árlegt stofnfjárframlag skyldi vera 15 millj. kr. frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og sama upphæð frá ríkissjóði.

Þetta frv. var lagt fram á Alþ. 1964–1965, en náði ekki fram að ganga. Það var borið fram aftur ári seinna og þá lögfest, en með þeirri breytingu að ákvæðið um framlag ríkissjóðs var tekið út úr frv., en hins vegar ákveðið að úr ríkissjóði skyldi veitt fé árlega eftir því sem ákveðið yrði í fjárl. Lengst af hafa framlögin verið þessar lögboðnu 15 millj. úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og síðan 4.5 millj. úr ríkissjóði, en síðustu 3 ár hefur það verið nokkru hærra og á árinu 1974 er framlagið 8 millj. Samtals er því nú í ár óafturkræft framlag Jöfnunarsjóðs og ríkissjóðs til Lánasjóðsins 23 millj.

Þessi sjóður hefur lánað í margvíslegar framkvæmdir sveitarfélaganna og er gerð grein fyrir því á bls. 3 í frv. eða grg. þess. Það eru vatnsveitur, hitaveitur, skóla- og íþróttamannvirki, gatnagerð og holræsi, sjúkrahús, læknisbústaðir o.fl. Á því er enginn vafi að sjóðurinn hefur þegar komið að góðu gagni, en hins vegar mikill annmarki þar á, hversu févana hann hefur verið.

Samband ísl. sveitarfélaga hefur beitt sér fyrir því að sjóðurinn yrði efldur, og hefur það samþykkt ákveðnar till. í því efni sem eru nú fluttar með þessu frv. Þær eru í stuttu máli á þá leið að í staðinn fyrir fast 15 millj. kr. framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði hið árlega framlag 5% af vergum tekjum sjóðsins, og að því er ríkissjóð snerti, þá skuli framlag hans vera ákveðið eigi minna en helmingur af þessu framlagi Jöfnunarsjóðs eða eigi lægri upphæð en 2.5% af tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Í grg. frv. er skýrt frá því, hverjar tekjur sjóðsins hefðu af þessum ástæðum orðið ef þetta frv. hefði verið í gildi árið 1974. Þá var miðað við áætlaðar tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og gert ráð fyrir að þessi framlög samtals yrðu 71 millj. kr. Ef hins vegar er miðað við raunverulegar tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á þessu ári, þá má gera sér nú, þó að árinu sé ekki lokið, grein fyrir því hverjar tekjur hans mundu verða. Samkv. því mundi þetta 5% framlag á árinu í ár hafa numið 68.8 millj. og helmingsframlag frá ríkissjóði 34.4 millj., eða samtals um 103 millj. kr., þar sem tekjur Jöfnunarsjóðs reynast á þessu ári allmiklu hærri en þessar tölur í grg. frv. gerðu ráð fyrir.

Varðandi tekjur Lánasjóðsins á næsta ári, ef frv. verður samþ., er gerð grein fyrir því í áliti félmn. Nd. á þskj. 107. Þar er spáin sú, og er þá byggt á tölum fjárl. um tekjur Jöfnunarsjóðs og gert ráð fyrir því samkv. þeim, að frá Jöfnunarsjóði mundi Lánasjóðurinn fá 89 millj. 150 þús. og þá frá ríkissjóði 44 millj. 675 þús. kr. Samtals ættu því tekjur Lánasjóðsins á næsta ári samkv. þessum áætlunartölum að verða 133 millj. 725 þús. kr. Hér er að sjálfsögðu um verulega upphæð að ræða, þar sem slík framlög kæmu í stað þeirra 23 millj. kr. sem Lánasjóðurinn fær nú í ár frá þessum tveim aðilum.

Þetta frv. er flutt eftir einróma ósk og tilmælum Sambands ísl. sveitarfélaga og stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaganna. Í hv. Nd. fékk málið ágætar undirtektir og félmn. mælti einróma með því óbreyttu. Ég vænti þess að málið fái góðar undirtektir í þessari hv. d., vil mælast til þess vinsamlegast við hv. félmn. þessarar d. sem væntanlega fær málið til meðferðar, að hún reyni að hraða afgreiðslu málsins þannig að henni geti lokið áður en þingi verður frestað fyrir jól.

Ég legg svo til að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.