11.11.1974
Efri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

8. mál, almannatryggingar

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Eitt brýnasta þjóðfélagslegt verkefni okkar er að allir þegnar samfélagsins búi við sem jafnasta aðstöðu. Við flm. erum að vísu á því að það verði gert á ýmsan hátt eftir öðrum leiðum og betri en núv. hagkerfi okkar leyfir, án þess þó að hafa neina byltingu í huga. Jöfn aðstaða, jöfn lífskjör hljóta að vera framtíðarmarkmið allra þeirra sem ekki vilja að þjóðfélagið og ytri gæði þess séu frekar fyrir einn eða annan, jafnvel fáa og útvalda, sem geta olnbogað sig áfram eftir leiðum hins óhefta framtaks, losnað við samfélagslega skyldu sem mest og auðgast á annarra kostnað. Þessi skoðun á sér að vísu enn opinskáa og meira eða minna dulda formælendur, en sókn félagshyggjufólks undanfarna áratugi í átt til jafnréttis á flestum sviðum og til sem jafnastra lífskjara hefur borið umtalsverðan árangur, því að oft var leiðin ströng og erfið, andstaðan heiftúðug og hörð. Þannig er með þann mikla lagabálk sem þetta frv. yrði angi af ef í hann kæmist. Almannatryggingar, svo sjálfsagðar sem þær þykja í dag, voru á sínum tíma einn mesti ásteytingarsteinn þeirra afturhaldsafla sem sáu í þeim voða og vá. Ræflarnir, úrhrökin, gátu orðið menn til jafns við aðra þjóðfélagsþegna og hvað gat hugsast hættulegra og voðalegra í senn? Á þessu hefur orðið breyting. Öflug barátta þokaði þessu máli sífellt áfram og í dag megum við una vel við sameiginlegar byrðar okkar af þessum sökum. A.m.k. vogar enginn sér í dag beinlínis að vega að þessum málum þegar verið er að gagnrýna ríkisvaldið og skattheimtu þess, en óbeint er reyndar stöðugt verið að því, svo stór og um leið ágætur sem sá hluti ríkisútgjaldanna er sem tryggingamál varðar.

En þessi mál eiga sér margar hliðar, marga aukaþætti og þá ekki ætíð smáa né óverulega. Tryggingar koma óneitanlega enn ekki öllum að gagni sem þyrftu og agnúar eru þar einnig á hvað snertir ofnotkun eða misnotkun. Slíkt fylgir að vísu alltaf viðamikilli og margþættri löggjöf.

Ég minnti í upphafi á skyldu samfélagsins að búa þegnum sínum aðstöðu alla sem jafnasta. Einn liður þeirrar skyldu er okkur flm. ofar í huga en aðrir, jafnrétti landsbyggðarfólksins við Faxaflóafólkið, þéttbýlisíbúana á höfuðborgarsvæðinu. E.t.v. brennur allur mismunur í þessum efnum heitar á íbúum landsbyggðarinnar en margur annar. Nú hefur stefna aukins jafnaðar þessu fólki til handa í atvinnulegu og félagslegu tilliti verið ráðandi undanfarin 3 ár. Breytt stefna stjórnvalda réð mestu og var afgerandi um alla þá jákvæðu þróun sem við höfum verið vitni að undanfarið, en fólkið sjálft hefur einnig flutt kröfur sínar af meiri djörfung, eflt samtakamátt sinn með auknu samstarfi og ráðist í fjölþættari verkefni en ella hefði verið, ef byr hefði ekki verið í hinni æðstu stjórnsýslu fyrir bættum hag landsbyggðarfólks og auknum jöfnuði. Vonandi verður þar á framhald. En hvað sem um það má segja, þá gerir fólkið áfram sínar auknu kröfur um aukið réttlæti sér til handa, því að réttlætismál hlýtur að vera um að ræða þegar að því einu er stefnt að ná sama rétti, sama öryggi og aðrir íbúar þjóðfélagsins búa þegar við. Heilbrigðismál landsbyggðarinnar og öll þjónusta þar í kring hafa svo sannarlega verið í brennidepli undanfarin ár, sú aðstaða, sem fólk býr þar við, ræður oftlega meira en annað svörum þess við spurningunni um áframhaldandi búsetu eða ekki. Öryggisleysi í heilbrigðisþjónustu hefur verið einn besti liðsauki fólksflóttans af landsbyggðinni.

Með nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu er gerð tilraun til úrbóta, sem margt bendir til að geti gefið góða raun, ef vel er að verki staðið. Það er ekki sársaukalaust eða hefur verið fyrir landsbyggðarfólk að taka sinn ríka þátt í menntun læknastéttar og hálærðra sérfræðinga, leggja öðrum fremur af mörkum verðmæti til þjóðarbúsins í framleiðslu allri eða undirstöðu, sem menntakerfið byggir á, og sjá svo á eftir þessum mönnum til starfa á höfuðborgarsvæðinu eingöngu eða jafnvel til útlanda, hafandi uppi sífellt meiri kröfur til samfélagsins en minni til sjálfra sín og skyldnanna við fólkið sjálft. Þetta er ömurleg öfugþróun, sem ekki er bundin þessari stétt einni, en verður sárari og tilfinnanlegri vegna þeirrar þýðingar, þeirrar beinu mannslífssnertingar sem þessi stétt öðrum fremur á að vera í. Læknaskortur hefur verið hið mikla og alvarlega vandamál. Má vera að með nýjum heilsugæslustöðvum og bættri aðstöðu á alla lund verði hér ráðin á bót, og auðvitað er tilgangur laganna sá og þeim tilgangi vonum við öll að megi ná sem fyrst og best. Í þessum lögum sem eru þýðingarmikil réttarbót á flestum sviðum heilbrigðisþjónustu er sérkafli, sem fjallar um þá þjónustu sem veita á á slíkum heilsugæslustöðvum, og því ekki að neita að sú upptalning er falleg og dýrmæt þegar hún hefur orðið að veruleika fyrir þá sem víð eiga að búa og brýnasta hafa þörf hennar.

Í þessari upptalningu er að finna afar margar tegundir þeirrar sérfræðiþjónustu sem þetta frv. er við miðað, sérfræðiþjónustu sem fólk á landsbyggðinni hefur að langmestu leyti þurft að sækja til Reykjavíkur með ærnum og oft gífurlegum tilkostnaði, þó að auðvitað sé þar ekki líkt því öll sú þjónusta sem þó þyrfti að vera til staðar a.m.k. í hverjum landsfjórðungi og þá í fjórðungssjúkrahúsunum, enda einnig ráð fyrir því gert. Allt er þetta ágætt svo langt sem það nær. En hvenær verður þetta að þeim veruleika, sem kemur okkur landsbyggðaríbúum að gagni, að ég ekki segi fullum notum? Það er hins vegar sú stóra spurning sem framtíðin og framvinda þessara mála í heild fá ein svarað.

Þessi skipan mála varðandi sérfræðiþjónustu hlýtur að vera hagkvæmari jafnt fyrir þjóðfélagsþegnana sem þjóðfélagið í heild, fyrir svo utan það, hve sjálfsögð hún hlýtur að vera frá því jafnréttissjónarmiði sem okkur ber að hafa að leiðarljósi. Við flm. höfum því þá trú að mikið kapp muni á það lagt af yfirvöldum heilbrigðismála næstu ár að færa lögin sem mest og best í framkvæmdaátt og gera fjórðungssjúkrahús og heilsugæslustöðvar að þeim lækningamiðstöðvum sem til er ætlast. En á því sjáum við að verður löng bið, því miður. Uppbyggingin sjálf, það er hin einfaldasta og sjálfsagðasta gerð hennar, læknisþjónustan almenna, er rétt að hefjast og þótt vel verði að þeirri framkvæmd staðið er hér um viðameiri og stórtækari breytingu að ræða en svo að allir þættir hennar skili sér á skömmum tíma. Hér þarf því önnur skipan á að komast meðan að þessu er unnið og tímabundin þjónusta árlega gæti mjög bætt úr og dregið úr þeirri aðstoð sem þetta frv. gerir ráð fyrir að veitt verði. Endurskoðunarnefnd tryggingal. hefur vissulega komið fram mörgum umtalsverðum umbótum, m.a. fyrir fólk á landsbyggðinni. En þetta verkefni hefur á einhvern hátt orðið úti. Ég hef t.d. rætt þetta við einstaka nm., flutt mál hér í þingsölum og það hafa fleiri gert rösklega, enda fast á knúið, en fátt hefur gerst sem raunverulegt lið væri í. Ég viðurkenni fúslega ýmsar mótbárur sem ég hef heyrt, svo sem hættu á misnotkun, en sú hætta er fyrir hendi hvarvetna í okkar tryggingakerfi ef hvors tveggja atriða er ekki gætt, fyllstu samviskusemi lækna og eins embættismanna Tryggingastofnunarinnar. Ég hef aldrei óttast þá hættu umfram aðrar greinar hinna ýmsu tegunda tryggingahóta og greiðslna vegna sjúkleika hvers konar. Hitt er deginum ljósara, að hér er um að ræða aukin útgjöld, hversu mikil veit ég ekki, enda hygg ég að engin könnun hafi á þessu verið gerð. En allt í kringum mig veit ég dæmi mikils kostnaðar af slíkum ferðum á fund sérfræðinga til rannsókna og aðgerða og þótt hér sé aðeins lagt til að komið sé til móts við fólkið að hluta hlýtur hér að vera um að ræða allmiklar fjárhæðir samtals. Við tökum aðeins einn þátt þessa kostnaðar fyrir, ferðakostnaðinn. Við bætist dvalarkostnaður og vinnutap og alls konar aukaútgjöld og segja má að ekki sé gengið langt til jöfnunar með frv. þessu. En við flm. erum þess fullvissir að landsbyggðarfólki almennt þyki hér miklu fremur of skammt farið en hitt, að of miklar kröfur séu gerðar fyrir þess hönd. En aðalatriðið að okkar dómi er að koma málinu á hreyfingu, fá á því allra brýnustu úrlausn þótt of lítil kunni að verða og hitt er svo ekki siður okkar ætlan, að þessi skipan geti orðið aukinn hvati þess, að sem fyrst verði sem mest af sérfræðiþjónustu flutt út í landsfjórðungana sakir þess, eins og ég áðan sagði, hve sú skipan er hagkvæmari á allan hátt.

Annað höfuðatriði frv. lýtur að þátttöku ferðakostnaðar að hluta, þeirra sem um lengri veg þurfa að sækja sérfræðiþjónustu sér til lækninga. Við teljum eðlilegt að um þetta séu nánari ákvæði í reglugerð, en hitt aðeins lögbundið, að tryggingarnar taki hér að sér ákveðinn hluta, og leggjum á það áherslu i grg. að vitaskuld þurfi hærri hundraðshluta að greiða eftir því sem kostnaður er meiri vegna fjarlægðar og því tilfinnanlegri fyrir sjúklinginn. Um það ættu menn almennt að geta verið sammála og ekki öðru trúað en við það sjónarmið yrði reglugerð skýrð. Skilyrði þess, að tryggingarnar ættu hér greiðsluaðild, væri vitanlega fullnægjandi vottorð, ekki aðeins þess læknis, sem að heiman sendir frá sér sjúkling, heldur og þess sérfræðings, sem til væri leitað og rannsókn eða aðgerð annaðist. Með því móti ætti að vera mögulegt að koma að mestu í veg fyrir þá misnotkun, sem alltaf er viss hætta á, en ég óttast þó ekki svo mjög, því að slíkar ferðir eru fæstum nein gamanmál tilbúinna meinsemda, og það traust verður að bera til þeirra, sem vottorðin gefa, að þeir fari þar ekki út fyrir mörk fullkomins heiðarleika, einkanlega þar sem a.m.k. tveir eiga hér hlut að í hverju einstöku tilfelli. Hvað reglugerð snertir treystum við því ágæta fólki, sem í rn, vinnur, svo og núv, hæstv. heilbrrh. sem sjálfur er landsbyggðarmaður, til að gera hana sem best úr garði.

Hitt atriðið, sem frv. gerir ráð fyrir, er um þá sjúklinga sem sjúkdóms vegna þurfa stöðugt á því að halda að leita til sérfræðinga, ýmist til eftirlits, beinna aðgerða eða annars varðandi sjúkleika sinn. Um þetta þekkjum við ótalin dæmi. Deildarstjóri í Tryggingastofnun ríkisins, sem mjög fæst við fyrirgreiðslu ýmiss konar varðandi sérvandamál fólks, hefur tjáð mér að hér sé um miklu alvarlegri hluti að ræða en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Ef um börn er að ræða er stundum leitað þeirrar leiðar sem þar er ein fær, að sækja um svokallaða barnaörorku sem oftast fæst í öllum alvarlegri tilvikum, en þó er þar ekki nema hálfsögð sagan því að fylgdarmaður, móðir eða faðir, þarf oftast að vera með, og fáist barnaörorkan ekki, þá getur hér verið um svimháar upphæðir að ræða. Persónulega þekki ég dæmi um tugþúsundakostnað á rúmu ári í einstöku tilfelli og var þó vinnutap móður ekki reiknað, sem var mjög tilfinnanlegt einnig.

Sumt af þessu fólki sem þannig þarf að leita reglubundinnar sérfræðiaðstoðar er á örorkslífeyri, annað á örorkustyrk, en ferðakostnaður er ekki síður tilfinnanlegur þessu fólki, kannske tiffinnanlegastur og erfiðast að leysa hann, því að oft er hér um að ræða verulegan hluta árstekna, og þá má lítið út af bera í aukakostnaði svo að endar nái engan veginn saman. En hvað sem öllum einstökum tilfellum líður er hitt óumdeilanleg staðreynd, að hér er um kostnað að ræða sem samfélagið verður að taka á sig með einhverjum hætti þótt talsverðu þurfi til að kosta. Við flm. teljum að þeim fjármunum sé vel varið, því að sjúkdómur er viðkomandi venjulega næg byrði þó að ekki bætist þar á ofan óleysanlegur fjárhagsvandi í framhaldi og samhengi hvimleiðs sjúkleika. Um þetta atriði gilti að sjálfsögðu hið sama og hið fyrra að fullnægjandi vottorð væri skilyrði fyrir greiðslum. Um þessa sjúklinga fer hins vegar sjaldnast neitt á milli mála, hvort þörf er á eða ekki, og misnotkun þessa þótt um fulla greiðslu yrði að ræða óttumst við þess vegna ekki. Hún hlyti a.m.k. að vera mjög óveruleg.

Ég hygg að öllu lengri framsaga þessa máls sé óþörf. Hvarvetna hef ég mætt þessari ósk austur á landi, að til móts við þörf sjúklinga væri komið á einhvern þann hátt sem hér er að vikið. Þessar óskir koma hvarvetna að. Hvort leiðin er nákvæmlega rétt og hvernig nánari framkvæmd á að vera þarf bæði að athuga í þn. og fá umsögn þeirra aðila er málið snertir mest. Við erum að sjálfsögðu reiðubúnir til að taka vel öllum skynsamlegum og réttlátum leiðbeiningum og lagfæringum. Og fái endurskoðunarnefnd tryggingalaganna, sem ég sé að á að starfa eftir skrá þeirri sem útbýtt hefur verið til þm., þetta verkefni til meðferðar, en málið að öðru leyti tekið að sinni úr höndum þingsins, þá skal því einnig treyst að hún finni hér sanngjarna og réttláta lausn, sem mæti þörfum þeirra sem hér eru bornir fyrir brjósti.

Vilji menn spyrja af hverju þessu máli hafi ekki verið hreyft fyrr beint í frv.-formi, þá er því til að svara að lengi hafði ég þá trú, að endurskoðunarnefnd og ráðh. hefðu að þessu frumkvæði, og ég dreg enga dul á víss vonbrigði mín þar að lútandi. En óbeint hafði því fyrr verið hreyft og á hitt bar og að líta, að ýmsar veigamiklar lagfæringar á tryggingakerfinu voru gerðar s.l. 3 ár, sem ég hef átt sæti hér á þingi, og í sumu tilliti varð stökkbreyting og ekki verður allt leyst í einu. Nú finnst okkur flm. að röðin sé komin að þessum þætti. Óumdeilanleg er þörfin, réttlæti þessa dregur enginn í efa og nú er að löggjafanum komið að sýna hér lit, eins verulegan og góðan og framast er hægt. Og víst er um það, að með máli þessu verður fylgst af fólkinu úti á landsbyggðinni, og engu öðru skal trúað en viðbrögðin verði jákvæð og einhver úrbót fáist þar sem allra fyrst. Til þess er frv. þetta flutt.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.