13.12.1974
Efri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

84. mál, útvarpslög

Fram. meiri hl. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 127 hefur menntmn. athugað frv. og eins og þar segir voru fjarverandi á þeim fundi þeir Ragnar Arnalds, Þorv. Garðar Kristjánsson og Jón Árm. Héðinsson, en undirritaðir nm. mæla með samþ. frv. óbreytts.

Við 1. umr. málsins hér í hv. d. urðu allmiklar umr. og að nokkru leyti, að mér fannst a.m.k., á óskiljanlegan og óeðlilegan hátt. Látið var að því liggja að í frv. fælist pólitískt ofríki, pólitískt siðleysi og fleira þvílíkt. Slíkar fullyrðingar og stóryrði finnst mér óviðeigandi. Menn getur greint á um hvernig skipa beri útvarpsráð, hvernig kjörtímabil þess skuli vera o.s.frv. Reynslan sannar að menn hafa á 46 ára ferli útvarpsráðslaganna verið að leita eftir mismunandi leiðum í þessu efni og gerðar hafa verið margþættar breyt. á því hvernig útvarpsráð hefur verið valið, hve margir hafa átt sæti í því, og hvernig kjörtímabil þess hefur verið.

Eins og hæstv. menntmrh. tók fram í framsöguræðu sinni fyrir frv. hér í hv. d. hefur kosningu í útvarpsráði verið hagað með ýmsu móti. Árið 1928 var lagt fyrir Alþ. frv. til l. um heimild handa ríkisstj. til rekstrar á útvarpi. Þá var ákveðið að útvarpsráð yrði skipað þremur mönnum. Ríkisstj. skipaði forseta ráðsins, Háskólinn annan og Félag útvarpsnotenda þann þriðja. Skv. þessum l. var hafin bygging á útvarpsstöð. Þegar á árinu 1930, áður en útvarpsstöð Íslands sendi út sína fyrstu dagskrá, sem var eins og kunnugt er 20. des. það ár, samþ. Alþ. breyt. á l. Var þá bætt við 2 fulltrúum í ráðið, einum fulltrúa presta og einum fulltrúa kennara. Þannig var útvarpsráð skipað til 1934. Þá var l. breytt þannig að þá var útvarpsráð skipað 7 mönnum, 3 kosnum hlutfallskosningu á Alþ., 3 kosnum hlutfallskosningu af öllum útvarpsnotendum í landinu, en hinn 7. skyldi kennslumálaráðh. skipa. Þá var kjörtímabili útvarpsráðs 4 ár.

Í því frv., þar sem fyrst er lagt til að útvarpsráð verði að hluta kosið af Alþ. og að hluta af útvarpsnotendum, segir í grg. frv. m.a.:

„Með 4. gr. frv. er í fyrsta lagi lagt til að horfið sé frá þeirri leið, að dagskrárstjórn útvarpsins verði skipuð fulltrúum stétta og stofnana, en lagt til að hún sé skipuð á lýðræðislegan hátt, svo að skipunin verði á hverjum tíma í samræmi við vilja þjóðarinnar allrar og útvarpsnotenda sérstaklega. Ríkið hefur upphaflega stofnað þetta fyrirtæki, ber á því fjárhagslega ábyrgð, setur því lög og reglugerðir. Þykir því rétt að 3 af 6 kjörnum fulltrúum í dagskrárstjórn séu kjörnir hlutfallskosningu á löggjafarsamkomu þjóðarinnar.“

Þó að Alþt. frá þessum tíma beri með sér að um margt greindi menn á, þá töldu flestir að þessi aðferð við kosningu útvarpsráðs væri til bóta frá því sem áður var. Skv. þessari skipan var kosið í útvarpsráð vorið 1935, í fyrsta og síðasta sinni skv. þeirri skipan, því að 1939 var l. enn breytt á þá leið, að ráðið skyldi skipað 5 mönnum, öllum kosnum hlutfallskosningu á Alþ. Hið fyrra fyrirkomulag hafði þá ekki gefið þá raun sem vænst hafði verið. Í grg. með frv. þá segir að kosningarnar hafi orðið að mestu pólitískar, sé líklegast að svipuð hlutföll haldist við hlutfallskosningar á Alþ. Í frv. var fyrst lagt til, að kjörtímabil ráðsins yrði 2 ár, en í meðförum Alþ. varð sú breyt. á, að kjörtímabilið var ákveðið 3 ár. Í þetta sinn greindi alþm. einnig á um kosningafyrirkomulagið og fjölda útvarpsráðsmanna, en urðu sammála um, að kjörtímabilið skyldi verða 3 ár. Þannig var skipan þessara mála til 1943. Þá var lögunum breytt í þá átt, að útvarpsráð skyldi kosið á fyrsta þingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar. Í grg. með frv. þá segir um þetta efni m.a.:

„Með gildandi lögum er Alþ. fengin kosning útvarpsráðs, en kosning gildir til nokkurra ára í senn án tillits til breyt. þeirra sem verða kunna á styrkleikahlutföllum á Alþ. við almennar kosningar. Þetta er óeðlilegt, því að úr því að Alþ. er fenginn þessi kosningaréttur sýnist sjálfsagt að hvert nýkosið Alþ. kjósi útvarpsráð að nýju. Með því einu móti er skapaður möguleiki fyrir því, að útvarpsráð sé í samræmi við óskir almennings á hverjum tíma. Sami háttur er hafður á um kosningu menntamálaráðs og hefur gefist vel, og er því með frv. lagt til að svo verði einnig varið með útvarpsráð.“

Meiri hluti allshn, flutti lagabreyt. og tók brtt. aðeins til þessa eina ákvæðis laganna, þ.e. um hvenær útvarpsráð skuli kosið. Sú breyt. var samhljóða þeirri breyt. sem nú er lagt til að gerð verði á l. Litlar umr. urðu um málið, en í framsögu sagði frsm. með leyfi forseta:

Þetta frv. fer í þá átt að samræma kosningu í útvarpsráð við það sem er um menntamálaráð, þannig að hvor tveggja n. sé kosin á fyrsta þingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar. Bæði þessi ráð eiga að starfa að menningarmálum og hafa hliðstæðum og þýðingarmiklum störfum að gegna. Og sýnist eðlilegt, að sami kosningaháttur gildi um hvort tveggja, enda er ljóst, að þar sem ætlast er til þess, að útvarpsráð sé spegill af vilja Alþ., þá er rétt að sá spegill sé í samræmi við vilja kjósendanna á hverjum tíma, eins og hann hefur komið fram við alþingiskosningar.“

Árið 1966 var svo fjölgað í útvarpsráði úr 5 í 7. Þessi skipan ríkti svo til 1971, að upp var tekin sú skipan, sem nú er, þ.e. að kjörtímabil útvarpsráðs er enn á ný 4 ár. Þá voru gerðar margar breyt. aðrar á 1. og þau gerð ítarlegri en þau voru fram að því. Varðandi breyt. á kjörtímabili útvarpsráðs segir m.a. í frv., með leyfi forseta:

„Með núverandi skipan er Ríkisútvarpið nátengt við stjórnmálabaráttuna og sveiflur hennar. Virðist hyggilegra og meira í samræmi við hugmyndir samtíðarinnar um sjálfstæði Ríkisútvarpsins, að útvarpsráð hafi fast kjörtímabil, eins og mikill meiri hluti þeirra stjórna og ráða, sem Alþ. kýs. Mundi það skapa meiri festu í störf útvarpsráðs og stofnunarinnar í heild.“

Það er mín skoðun, að þessu marki hafi ekki verið náð. Eins og vænta mátti, þar sem um svo veigamikil nýmæli og mörg var að ræða í frv. auk margra breyt. á eldri ákvæðum, þá urðu umr. ekki sérstaklega miklar um þetta atriði, þ.e. um kjörtímabil útvarpsráðs. Margir ræðumenn lýstu sig fylgjandi breyt., þó að sumir létu í ljós nokkurn ugg í þessu sambandi. Till. kom m.a. fram um að fjölga í útvarpsráði úr 7 í 15, en sú till. náði ekki fram að ganga.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir því, hvernig útvarpsráð hefur verið byggt upp frá byrjun og hvert kjörtímabil ráðsins hefur verið hverju sinni. Á 46 ára starfsferli hefur þetta verið breytilegt eins og fram hefur komið. Það er ekki óeðlilegt, að leitað sé nýrra leiða í þessum efnum sem öðrum. Ljóst er að sú skipan að kjör útvarpsráðs fari fram eftir alþingiskosningar hefur gilt langlengst eða um 28 ár af 46 ára starfsferli útvarpsráðs.

Þegar menn kynna sér þær umr., sem orðið hafa varðandi þessi atriði, og till. til breyt., þá er það rétt, að fyrir 1943 urðu um þetta atriði deilur, en þær voru málefnalegar. lim breyt. 1943 varðandi þetta atriði og svo aftur 1971 eru ekki umr. eða deilur um þær breyt., hvorki þegar ákveðið var að útvarpsráð skyldi kosið eftir hverjar alþingiskosningar, eins og ákveðið var 1943, né að kjörtímabil ráðsins skyldi vera 4 ár, eins og samþ. var 1971.

Ég fæ ekki með neinu móti skilið þann málflutning, sem var viðhafður hér í hv. d. við 1. umr. þessa máls, þar sem talað var um pólitískt ofríki, pólitískt siðleysi og því um líkt. Þvílíkum ásökunum vísa ég algjörlega á bug. Hver hv. þm. hefur auðvitað sínar skoðanir á því hvernig hann telur þessum málum sem öðrum best fyrir komið. Í þessu efni hafa margar leiðir verið reyndar. Hér er lagt til að taka upp þann háttinn sem lengst hefur verið við hafður, þ.e. að útvarpsráð verði kjörið að loknum alþingiskosningum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. samþ. og því vísað til 3. umr.