13.12.1974
Efri deild: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hygg að hv. 6. þm. Sunnl. hafi ekki vegna sinna anna í fjvn. verið hér þegar ég mælti fyrir frv. Það er ekkert bann frá minni hendi nema síður sé að einhverjar breytingar verði gerðar á málinu þar sem betur má horfa. Ég hef einmitt verið að velta þessu fyrsta atriði fyrir mér sem hann vék að og tel að það væri kannske betra a.m.k. að hafa þetta ekki alveg að bæjarvegg, nema þá væri veittur styrkur til þeirrar vegagerðar að öllu leyti svo að menn þyrftu eitthvert tillit að taka til þess að ekki væri meiri óhagræðing við staðsetningu íbúðarhúsa eða fjósa heldur þyrfti að vera.

Þetta með björgunarskýli er alveg rétt, þangað þurfa að vera góðir vegir. Hins vegar getur þetta verið nokkuð langt, og öll slík tilfelli finnst mér að væri þá betra að styrkja að einhverju leyti heldur en að taka þau beinlínís upp í vegalögin.

Viðvíkjandi síðasta atriðinu sem hv. 6. þm. Sunnl. ræddi um, vil ég segja það að mér hefur borist bréf frá formanni Landssambands hestamanna einmitt um þetta atriði. Það er nú heimild í l. um slíka vegi, reiðvegi, og ég hef rætt það við vegamálastjóra að þegar vegáætlunin yrði til meðferðar, þá yrðu lagðir einhverjir fjármunir í slíka vegi sem hv. 6. þm. Sunnl. ræddi um, því að mér er ljóst að um venjulegar hraðbrautir fara menn ekki á hestum, og það er mjög fjarri mér að vilja koma í veg fyrir að menn stundi þessa skemmtilegu og mjög svo ánægjulegu íþrótt, ef maður má orða það svo, sem hestamennskan er. Mun verða reynt að líta til þess þegar vegáætlun verður lögð fram.