13.12.1974
Efri deild: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

84. mál, útvarpslög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði varðandi það, sem hv. frsm. meiri hl. menntmn. sagði hér áðan. Ég skal upplýsa hann og aðra hv. þm. hér um það að í fyrra, stuttu fyrir jól, þá var þn. með mál í athugun, mjög þýðingarmikið mál. Það var talið áríðandi af ráðh. og reyndar af flestum í þn. að þessu máli yrði komið fram fyrir áramót. Ég var þá form. í þessari n. og við skiluðum okkar meirihlutaáliti sem þurfti endilega að vera minni hlutaálit, ágætur hv. þm., sem ekki er nú hér lengur í þinginu, með vissar vöflur í málinu og skilaði áliti, sem þurfti endilega að vera minnihlutaálit, þrátt fyrir að hv. þm. væri okkur sammála. Eftir þessu áliti var beðið og tekið tillit til í fleiri daga, þangað til hv. þm. loksins kom því á prent. Þetta varð til þess að málið dagaði uppi. Þetta er smádæmi um leiðsögn þeirra sjálfstæðismanna í meðferð mála á Alþ. Það hefði því ekki verið óeðlilegt, þó að a.m.k. minni hl. n. hefði fengið að koma fram sínu nál. áður en þetta mál var tekið hér fyrir til umr.

Hv. frsm. furðaði sig á umsagnaraðilanum, sem hv. þm. Stefán Jónsson nefndi, Blaðamannafélagi Íslands. Þegar ég var í heilbr.- og trn. þessarar hv. d. formaður, þá komu þeir hv. sjálfstæðismenn stundum með till. um umsagnaraðila sem þeir þurftu margar mínútur til að skýra út fyrir mér, hvers vegna í ósköpunum ætti að senda til umsagnar, og voru beinlínis í þeim tilgangi gerðar að tefja fyrir málinu eða jafnvel reyna að eyðileggja það.

Einnig í sambandi við efnismeðferð þessa máls, þar sem hv. frsm. kvartar yfir því að við höfum farið hér út fyrir efni málsins, er það af eðlilegum ástæðum. Þetta mál, þótt sérstakt sé og einkennilegt, snertir ýmislegt annað og á áreiðanlega eftir að gera. Þá vil ég líka benda á að þeir hv. sjálfstæðismenn kenndu mér mjög skemmtilega aðferð við að tala um mál hér í þinginu s.l. vor. Þá voru þeir að ræða grunnskólalögin og gerðu það af mikilli speki og miklu viti, eins og nærri má geta, og eyddu ræðutíma sínum hér hálftímum og klukkutímum saman í að ræða um vinnslu sjávarafurða.